Ræktun lands og lýðs

Vér verðum að gera oss vel skiljanlega þýðingu þess, að vér sækjum heilbrigði vora til lofts, ljóss, vatns og gróðurs jarðarinnar.

Á vængjum ljóssins hafa þeir geislar borizt, sem gefið hafa lífinu líf, styrk og framþróunarhæfni. Öll sú dásamlega margbreytni, sem auganu mætir hvert sem litið er, á tilveru sína ljósinu að þakka. Vissulega ber manninum, sem mest hefur verið gefið, sem hefur hlotið hæfileikann til að hugsa og gleðjast yfir þessu öllu, skylda til að varðveita þessar dásemdir. Allt þetta hefur höfundur lífsins gefið oss, svo að vér getum notið þess og stutt það til aukins þroska. En til þess að svo megi verða verðum vér að starfa í samræmi við lögmál lífsins.

Vér erum hreyknir af vorri vísindalegu þekkingu, og vér vitum að nú er framþróunin hér á jörðu að nokkru leyti í höndum vorum. Vér erum býsna hreykin af tækni vorri, en hvað líður heilbrigðinni?

Í stað þess að geta hrósað oss af vaxandi heilbrigði verðum vér að viðurkenna að mannskepnan er kvillasamasta lífvera jarðarinnar. Hvernig víkur þessu við? Í stað vaxandi heilbrigði skerum vér upp sívaxandi vanheilsu. Eitt dæmið um þessa öfugþróun eru t.d. tannskemmdirnar. Og það er ekki aðeins, að skemmdar tennur séu óhæfar til þess hlutverks að gera fæðuna hæfa fyrir meltingu magans, en það er mikilvægur þáttur í því að allir vefir líkamans fái næringu við sitt hæfi, heldur eru þær sýnilegur vottur sjúklegra breytinga, sem einnig koma fram í öðrum líffærum líkamans og veikja viðnám hans gegn sjúkdómum. Vér búum við tannlausa menningu. Auk þess gengur fjöldi manns um botnlangalaus, gallblöðrulaus og allt að því magalaus. Svona mætti lengi telja.

Til þess að ekki standi á að losa menn við líffærin, eru byggðir æ fullkomnari spítalar og þjálfað starfslið læknunum til hjálpar. Vér höfum aflað oss vísindalegrar þekkingar og viljum nota hana til að lengja lífið og lækna sjúkdóma. Skurðlækningar og lyflækningar, fyrir þessu er vel séð. Hinsvegar er harla lítið gert til þess að rækta heilbrigði og sú viðleitni er lítils metin. Samt er það svo að vegur hennar fer vaxandi meðal almennings. Trúin á pillurnar fær sífellt minni vind í seglin. Menn eru nú loksins að skilja, að sjúkdómar hafa sínar orsakir og ekki sé hægt að lækna sjúkdóma nema tekið sé fyrir þær. En hvers vegna komast þessir sjúkdómsvaldar inn í líkamann? Vegna þess að varnarkerfið er ekki í lagi. Hvers vegna er varnarkerfið ekki í lagi? Vegna þess að líkamanum hefur verið misboðið með röngu líferni ˆ lang oftast röngu matarhæfi. Menn neyta fæðu, sem hefur verið svipt því sem mestu varðar, lífinu sjálfu. Hinum lærðustu líffræðingum, sem uppi hafa verið á fyrrihluta þessarar aldar, hefur öllum komið saman um, að frumskilyrði lífs og heilbrigði sé neyzla lifandi fæðu, en ekki hin dauða fæða, sem vér látum oss sæma að bjóða líkama vorum.

Læknisfræðin er að sannfærast um, að það sé rétt, sem náttúrulækningastefnan hefur haldið fram, að líf verður að nærast á lífi. Án lifandi fæðu er heilbrigt líf óhugsandi. Það er órjúfanlegt lögmál, sem ekki verður framhjá komist, undirstaða heilbrigðinnar.

Þess sjást þegar merki, að læknisfræðin er að taka breytingum. Hún snýst æ meira á þá braut að fyrirbyggja sjúkdóma. Hún hefur þegar bent á, að fæði margra þjóða, jafnvel þeirra þjóða, sem við rýmstan kost búa, sé svo meingallað, að gerbreyta verður fæðu manna, ef almennt heilsufar á að batna. Ef vér viljum njóta lífsins í ríkum mæli, er góð heilsa frumskilyrðið. Án lifandi fæðu eignast enginn þá Guðs gjöf.

Það er fyrst og fremst hin dauða gervifæða, sem er aðalorsök allra þeirra hrörnunarkvilla, sem nú hrjá þjóðir heimsins. Öllum mönnum er lífsnauðsyn að afla sér lifandi fæðu beint af jörðunni. Það er sá líf- og orkugjafi, sem menn og dýr eiga heilsu sína undir. En því aðeins gefur jörðin líf og heilsu, að vér eigum við hana heiðarleg viðskipti. Vér megum ekki eitra moldina með framandi efnum og vér megum ekki heldur stunda rányrkju, því að þeir, sem vanvirða lögmál lífsins skera upp ógæfu.

Þessi grein birtist í 3. tbl. Heilsuverndar 1957.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi