Plöntuhornið – Gúmmítré þykir afbragðs lofthreinsir

Ficus elastica eða gúmmítré er sígrænt tré sem myndar loftrætur með tímanum. Þau geta orðið ansi hávaxin eða allt að 30-40 metrar í heimkynnum sínum. Blaðstilkur er ávalur og stuttur. Blöðin innrúlluð þegar þau eru ung, yfirleitt umlukin rauðleitu hlífðarblaði, annars meira eða minna sporbaugótt, leðurkennd, gljáandi græn, neðra borð er matt. Mörg yrki með breytileika í blaðlit, blaðlögun og blaðstærð.

Staðsetning
Ficus elastica þrífst best á björtum stað, bein sól hentar tegundinni ekki. Hentar vel í stofu eða í stórt skrifstofurými.

Hitastig
Stofuhiti, en aðeins svalara að vetri ef möguleiki er á.

Vökvun og næring
Þarf meðalvökvun á vaxtartíma, en lítið að vetri. Þolir ekki að of blauta pottamold eða að standa í vatni, við það gulna laufblöðin og falla af. Gott er að gefa plöntunni næringu í þriðju hverri vökvun á vaxtartímanum.
Þarf hátt rakastig og því er gott að úða plöntuna annað slagið með vatni og strjúka af blöðum með rökum klút til að hreinsa af þeim ryk.

Annað
Ficus elastica greinir sig ekki sjálfur og vex því stjórnlaust upp í loft á skömmum tíma. Til að koma í veg fyrir þetta, er toppurinn tekin af á meðan plantan er ung, við það að fjarlægja toppinn vaxa greinar út úr blaðöxlunum. Athugið að stofninn trénar fljótt, best er að fjarlægja toppinn þegar stofninn er enn mjúkur.
Ef þið fjarlægið af plöntunni toppinn mun leka úr henni mjólkurlitaður safi (gúmmí), safinn getur verið ertandi fyrir húð og augu og er eitraður við inntöku. 

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://www.ourhouseplants.com/plants/rubber-plant
https://en.wikipedia.org/wiki/Ficus_elastica
http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/ficus-5/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið