Hypoestes phyllostachya eða freknujurt/freknulauf verður allt að 50 cm. hár og breiður sígrænn hálfrunni í heimkynnum sínum.
Blöðin eru lensulaga til egglaga, 5-8 cm löng og 3-4 cm breið, heilrend, blaðjaðrar örlítið bylgjaðir, græn með rauðar æðar og freknur. Mikill breytileiki er í blaðstærð og blaðlit, græn blöð með bleikar eða hvítar freknur sem geta verið misstórar. Skemmtileg viðbót í safnið, frískar upp á græna litinn sem er jafnvel fyrirferðamestur í plöntuvali inn á heimilið.
Staðsetning
Hypoestes phyllostachya þrífst best á björtum stað, freknur verða meira áberandi þar sem birta er aðeins takmörkuð en slík staðsetning getur komið niður á vaxtarlagi plöntunnar sem verður í teygðara lagi. Er illa við beina sól.
Hitastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel, en hún er rakakær. Getum brugðist við því með því að koma henni fyrir á baðherbergi eða úðað hana með vatni annað slagið.
Vökvun og næring
Þarf ríflega vökvun á vaxtartíma, pottamold þarf að vera jafnrök. Drögum úr vökvun að vetri. Þarf næringu með þriðju hverri vökvun.
Annað
Skemmtileg planta, litskrúðugt laufið lífgar upp á heimilið eða skrifborðið. Er fáanleg sem almennileg pottaplanta en hafa einnig verið fáanlegar sem smáplöntur sem væri þá hægt að planta saman í víðari potta eða skálar.
Það má alveg skipta út plöntum, ef plöntur okkar eru í vanþrifum eða við hreinlega orðin leið á þeim þá er ekkert að því að endurnýja.
Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.
Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/hypoestes/
https://en.wikipedia.org/wiki/Hypoestes_phyllostachya
http://www.gardeningknowhow.com/houseplants/polka-dot-plant/growing-polka-dot-plants.htm