Plöntuhornið – Nóvemberkaktus

Schlumbergera hybrid – nóvemberkaktus. Hér er um fjölda ræktunarafbrigða að ræða með mismunandi blómlit og blómgunartíma.
Schlumbergera er áseti á trjám í heimkynnum sínum þar sem hann unir sér vel í hálfskugga og í röku loftslagi. Hann er án laufblaða, liðfletirnir mynda stöngla plöntunnar.
Schlumbergera myndar ekki þyrna eins og aðrir kaktusar, það myndast þófar (hárknippi) á tenntum jaðri liðflatanna og blómin myndast á enda liðflatana, hvít, bleik, rauð. Blómstrar frá því í lok október og út nóvembermánuð.

Staðsetning
Schlumbergera þrífst best á björtum stað, vægur skuggi hentar honum vel en hann þolir ekki beina sól. Hafa hann á björtum stað á blómgunartíma og í minni birtu á hvíldartíma.

Hitastig og raki
Hitastig í kringum blómgunartíma þarf að vera 15-20°C og á veturna eftir blómgun þarf hann hvíld við lægra hitastig, 10 – 15°C. 
Hann vill nokkuð hátt rakastig, til að tryggja honum það er hægt að setja grófan vikur í pottahlífina eða undirskálina, bleyta vel en passa þó að plantan sjálf standi ekki í vatni. Þegar vatnið gufar upp af vikrinum hækkar rakastigið í kringum plöntuna.

Vökvun og næring
Pottamold á að vera jafnrök, það þarf þó að varast ofvökvun því rætur plöntunnar þola ekki að standa í vatni. Vökvað á 8 – 10 daga fresti. Áburður er gefin í þriðja hvert skipti sem vökvað er, farið eftir leiðbeiningum á umbúðum áburðargjafa.

Annað
Schlumbergera myndar blóm við stuttan dag, á Íslandi er dagur orðinn stuttur í byrjun október.
Hvíldartími Schlumbergera hefst að lokinni blómgun, í janúar – mars er gott að koma þeim fyrir á svölum stað, á þessum tíma eru þeir sjaldan vökvaðir, aðeins til að koma í veg fyrir að þeir ofþorni. Í apríl – september þurfa þeir ríflega vökvun og áburð eða eins og lýst er hér að framan og stofuhiti hentar þeim vel.
Í september – og fram yfir fyrstu vikuna í október er hægt að stytta daginn með því að myrkva plöntuna (þarf átta – tíu klukkustundir af dagsbirtu), ef það er of mikið vesen þá er hægt að draga úr vökvun og hitastigi á meðan blómmyndun á sér stað.
Þegar svo blómknúppar eru farnir að sýna lit, þá er óhætt að hækka hitann aftur og auka vökvunina. Þrátt fyrir að þessar lýsingar, þá er hún ótrúlega nægjusöm og auðveld í meðförum. Margar gamlar sortir virðast viðkvæmar fyrir því að þær séu hreyfðar úr stað á blómgunartíma og geta við það fellt blómin og blómknúppanna.

Myndirnar sem notaðar eru með þessari grein eru teknar af floradania.dk

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur

Heimildir:
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://www.ourhouseplants.com/plants/eastercactus
https://www.rhs.org.uk/advice/profile?pid=840
http://pkm.dk/dk/sortiment/schlumbergera-flame/pasningsvejledning/
https://en.wikipedia.org/wiki/Schlumbergera
http://floradania.dk/planter/pv/sl/pg/1/data/schlumbergera/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið