Rauðrófur – Pistill frá Gurrý


Rauðrófur hafa lengi átt sinn sess í hugum og hjörtum Íslendinga, einkum og sér í lagi súrsaðar í krukku og sem meðlæti með hátíðarmat.  Heima hjá mér voru þær alltaf kallaðar rauðbeður upp á danskan máta og get ég ekki séð að það hafi haft nein veruleg áhrif á gæði þeirra, jafnvel á þeim æviskeiðum þegar allt danskt var ómögulegt, sérstaklega tungumálið.  Súrsaðar rauðrófur fara mjög vel með reyktu kjötmeti, dönskum kæfum og fleiri sælkeraréttum og eru hreinlega ómissandi á veisluborðið. 

Rauðrófur eru af sömu plöntuætt og spínat, skrauthalaætt (Amaranthaceae) og tilheyra tegundinni Beta vulgaris. Áður voru þessar plöntur flokkaðar til hélunjólaættar en ættfræðin getur verið ansi flókin hjá plöntum, rétt eins og hjá mannfólkinu.  Nýjustu rannsóknir hafa leitt í ljós að hélunjólaættin eigi í raun heima inni í skrauthalaættinni, þarna hafa plöntur verið rangfærðar til ættar um áratugaskeið.  Sem betur fer hefur erfðatæknin leitt hið sanna í ljós.  Fleiri merkilegar nytjaplöntur teljast til sömu tegundar og rauðrófur og eru þær um margt ólíkar rauðrófunni í útliti enda um önnur afbrigði að ræða.  Rauðrófan tilheyrir afbrigðinu Beta vulgaris var. vulgaris en önnur vinsæl planta í matjurtagörðum landsmanna er stilkbeðja, Beta vulgaris var. cicla.  Stilkbeðjan myndar ekki bústnar rófur eins og rauðrófan heldur eru stilkar hennir nokkuð sverir og mjög litríkir, geta verið gulir, appelsínugulir, rauðir, bleikir eða jafnvel hvítir.  Stilkbeðjan lífgar verulega upp  á matjurtagarðinn með þessum skrautlegu stönglum og ekki spillir fyrir að hún er meinholl, blöðin henta vel í salat og stönglana má snöggsjóða og steikja svo upp úr smjöri, salta aðeins og þá er veisla.  Annar ágætlega þekktur ættingi rauðrófunnar er svo hin dísæta sykurrófa, sem þarf kannski aðeins hlýrra sumar til að geta þrifist almennilega utanhúss á Íslandi.


Rauðrófuræktun – Rauðrófur á beði

Lengi vel var reynsla ræktenda að rauðrófur gengu ekkert allt of vel, nema á allra skjólbestu og hlýjustu stöðum.  Ræktun rauðrófna hérlendis hefur hins vegar gengið ágætlega undanfarin ár og er þar eflaust um að þakka harðgerðari plöntuyrkjum sem þola stuttan vaxtartíma og þurfa kannski ekki eins mikinn sumarhita til þroskunar og gömlu yrkin.  Rauðrófurnar kjósa vel framræstan og frjósaman jarðveg, ágætt að hann sé dálítið sendinn. Best er að sá rauðrófum í litla potta eða ræktunarhólf og er ágætt að miða við að sá þeim í apríl eða snemma í maí, þá eru þær tilbúnar til gróðursetningar snemma í júní.  Mikilvægt er að passa að þær þorni ekki of mikið á uppeldistímanum og eins þarf að gæta þess að þær verði ekki fyrir næturfrosti eftir gróðursetningu úti í garði.  Þær eru nefnilega tvíærar, fyrra árið safna þær forða í rótina og seinna árið vex upp blómstöngull og þær mynda fræ.  Kuldi og þurrkur á vaxtartímanum er umsvifalaust túlkaður sem vetrartími af plöntunni þannig að lendi þær í svoleiðis hremmingum njóla þær strax á fyrsta sumri, blómstra og mynda fræ en enginn forði verður eftir í rótinni.  Í meðalári eru rauðrófurnar tilbúnar til uppskeru í lok ágúst eða byrjun september og ef haustið er milt er allt í lagi að leyfa þeim að halda áfram að vaxa fram eftir haustinu.

Meindýr og sjúkdómar eru sjaldséð á rauðrófum.  Rauðrófur eru ekkert skyldar gulrófum, gulrófur tilheyra krossblómaættinni og eru náskyldar káltegundum og fleiri góðum nytjaplöntum.  Kálflugan, sem hefur valdið gífurlegum usla í ræktun á gulrófum og káltegundum undanfarin ár, lítur alls ekki við rauðrófum og eru ræktendur því lausir við þá plágu í rauðrófuræktuninni.  Sniglar fara aðeins í blöðin á rófunum en það er yfirleitt ekki alvarlegt vandamál.

Hollusta rauðrófna er óumdeild og eru þær komnar í flokk með svokölluðum ofurfæðutegundum, fæðutegundum sem virðast stuðla að stöðugu heilbrigði mannsins, sé þeirra neytt með reglubundnum hætti.  Yfirleitt eru þær ekki borðaðar hráar, nema þá kannski fínrifnar niður í strimla, annars eru þær ýmist soðnar eða bakaðar í ofni.  Rauðrófusafi er ómissandi hluti af morgunmatnum hjá fjölda fólks og heilu þjóðflokkarnir í útlöndum hafa alist upp við rauðrófusúpu þannig að notkunarmöguleikarnir eru margvíslegir og örugglega margir aðrir betri í að tíunda þá en ég. 

Rauðrófurnar geta verið í ýmsum litum, rétt eins og systirin stilkbeðja.  Þannig er hægt að fá hvítar, gular, appelsínugular og rauðar rauðrófur og jafnvel marglitar.  Allar eiga þær það sameiginlegt að vera bragðgóðar og hollar og tilvalið að prófa sig áfram með ræktun fleiri lita en þess rauða. 

Gleðilegt rauðrófusumar

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó