Plöntuhornið – Tengdamóðurtunga

Sansevieria trifasciata eða tengdamóðurtunga er sígræn fjölær jurt frá Afríku. Hún hefur verið að þvælast á milli ætta í gegnum tíðina, tilheyrir nú ættinni Asparagaceae.
Blöðin upprétt, striklaga til lensulaga, stíf, dökkgræn með ljósgrænar eða gráleitar þverrákir. Sex til átta blöð saman í þyrpingu á þykkum jarðstöngli. Blöðin geta orðið allt að 90 cm löng og 7 cm breið. Gamlar plöntur blómstra ljósgulum ilmandi blómum 

Staðsetning
Sansevieria þrífst best á björtum stað en þolir þó nokkurn skugga, gæti upplitast í mikilli sól.

Hitastig
Stofuhiti (16-24°C) hentar tegundinni vel.

Vökvun og næring
Eitt af því fáa sem getur grandað þessari tegund í heimahúsum er ofvökvun. Pottamoldin þarf að vera jafnrök á vaxtartíma tegundarinnar, á veturna þarf að vökva sjaldnar, nóg til að koma í veg fyrir að moldin ofþorni. Það þarf að gefa áburð á vaxtartíma, í þriðja – fjórða hvert skipt sem vökvað er. Varist að vökva yfir blaðhvirfinguna.

Annað
Fjöldi yrkja er fáanlegur, breytileiki í stærð og blaðlit.
Yrkið ˈLaurentiiˈ hefur gula blaðjaðra, hefur gengið undir heitinu indíánafjöður.
Yrkið ˈHahniiˈ er lágvaxnara en tegundin sjálf, blöðin breið og mynda tregtlaga blaðhvirfingu. Sami litur og á tegundinni, hefur gengið undir heitinu tengdapabbi.
Sansevieria trifasciata er ein þeirra tegunda sem bætir hjá okkur andrúmsloftið. Hún hentar vel á heimilið, á skrifstofuna eða í skólastofuna. Einföld í meðförum, skemmtileg í laginu og eykur súrefnið innandyra.

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
Myndirnar með greininni eru í eigu floradania.dk
http://www.guide-to-houseplants.com/mother-in-laws-tongue.html
http://www.missouribotanicalgarden.org/PlantFinder/PlantFinderDetails.aspx?kempercode=b617
http://www.smgrowers.com/products/plants/plantdisplay.asp?plant_id=3952
https://en.wikipedia.org/wiki/Sansevieria_trifasciata
http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/sansevieria-1/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið