Ræktun fyrir byrjendur

Hvort sem þú vilt hefjast handa við að rækta matjurtir á svölum, í gróðurhúsi, garði eða glugga þá eru til grænmetistegundir sem henta þínum aðstæðum og smekk. Að rækta grænmeti til eigin nota þarf nefnilega ekki að vera flókið. Við tókum saman lista yfir sjö grænmetistegundir sem er auðvelt fyrir byrjendur að rækta og því getur þú byrjað að sá, græja og gera strax í dag!

Áður en hafist er handa er gott að ákveða hvað þú vilt rækta með því að velta þessum spurningum fyrir þér:

  1. Hvar ætla ég að rækta? Á svölum, í glugga eða garði?
  2. Hversu mikið sólarljós er á þeim stað? Ég er til dæmis með norðursvalir og verð því að taka tillit til þess að ég fæ ekki mikið sólarljós þar og get því ekki ræktað hvað sem er.
  3. Í hverju ætla ég að rækta? Á ég plastbox eða gamla blómapotta sem ég get notað?
  4. Hvað nota ég mest? Notar þú mintu í þeytinga eða mikið af hvítlauk í matargerð?
  5. Hvað finnst mér gott að borða? Þetta er augljós en góð spurning enda minni tilgangur að rækta það sem þér finnst ekki gott að borða.
  6. Hvað gæti sparað mér peninga? Matjurtir eru til dæmis dýrar út í búð, því er spurning hvort þú viljir að rækta þær sjálf/ur.

1. Salat/kál
Brakandi fersk lauf með miklu bragði og mismunandi áferð eru algjörlega ómótstæðileg. Á sumrin er einfalt að rækta hinar ýmsu salattegundir í potti úti á svölum eða í garðinum. Byrjaðu á því að finna hæfilega stóran pott, kauptu næringarríka mold og fræ. Farðu eftir leiðbeiningum og bíddu svo spennt/ur. Salat þarf mikið sólarljós og reglubundna vökvun. Grænkál er harðgert og hentar vel til ræktunar við íslenskar aðstæður.

2. Graslaukur
Graslaukur er harðger planta og lifir flest af. Hann er fjölær svo að hann poppar upp ár eftir ár og þarf lítið sem ekkert að hafa fyrir honum. Fáðu afleggjara frá vini eða kauptu fræ, skelltu í pott út á svalir og leyfðu honum að spretta upp á methraða. Graslaukurinn þarf ekki mikið sólarljós og þrífst vel hvort sem er í norður eða suður birtu.

3. Kartöflur
Reyndar er orðið aðeins of seint að byrja í ár en þetta er eitthvað sem er auðvelt að gera heima. Í febrúar/mars er gott að setja kartöflur í kartöflupoka sem er að hluta til fylltur með gróðurmold. Þegar grænar rætur fara að skjótast upp úr jarðveginum er kominn tími til að setja meiri mold ofan á. Endurtaktu þetta þar til pokinn er fullur og þá þarftu bara að muna eftir að vökva. Uppskeran er svo tilbúin10-20 vikum seinna þegar laufin verða gul. Helltu þá úr pokanum og leitaðu í moldinni að heimaræktuðum kartöflum. Þetta getur þú geymt úti eða inni í geymslu.

4. Minta
Mintan er frábær jurt fyrir byrjendur í ræktun en hún er einnig fjölær og vex sjálf upp ár eftir ár. Það eina sem þú þarft er mold og afleggjari frá nágrannanum, forræktuð planta úr gróðrarstöðeða minta úr búðinni sem þú gróðursetur í moldina og leyfir að vaxa og dafna. Mintan er frábær út á salatið, í sumardrykki og dressingar. Passa þarf þó upp á að hafa hana í sér íláti og ekki setja nálægt öðrum plöntum þar sem hún er mjög skriðul og getur von bráðar náð yfirráðum í garðinum.

5. Hvítlaukur
Hann er frábær, því hann þarf varla að hugsa um og því góður fyrir þá sem eru utan við sig. Einfaldlega settu lauk í mold eða einstaka rif á vorin eða haustin og leyfðu þeim svo sjálfum að sjá um rest! Síðsumars þegar laufin verða gul þá getur þú náð í laukana sem hafa þroskast í moldinni og þurrkað þá í sólinni áður en þú geymir þá. Gæti ekki verið auðveldara. Einnig er hægt að nýta lauf hvítlauksins í salöt.

6. Tómatar
Tómatar geta vaxið á ofurhraða. Hægt er að kaupa plöntu og setja í hangandi körfu eða í gluggasillu. Ef þú vilt rækta frá fræi er gott að taka fræ úr lífrænum tómati úr búð sem þér finnst bragðgóður, setja í pott með mold og leyfa að spíra.
Tómataplöntur geta þó orðið 8-10 metrar á hæð og jafnvel hærri – því er gott að leita eftir dvergvöxnum sortum ef þú vilt rækta frá fræi. Þegar fræið hefur spírað þá kemur upp kímplanta og þegar fyrstu varanlegu laufblöðin hafa myndast þá er komin smáplanta. Ein smáplanta í pott er feiki nóg – ein planta þarf þó nokkuð rými, mikið af vatni og mikið af næringu. Rétt er að fækka blómum plöntunnar, ein planta nær ekki að þroska tómata úr öllum blómunum.

7. Radísur
Radísur eru auðugar af kalíum og C-vítamíni auk þess sem þær gera salatið fallegra með sínum bleika lit. Sáið fræjum nokkuð þétt eða 10 til 15 fræ í 3 lítra pott. Hyljið þau með mold. Vökvið vel og haldið svo röku. Ræktunartíminn er um 30-40 dagar. Kippið svo radísunum upp, einni og einni eftir því sem þær þroskast án þess að trufla vöxt þeirra sem eru í kring.

Nú er bara að bretta upp ermar og mála á sig græna fingur!

Heimildir:
http://www.sunset.com/garden/fruits-veggies/easy-edible-plants
http://www.sparkpeople.com/resource/nutrition_articles.asp?id=1293
http://www.thompson-morgan.com/top-10-easy-to-grow-vegetables

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Lífræn ræktun – Framtíð okkar allra

1 Ummæli

Hvað getum við gert? | Kolefnislosun.is | Einstaklingar 4. maí, 2021 - 17:52

[…] Ræktun fyrir byrjendur, grein sem Dagný Gísladóttir skrifaði á nfl.is er full af fróðleik sem gæti komið að gagni við fyrstu skrefin en listinn hér að ofan er fenginn að láni þaðan að mestu óbreyttur. […]

Comments are closed.

Add Comment