Plöntuhornið – Stofuaskur

Radermachera sinica eða stofuaskur á uppruna sinn að rekja til Asíu, þar sem hann er lítið sígrænt tré.
Laufblöð eru gagnstæð, tví-fjaðurskipt, smáblöðin odddregin, dökkgræn og gljáandi. Laufblöð Radermachera sinica minna á laufblöð asksins (Fraxinus excelsior) og þaðan er líklega íslenska heitið komið. Falleg planta sem myndi sóma sér vel í hvaða stofu sem er. Gerir þó nokkrar kröfur til eigenda sinna þ.e. þolir ekki miklar breytingar á högum sínum.

Staðsetning
Stofuaskur þrífst vel á björtum stað en þolir ekki beina sól. Hann þarf að lágmarki fjórar – fimm klukkustundir af góðri birtu á dag.

Hitastig
Stofuhiti (18-24°C) hentar stofuaskinum vel. Það þarf að velja honum stað þar sem hann fær næga birtu og nægan hita, hann þolir ekki trekk því þarf hann að vera fjarri opnum gluggum og hurðum. Hann má ekki standa við ofn, loftið í kringum hann verður þá of þurrt.

Vökvun og næring
Pottamold þarf að vera jafnrök. Hann þolir ekki að standa í vatni, ef vökvað er neðan frá þá má plantan standa að hámarki í  30 mínútur í vatninu, þegar tíminn er liðinn er umfram vatni hellt frá. Of blautt og of lengi getur orsakað rótar rot. Hann má ekki heldur þorna of mikið, of þurrt þá gulnar laufið og fellur af. Á vaxtartíma þarf að gefa áburð, áburður er gefin með vökvunarvatni í þriðja hvert skipti sem vökvað er. Fylgið leiðbeiningum á umbúðum. Á veturna er dregið úr vökvun og áburðargjöf sömuleiðis.

Annað
Stofuaski er illa við að vera umpottað, komið honum því fyrir í framtíðarpottinum. 
Mikilvægt er að átta sig á að stofuaski er illa við breytingar. Breytingar á birtu, vatni, hitastigi og potti (umpottun) geta orsakað blaðfall. Því er best að velja honum góðan stað til frambúðar. Ef hann tapar laufinu, þá þarf að klippa hann niður, mögulega niður um tvo þriðju. Á sama tíma þarf að draga verulega úr vökvun til að koma í veg fyrir rótarrot.
Glæsileg planta sem er dálítið vandfýsinn – en er dekursins virði. 

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
Myndirnar með greininni eru í eigu floradania.dk
http://www.gardeningknowhow.com/houseplants/china-doll/radermachera-sinica.htm
http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/radermachera/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið