Plöntuhornið – Rifblaðka er stórvaxin blaðpottaplanta

Monstera deliciosa eða rifblaðka er stórvaxin planta með dökkgræn gljáandi laufblöð á löngum blaðstilk.
Er sígrænn áseti í heimkynnum sínum þar sem hún vex upp eftir öðrum plöntum og myndar langar loftrætur sem sjá plöntunni fyrir vatni og næringu er þær komast í snertingu við mold. Blöðin eru hjartalaga, heilrennd og leðurkennd, 50-100 cm löng og 40-70 cm breið. Á æskuskeiði eru laufblöðin hjartalaga og heilrennd, þegar aldurinn færist yfir myndast laufblöð með miklar skerðingar og jafnvel göt. 

Staðsetning
Monstera deliciosa  þrífst best á björtum stað, en þolir ekki beina sól. Vegna stærðar hentar rifblaðkan vel í rúmgóðar stofur og skrifstofur.

Hitastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel, mjög þurrt loft í langan tíma gæti reynst henni erfitt.

Vökvun og næring
Pottamold þarf að vera jafnrök, varist ofvökvun og moldin á helst ekki að þorna mikið. Gott er að gefa plöntunni næringu í þriðju hverri vökvun á vaxtartímanum, ef ykkur finnst vöxtur of mikill þá má draga úr næringargjöf.

Annað
Monstera deliciosa er á listanum yfir eitraðar plöntur. Ef blaðstilkar brotna eða laufblöð rifna, þá getur lekið úr þeim safi. Safinn er ertandi fyrir slímhúð, augu og jafnvel húð. Notið hanska þegar plantan er meðhöndluð.
Blóm tegundarinnar er kólfur og við þroska myndast ætt aldin sem er keimlíkt ananas á bragðið. Þroskað aldinið er það eina sem ekki innheldur ertandi eða eitruð efnasambönd. Ekki er líklegt að tegundin blómstri í heimahúsi.

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 1. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/monstera/
https://en.wikipedia.org/wiki/Monstera_deliciosa
http://ntbg.org/plants/plant_details.php?plantid=7693
http://www.ourhouseplants.com/plants/monstera-deliciosa
https://www.landsbjorg.is/assets/slysavarnirheimilid/skadlegar_jurtir.pdf
https://en.wikipedia.org/wiki/NASA_Clean_Air_Study

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið