Pottaplantan veðhlaupari er á lista Nasa yfir lofthreinsandi plöntur

Chlorophytum comosum eða veðhlaupari er gamalkunn tegund á íslenskum heimilum. Tegundin sjálf er græn en afbrigði með mislitum blöðum (ljósar rendur) er þau sem hafa notið vinsælda. Blöðin eru kjöllaga,  20-40 cm löng, 1,5-2,5 cm breið og vaxa upp frá miðju plöntunnar. Fljótlega koma fram langir gulleitir blómstilkar sem vaxa hratt og sveigjast aftur. Fremst á blómstilkunum myndast  blómklasar með lítil, hvít stjörnulaga blóm. Þegar blómin falla vaxa blaðskúfar þar sem áður voru blóm – mynda rætur við jarðvegssamband.

Staðsetning
Chlorophytum comosum  þrífst best á björtum stað, afbrigði með mislit blöð verður að standa á björtum stað til að viðhalda ljósu röndunum. Plöntur af tegundinni með hrein græn blöð þolir þó nokkurn skugga en vöxtur verður ekki mikill. Veðhlaupari kann ekki að meta að standa í sól. Hentar vel í stofu, skrifstofurými, svefnherbergi og í kennslustofu. Getur verið stakur í potti eða hengipotti, eða nokkrir saman í víðum potti.

Hitastig
Stofuhiti hentar tegundinni vel – þolir vel lægra hitastig og gæti því vel gengið utandyra á góðum sumardögum.

Vökvun og næring
Chlorophytum comosum er með forðarætur og getur sótt þangað næringu ef við gleymum okkur um stund. Pottamold þarf að vera jafnrök á vaxtartíma, drögum úr vökvun á veturna. Gott er að gefa plöntunni næringu í þriðju hverri vökvun á vaxtartímanum. 

Annað
Tegundin náði inn á lista Nasa yfir lofthreinsandi tegundir – eiginleiki hennar er að hreinsa formaldehíð úr loftinu í kringum okkur. Lífrænt kolefnissamband sem kann að valda ofnæmi og astma.
Veðhlaupari er auðveldur í umgengni og gæti verið áhugaverður fyrir börn heima og í skólanum þar sem þau geta fylgst með þegar plantan myndar afkvæmi sín í enda blómstönglanna. Litlum pottum er komið fyrir nálægt mömmunni, blaðskúfunum í enda blómstöngulsins er stungið grunnt í raka mold og þegar rætur hafa myndast er klippt á „naflastrenginn“. Veðhlaupari heitir spider plant á enskri tungu

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 2. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
Myndin með greininni er tekin af vef floradania.dk http://floradania.dk/planter/pv/sl/data/chlorophytum/
http://www.ourhouseplants.com/plants/spiderplant
https://en.wikipedia.org/wiki/Chlorophytum_comosum
https://en.wikipedia.org/wiki/NASA_Clean_Air_Study

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið