Stefnumót við Tyrki – Pistill Gurrýjar

,

Á haustdögum var ég þeirrar ánægju aðnjótandi að taka á móti ríflega 50 manna hópi tyrkneskra sveitarstjórnarmanna í Garðyrkjuskólanum á Reykjum.  Fyrirvarinn var stuttur og það var ekki fyrr en ég stóð andspænis þessum fríða flokki tyrkneskra karlmanna (og einnar konu) að ég mundi eftir því þegar önnur Guðríður hitti slíkan flokk fyrir margt löngu.   Afleiðingar stefnumóts nöfnu minnar við Tyrkina urðu þó sýnu afdrifaríkari en í mínu tilfelli, hún fékk óvænt far til Tyrklands, mér voru færðir 7 litlir steinfílar sem munu að sögn veita mér gæfu og hamingju.  Kannski hafa Tyrkirnir lært það á þessum árum frá fyrri heimsóknum þeirra til Íslands að friðsamlegar heimsóknir fara betur í heimamenn, að minnsta kosti voru mínir gestir til mikillar fyrirmyndar og virtust ekki líklegir til brottnáms af neinu tagi. 

Þessir ágætu sveitarstjórnarmenn voru mjög áhugasamir um garðyrkju og ræktun við íslenskar aðstæður og að sjálfsögðu bauð ég þeim að heimsækja tilraunagróðurhús skólans en þar eru ræktaðar ýmsar spennandi tegundir grænmetis og ávaxta með aðstoð vaxtarlýsingar.  Fyrstu spurningar gestanna lutu að nýtingu jarðhita við upphitun gróðurhússins og hvernig þetta kerfi virkaði nú eiginlega allt saman.  Fyrir okkur Íslendinga er jarðhitinn og nýting hans daglegt brauð, við erum alin upp við það að það sé sjálfsagt mál að nýta jarðhitann í hvers konar upphitun en annars staðar er það alls ekki svo.  Greinlegt var að í hópnum voru miklir áhugamenn um pípulagnir því þeir horfðu á hið flókna kerfi röra og beygja af einskærri aðdáun.  Ég viðurkenni að ég botna hvorki upp né niður í því hvers vegna svona rörakerfi þurfa að vera svo flókin sem raun ber vitni, í  mínum augum eru þau nær því að vera innblásið listaverk sem vissara er að umgangast með tilhlýðilegri virðingu. 

Þá var komið að spurningum um jarðveginn sem plönturnar eru ræktaðar í.  Þeim þótti hann frekar undarlegur og ekki líklegur til að gefa af sér góða uppskeru en allar okkar plöntur eru ræktaðar í vikri úr eldfjallinu Heklu.  Ég útskýrði fyrir gestunum að vikurinn væri fyrirtaks ræktunarefni, hægt að nota hann nokkrum sinnum til ræktunar með því að sótthreinsa hann með gufu milli ræktunartímabila og þegar notkun lyki mætti blanda honum saman við jarðveg utandyra.  Jafnframt væri þetta endurnýjanlegt ræktunarefni því Hekla sæi okkur fyrir nýjum vikri á um það bil 10 ára fresti.  Gestirnir viðurkenndu með semingi að ákveðnir kostir gætu væru fylgjandi þessu efni en hins vegar væri ljóst að ræktunin hjá okkur stæðist ekki kröfur lífrænna ræktunaraðferða enda fá þessar plöntur tilbúinn áburð með vökvunarvatninu.  Ég stóðst ekki mátið og benti þeim einnig á að kalda vatnið sem við notum til vökvunar kæmi úr okkar eigin uppsprettu undan Reykjafjallinu, tandurhreint og svalandi íslenskt fjallavatn, óviðjafnanlegt að gæðum.

Næstu spurningar fjölluðu um koltvísýring sem er plöntum nauðsynlegur til ljóstillífunar og sykrumyndunar.  Mér til mikillar ánægju gat ég útskýrt að við gefum plöntunum okkar aukaskammt af  koltvísýringi sem við fáum í tönkum og kemur meðal annars úr íslenskri uppsprettu austur í Grímsnesi.  Á þessu stigi heimsóknarinnar játa ég fúslega að mér vall í brjósti stolt af þeim undursamlegu auðlindum sem landið okkar hefur upp á að bjóða. 

Þá hóf upp raust sína ræktandi nokkur í hópnum.  Hann fór mikinn á tyrknesku og hélt langa ræðu sem ég skildi nú ekkert í en túlkurinn þýddi í örfáum orðum:  ,,Hvað með sólarljósið?  Hvaða áhrif hefur þetta gerviljós, sem þið notið í ræktun, á gæði uppskerunnar?“  Mig rak í rogastans og verð ég nú ekki oft orðlaus.  Við höfum notað vaxtarlýsingu svo lengi á Íslandi og með svo góðum árangri að ég hef gengið að því sem gefnum hlut að hún sé af hinu góða.  Ég reyndi að færa rök fyrir því, að það skipti plönturnar engu máli hvaðan birtan kæmi, þær væru jafn ánægðar með gerviljós eins og ekta ljós og að enginn munur væri á gæðum uppskerunnar, hvorki útliti né bragðgæðum.  Ég fann það hins vegar að þarna var ég komin á hálan ís, mínir ágætu tyrknesku gestir voru alls ekki sannfærðir um að þetta væri rétt og vísuðu til þess að í Tyrklandi væru plöntur sérlega hamingjusamar enda Tyrkland mun nær sólinni en Ísland og engin þörf á gervilýsingu í ræktun þar.  Af þeim sökum væri mun heppilegra fyrir Íslendinga, væntanlega út frá manneldissjónarmiðum og gæðum matjurta, að þeir flyttu inn frá Tyrklandi ávexti og grænmeti sem ræktað er við alvöru sól. 
Að lokum klykktu þeir út með því að spyrja mig hvers vegna í ósköpunum við værum að þessu ræktunarbrasi, þegar önnur lönd væru svo augljóslega betur til ræktunarinnar fallin.   Eftir dálitla umhugsun svaraði ég því til að þegar fólk byggi í landi eins og Íslandi með allar þær dásamlegu auðlindir sem hér væru í boði, þá bæri því skylda til að nýta þessar auðlindir á uppbyggilegan og skynsamlegan hátt.  Auk þess væri hollt að hafa eitthvað sér til dundurs milli þess sem Tyrkir koma í heimsókn…

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó