Plöntuhornið – Alparós

Rhododendron simsii eða alparós / stofulyngrós  er sígræn tegund frá Austur Asíu þar sem hún getur orðið allt að tveir metrar á hæð. Ræktunaryrki verða um 45 cm á hæð og eru þau ræktuð til notkunar innandyra.
Laufblöð eru leðurkennd, stundum gljáandi, oddbaugótt eða egglaga 2-5 cm löng. Blómin 2-6 saman á stöngulenda, þau eru tregtlaga 4-5 cm á breidd, ljósbleik – dökkbleik að lit. Fjöldi ræktunaryrkja er fáanlegur með breytileika í vexti, blaðstærð, blómstærð, blómlögun s.s. einföld eða fyllt. Margir litir og litatónar.

Staðsetning
Rhododendron simsii þrífst best á björtum stað ef hún er með blómknúppa eða blómstrandi en þolir ekki beina sól, ekki mikil hætta á því á þessum tíma. Þegar blómgun er lokið líkar henni best að vera í sólarlausum glugga.

Hita – og rakastig
Þeim líður best þar sem ekki er of heitt, hámark 16°C – við þetta hitastig endist blómgun mun lengur – við stofuhita að 20°C endist blómgun í 2-3 vikur. Ef ræktunarefni er nægilega rakt, þá er þörf plöntunar á loftraka fullnægt.

Vökvun og næring
Rhododendron þarf súran svarðmosa (Sphagnum) og þarf hann að vera jafnrakur allan líftíma plöntunnar. Nú er íslenskt vatn frekar basískt og þarf því að gefa plöntunni súran áburð með fjórðu hverri vökvun.

Annað
Glæsileg stofuplanta sem getur prýtt heimilið með sínum fögru laufblöðum og blómum, hún getur blómgast aftur að vori ef hún er sett í meiri kulda að blómgun lokinni og dregið er úr vökvun, hitastig sem hentar er allt að 13°C. Þegar fer að bera á blómknúppum er plantan færð í meiri hita og birtu og ræktunarmoldin þarf að vera jafnrök.

Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.

Heimildir:
Lavsen, Erik Riis. Potteplanter – slægter, arter og grundlæggende dyrkningsdata, 2003. Biofolia.
Kristín Þórðardóttir. Pottaplöntur, handbók um meðferð og umhirðu, 2. hefti. 1997. Garðyrkjuskóli Ríkisins.
http://floradania.dk/nc/planter/pv/sl/pg/1/data/rhododendron/
http://www.plantsrescue.com/rhododendron-simsii/

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Vel heppnað kryddjurtanámskeið