Staðsetning Íslands hér rétt norður undir heimsskautsbaug og einangrun þess frá öðrum löndum er að mörgu leyti mjög heppileg. Við þurfum til dæmis ekki að standa í landamæraerjum við nágrannaþjóðir, hingað kemur enginn nema eiga beinlínis erindi og loftslag og veðurfar eru með þeim hætti að hér þrífst ekki nema brot af þeim sjúkdómum og meindýrum sem herja á náttúruna í nágrannalöndum okkar. Kannski er það ástæðan fyrir því að almenn hræðsla við skorkvikindi hvers konar er óvíða eins útbreidd og inngróin og hjá Íslendingum. Hlýnandi veðurfar undanfarinna ára hefur haft í för með sér að smám saman nema hér land æ fleiri tegundir skordýra sem margar hverjar hafa nú þegar gert töluverðan usla í ræktun landsmanna, einhverjar hafa lagt sér heilu húsin til munns og síaukin ferðalög manna um heimsins lönd og höf tryggja stöðugan straum innflutnings af veggjalúsum, höfuðlúsum og sambærilegum dýrum hingað til lands. Lúsmýið, sem notaði sumarið í að éta sig hægt og rólega í gegnum heilu fjölskyldurnar, hefur ekki bætt úr skák og gert sitt til að sverta mannorð skordýra.
Miðað við þessa auknu fjölbreytni í skordýrafánu landsins mætti ætla að umburðarlyndi og þolgæði landsmanna gagnvart þessum smávöxnu nýbúum á landinu færi vaxandi með ári hverju en það er nú öðru nær. Miðað við mínar eigin athuganir á pödduhræðslu þá held ég að sjúkleg pödduhræðsla sé vaxandi vandamál. Athuganir mínar hef ég einkum stundað með því að fylgjast með viðskiptavinum garðyrkjustöðva, börnum og barnabörnum í minni fjölskyldu og annarra og gestum í gróðurhúsum og viðbrögðum þessara aðila þegar þeir hitta fyrir skordýr af einhverju tagi. Tekið skal fram að á engan hátt hafa þessar athuganir mengast af vísindalegum vinnubrögðum eða hlutleysi gagnvart viðfangsefninu.
Grunnskólabörn, sem fyrir nokkrum árum veiddu grápöddur í glerkrukkur með loki sem jafnframt var stækkunargler, skoðuðu pöddurnar, töldu lappir, fylgdust með fálmurum og voru frá sér numin af hrifningu yfir dásemdum náttúrunnar, hlaupa nú æpandi út úr gróðurhúsum ef þau svo mikið sem sjá grápöddu hornauga og harðneita að koma aftur inn nema paddan verði aflífuð. Grápöddur eru meinleysisgrey og gera jafnvel nokkuð gagn þannig að börnin verða bara að sleppa heimsóknum í gróðurhús.
Aðrir aldursflokkar virðast vera jafnútsettir fyrir pödduhræðslu og grunnskólabörn, að minnsta kosti hef ég ekki greint mun á viðbrögðum eftir aldri. Háöldruð kona sem heimsótti gróðrarstöð sem ég var stödd í fyrir nokkrum árum, rak hornauga í flugu sem hún taldi vera illskeyttan geitung, snarsnerist á hæli og hljóp æpandi á harðahlaupum út úr stöðinni. Það sem vakti mesta furðu mína og töluverða aðdáun yfir þessum viðbrögðum var að hún var á háum hælum og gekk við staf. Miðaldra karlmaður í jakkafötum reyndi að bera sig mannalega þegar kónguló gerði sig heimakomna á skrifstofunni hans en að lokum brast hann kjark og bað samstarfskonu sína um að fjarlægja kvikindið. Annað samstarfsfólk varð vitni að þessari aðstoð og fékk manngreyið umsvifalaust viðurnefnið kóngulóarmaðurinn.
Engu máli virðist skipta hvort um er að ræða mannýg og stórhættuleg skordýr eða meinleysiskvikindi sem hafa hreinlega engan áhuga á samskiptum af neinu tagi við mannfólk, virða það ekki viðlits. Allar pöddur eru settar undir sama hatt, framkalla sömu móðursýkikenndu óttaviðbrögð, jafnvel þannig að friðsemdarfólk grípur til örþrifaráða og hreinlega ofbeldis. Í gegnum tíðina hefur til dæmis fjöldi saklausra húsflugna orðið viskustykkjum, upprúlluðum dagblöðum og misgóðum flugnaspöðum að bráð, þrátt fyrir að hafa ekki annað til sakar unnið en að vera verulega pirrandi.
Hjón sem ég þekki, reyndu ítrekað að fá barnabörnin sín til að koma með sér í sumarbústaðinn sinn og eiga þar gæðastundir með ömmu og afa. Eftir töluverðar samningaviðræður sem snerust að einhverju leyti um hversu lengi þau mættu þá vera í spjaldtölvunum sínum, hvort það yrðu ekki örugglega hamborgarar í alla mata og hvort það væri ekki alveg á hreinu að það mætti fara heljarstökk á trampólíninu, samþykktu börnin að skella sér í sveitina. Þegar þangað var komið varð uppi fótur og fit. Sumarbústaðurinn var alls ekki hæfur til íveru því þar inni voru flugur. Amman og afinn voru mjög undrandi á ofsafengnum viðbrögðum barnanna og reyndu að útskýra að flugurnar væru bara partur af sveitalífinu. Það fannst nú börnunum léleg rök því flugur væru fullar af sýklum og bæru með sér sjúkdóma. ,,Og amma, það kúkaði fluga á ísinn minn í útlöndum!!“ öskraði annað barnið, grátbólgið í framan, steinhissa á skilningsleysi ömmunnar. Stuttu seinna var farangrinum pakkað í bílinn og hópurinn hélt heim. Ömmur og afar láta gjarnan foreldrana um að leysa úr málum.
Það er því töluvert fagnaðarefni að haustið er á næsta leyti, þá minnkar pödduúrvalið.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
1 Ummæli
Uffe B. sagði einusinni “ merkilegt með íslendinga er að þeir eru hræddir við öll dýr sem eru minni en hestur „
Comments are closed.
Add Comment