Peperomia argyreia eða silfurpipar er sígræn tegund frá Suður Ameríku. Blaðfögur tegund sem setur sterkan svip á umhverfi sitt. Þetta er lágvaxin jurt með skjaldlaga eða breið egglaga kjötmikil laufblöð.
Laufblöðin eru 8-13 cm á lengd, með 7-9 æðstrengi, silfurgrá að lit á milli æðstrengja. Blaðstilkar eru rauðleitir og tengjast blöðku á miðju blaði.
Staðsetning
Þrífst best á björtum stað en þolir ekki beina sól.
Hita – og rakastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel (18-24°C), hún þolir ekki hitastig undir 10°C. Meðalloftraki hentar tegundinni vel, ef loft verður of þurrt yfir sumarmánuðina má úða yfir hana annað slagið. Ef plantan stendur með öðrum plöntum, þarf ekki að hafa áhyggjur af rakastig.
Vökvun og næring
Peperomia þolir ekki of eða van, best er að vökva tegundina vel neðanfrá, moldin má þorna á milli þannig að efsta yfirborðið nái að þorna – moldin á að vera jafnrök. Á vaxtartíma er þarf hún næringu, með fjórðu hverri vökvun.
Annað
Góð planta fyrir þá sem telja sig ekki hafa græna fingur, er auðveld í allri umgengni – það eina sem ber að varast er of eða van vökvun. Silfurpipar blómstrar á sumrin, blómin eru smá og grænleit á löngum blómstilkum – tegundin er ræktuð vegna laufblaðanna ekki vegna blómanna sem eru ekkert sérstök fyrir augað.
Á ensku gengur silfurpipar undir heitinu Watermelon Peperomia.
Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.
Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 2. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://floradania.dk/nc/planter/pv/sl/data/peperomia-2/
http://www.houseplantsexpert.com/watermelon-peperomia.html