Plöntuhornið- Sjómannsgleði

Aglaonema commutatum eða sjómannsgleði er ein af þessum klassísku stofuplöntum. Hún tilheyrir Kólfblómaættinni (Araceae), en tegundir þeirra ættar eiga það sameiginlegt að blómið er kólfur. Aglaonema commutatumer sígrænn hálfrunni frá Filipseyjum og getur orðið allt að 50 cm hár í heimkynnum sínum. Blaðstilkar eru 6-10 cm langir, laufblöðin 10-19 cm löng og 4-6 cm breið, jurtkennd, þykk, græn og á milli æða eru ljósir eða öskugráir flekkir. Safi úr plöntum þessarar ættar er eitraður (calcium oxalate – raphides), getur valdið ertingu á slímhimnu, augum og húð.

Staðsetning
Aglaonema commutatum  býr yfir þó nokkurri aðlögunarhæfni, er ein þeirra tegunda sem þolir vel takmarkaða birtu og þurrt stofu – eða skrifstofuloft. Beina sól þolir hún ekki, litur laufblaðanna fölnar.

Hita – og rakastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel (18-24°C) en er ekki hrifin af kulda og trekki, því ætti að varast að koma henni fyrir þar sem gustar reglulega. Þolir vel þurrt loft og látið eiga sig að úða yfir hana vatni, úðinn skilur eftir sig bletti á laufblöðunum.

Vökvun og næring
Best er að halda pottamoldinni jafnrakri og áburðargjöf með hverri vökvun á vaxtartíma líkar henni vel. Þar sem tegundir þessarar ættkvíslar þola illa kulda þá er ágætt að venja sig á að vökva með volgu vatni.

Annað
Mörg ræktunaryrki eru fáanleg með breytilegu blaðmynstri. Skemmtileg blaðpottaplanta sem sómir sér vel í rými með takmarkaðri birtu. Einnig er hún afbragðs lofthreinsir.

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 2. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/aglaonema/
http://www.guide-to-houseplants.com/chinese-evergreen.html
https://www.landsbjorg.is/assets/slysavarnirheimilid/skadlegar_jurtir.pd

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið