Fyrstu viðbrögðin þegar maður heyrir eða les orðið sniglar eru þungt dæs, dæs yfir því að þessi slímugu kvikindi séu nú að fara á kreik, dæs yfir matarsmekk þessara dýra en þau leggjast undantekningalaust á uppáhaldssalatið eða eftirlætis fjölæringinn, dæs yfir baráttunni sem er framundan í sumar við þessi dýr, dæs yfir því að ekki er til nein ríkisleið til að ráða að niðurlögum þessarar óværu í eitt skipti fyrir öll, dæs yfir því að maður skuli ná að dæsa svona oft vegna snigla.
Sniglar hafa gert ræktunarfólki mikla skráveifu frá upphafi ræktunar enda eru þeir í þráðbeinni og hatrammri samkeppni við mannfólkið um ræktunarplönturnar. Maðurinn er ekki eina skepnan sem hefur áhuga á hollum og heimaræktuðum matjurtum, sniglar elska grænmetið sem við ræktum og þessi samkeppni er hvorki ný af nálinni né fyrirsjáanlegt að henni ljúki í náinni framtíð. Það er því eins gott að kynna sér nánar hvernig þessir samkeppnisaðilar haga sér, hvar samkeppnin er hörðust og hvernig helst er hægt að klekkja á þeim.
Það kemur kannski ekki á óvart að sniglar teljast til fylkinga lindýra, enda eru þeir linir og stundum slepjulegir (þetta lýsingarorð er að sjálfsögðu beint úr hjarta garðræktandans). Þeir eru oft með skel eða kuðung á bakinu og neðan á búknum er svokölluð skráptunga, hrufótt tunga sem sniglarnir nota til að skrapa upp fæðu. Ummerki eftir skráptungu eru greinilega á laufblöðum plantna, skráptungan ræður auðveldlega við mjúkt blaðhold en æðakerfi plantna inniheldur trénaðar æðar sem tungan ræður ekki við. Það er því auðvelt að sjá hvenær sniglar hafa komist í garðkræsingarnar, blöðin eru oft götótt í miðju og æðarnar sitja eftir. Flestir þeir sniglar sem hrella garðeigendur á Íslandi verpa eggjum, þau eru glær, nokkuð stór og gjarnan nokkur saman í hóp. Rekist maður á svona eggjaklasa er að sjálfsögðu skynsamlegt að fjarlægja hann þegar í stað og/eða kremja eggin (kannski hefði átt að vara viðkvæma við þessum pistli?).
Sniglarnir sem við þekkjum hvað best, þessir gráleitu, linu slepjulegu sem skilja eftir sig slímrönd þegar þeir skríða um garðinn, eru af fleiri en einni tegund og varla á færi nema allra snjöllustu lindýrafræðinga að greina þá rétt til tegunda. Kannski skiptir það ekki höfuðmáli fyrir garðeigendur, skaðinn er nokkurn veginn sá sami. Fjölmargar aðferðir hafa verið reyndar í baráttunni við snigla og eru lesendur þessa pistils hvattir til að skoða svona aðferðir á netinu, það getur verið hin besta kvöldskemmtun og sumar þeirra virka meira að segja!
Hins vegar hafa bæst í sniglafánuna aðrir sniglar á undanförnum árum. Þar er efstur á lista spánarsnigillinn sem telja má sannkallað óargadýr. Hann er rauðbrúnn á lit, einlitur og áberandi rákóttur á bakinu. Hann er líka töluvert mikið stærri en gengur og gerist meðal snigla, getur orðið allt að 15 cm á lengd í heimkynnum sínum sunnar í álfunni en hérlendis er hann eitthvað minni. Hann fjölgar sér mikið og hlýtt og rakt veður hentar honum ákaflega vel. Spánarsnigillinn er líka matargat hið mesta, étur allan gróður sem á vegi hans verður og jafnvel aðra snigla, ef hann er svangur (sem hann virðist nú alltaf vera). Þessi græðgispúki er nú kominn til landsins og síðastliðið sumar virðist sem hann hafi náð að fjölga sér með undraverðum hætti enda veðurfarið mjög hagstætt.
Snigillinn sjálfur lifir einungis í eitt ár og fullorðin dýr sem hafa lokið við að verpa eggjum deyja þegar haustar en egg og ung dýr yfirvetrast. Ungir sniglar grafa sig niður í jarðveg á haustin og þar geta hlýir safnhaugar verið mjög góður yfirvetrunarkostur. Garðeigendur, sem hafa orðið varið við þennan snigil hjá sér, ættu jafnvel að hreinsa lauf ofan af gróðurbeðum að haustlagi, fyrstu viðbrögð spánarsniglanna við kulda er að leita skjóls undir laufblöðum og þegar frystir fara þeir að grafa sig niður í jarðveg. Ef grunur leikur á um að þessir sniglar ætli að eiga vetursetu í safnhaug getur jafnvel þurft að fórna safnhaugnum og vökva hann með mjög heitu vatni. Slíkar aðferðir drepa auðvitað gæði góðar og slæmar lífverur í haugnum en oft er töluverður fórnarkostnaður við það að komast fyrir vandamál. Full ástæða er til að vera á varðbergi gegn þessum nýja vágesti í íslenskri náttúru og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands beðið fólk um að upplýsa um dreifingu sniglanna.
Ekki er þó eintómt svartnætti framundan því annar nýr landnemi, pardussnigillinn, er með unga spánarsnigla og egg þeirra á matseðli sínum. Hann er einnig hrifinn af rotnandi jurtaleifum en lítið gefinn fyrir ferskt grænt mataræði. Pardussnigillinn er blettóttur á bakinu eins og samnefnd kattardýr. Hann er einnig í stærri kantinum eins og spánarsnigill og fer hratt yfir, miðað við snigla. Þennan snigil ættu menn að bjóða velkominn í garða sína og passa upp á þá, ekki síst ef spánarsnigillinn er kominn í heimsókn.
Ég vona að þessi sniglapistill hafi ekki slegið garðræktendur út af laginu, sniglaglíman er einfaldlega eitt af þeim verkefnum sem þarf að kljást við í garðinum og þá er um að gera að kynna sér hvernig þessi kvikindi haga sér. Á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar, www.ni.is er að finna margvíslegan fróðleik um alls konar pöddur í íslensku umhverfi og um að gera að kynna sér það.
Gleðilegt garðyrkjusumar!
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
4 Ummæli
Mjög áhugavert
Ég elska snigla!
Helst með hvítlauk!
Skelltu þér á þetta 🙂
Comments are closed.
Add Comment