Jarðgerð – Molta

Umhverfisvernd verður sífellt háværari nú á tímum hamfarahlýnunar. Einn stór þáttur sem stuðlar að umhverfisvernd er að skila frá sér minni úrgangi. Árið 2017 var magn heimilissorps á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu tæp 240 kg, þ.e.a.s. HEILT TONN á fjögurra manna fjölskyldu á ári hverju.
Það er því mikið unnið með því að reyna að minnka þennan gríðarlega úrgang sem kemur frá okkur á degi hverjum. Eitt að því er að flokka betur og koma sér upp tunnu fyrir lífrænan úrgang eða moltu. Þó eru sum sveitarfélög á Íslandi sem bjóða íbúum upp á sorptunnu fyrir lífrænan úrgang, það er þó ekki þannig í sveitarfélagi undirritaðs, Kópavogi.

Nýverið tók ég upp á því að koma mér upp moltutunnu enda brenn ég fyrir heilsu móður jarðar og umhverfismálum. Ég fjárfesti góðri tunnu frá Terra (áður Gámaþjónustunni) og fylgihlutum. Mig langar að deila með ykkur kæru lesendur grundvallaratriðum þess að koma sér upp moltutunnu. Von mín er að sem flestir landsmenn reyni hvað þeir geti til að minnka sorp frá sér, sem m.a. er hægt að gera með moltutunnu.

Við búum á norðurhveli jarðar og og veðurfar hér er ekkert sérlega hagsætt fyrir moltugerð en þó er það vel hægt með réttri stýringu og góðu utanumhaldi. Raunverulega geta allir stundað jarðgerð svo lengi sem aðstaða leyfir það hjá viðkomandi.

Hvernig verður molta til?

Með motlu erum við flýta niðurbroti lífrænna efna sem gerist mun hægar í náttúrunni. Í moltugerðinni skapast kjöraðstæður fyrir örverur að brjóta niður (melta) sorpið. Við þetta niðurbrot myndast orka í formi hita sem örverur nota svo til að fjölga sér enn frekar, hitinn getur farið í allt að 60-70°C í vel einangraði moltutunnu. Þetta háa hitastig drepur líka óæskilegar bakteríur eins og e.coli og salmonellu.
Tunnan sem ég keypti er einangruð og henta þær betur í jarðgerð á matarleifum því hiti helst betur og niðurbrot gengur hraðar fyrir sig.
Vert er að benda á að hvert kg af lífrænum úrgangi verður að 0,6 kg af moltu.

Hvað má fara í moltutunnuna? Allt lífrænt sem brotnar niður

Matarafgangar:
– Grænmeti
– Ávextir
– Kornmeti
– Brauð
– Pasta, spaghetti
– Eggjaskurn
– Kjöt
– Fiskur
– Kaffikorgur og kaffipokar
– Tepokar

Annar lífrænn úrgangur:
– Pappírsklútar
– Garðaúrgangur s.s.  gras, visnuð blóm, greinar og aðrar plöntur
– Sag
– Dagblöð og pappi

Hvað má ekki fara í moltutunnuna? Ólífrænt og það sem brotnar hægt og illa niður:
– Bein (mjög lengi að brotna niður)
– Timbur
– Gler
– Plast
– Ryksugupoka
– Kattasand
– Frenur
– Notuð grillkol
– Sígarettustubba
– Einhæfan úrgang – þarf fljölbreytni svo moltugerðin gangi vel.

Hvað þarf að hafa í huga þegar moltugerðinni er startað?

Í leiðbeiningum sem ég fékk með stóru moltutunnunni minni frá Terra  kemur fram að mikilvægast sé að leggja 10-15 cm lag af grófum greinum í botninn til að loft nái að komast vel að moltunni, því það er loftgöt við botninn á moltutunnunni sem ekki má stífla.  Því næst má blanda aðeins grófari garðaúrgangi s.s grasi og laufum. Að þessu lokum er best að byrja á að bæta við ávöxtum og grænmeti.  Ekki er gott að byrja að setja kjöt eða fiskafganga fyrr en moltugerðin er farin vel af stað, það tekur yfirleitt nokkrar vikur.

Hvernig á að láta moltugerðina virka sem best?

Mikilvægt er að loft nái að leika um moltuna og eru loftgöt á botni moltutunnunnar. Hægt er að setja stoðefni með eins og dagblöð eða tilbúin stofefni. Ég keypti með moltutunni svona tilbúið stoðefni sem heitir, Kompostströ. Þetta stoðefni tryggir jafnvægi kolefnis, köfnunarefnis og rakainnihalds moltunnar. Með þessu er hægt að skapa kjöraðstæður í moltugerðinni og flýta ferlinu á niðurbrotinu.
Það sem getur skemmt moltugerðina er of mikill kuldi, mikil bleyta, ekki nægt súrefni og flugur. Ólykt frá moltutunnunni getur verið vegna þess að moltumassinn sé of blautur og súrefni kemst ekki að.  Við þessar súrefnissnauðu aðstæður fjölgar sér bakteríuflóra sem myndar metangas og gerjun á sér stað. Þetta stuðlar að því að lofháðu örverurnar sem brjóta niður lífræna úrganginn ná sér ekki á strik og niðurbrostferlið hægist, hitastigið í moltunni lækkar og sterk lykt kemur úr tunnunni.
Til þess að koma í veg fyrir þetta súrefnisleysi er mikilvægt að róta reglulega í massanum og færa þar með örverunum súrefni. Með tunnunni minni fékk ég sérstakan loftunarstafur sem ég sting reglulega ofan í massann til koma súrefni að. Einnig nota ég litla hrífu til að róta vel í massanum.
Með  því að róta reglulega í massanum og nota loftunarstafinn er ég líka að fylgjast með niðurbrotinu í tunnunni. Ef loftunarstafurinn er kaldur og massinn loðir við hann er massinn of blautur og þarf þá að setja meira af stoðefnum eða hræra betur. Ef loftunarstafurinn er nokkuð hreinn og volgur þegar stungið er í massan fer niðurbrotið eðlilega fram.

Staðsetning moltutunnunnar

Mikilvægt er að tunnan sé á á stöðugu undirlagi og að auðvelta sé að athafna sig við hana. Ég staðsetti mina tunnu á efri pallinum í litla garðinum mínum við trjárunna. Sérstaklega í byrjun á moltugerðinni getur ólykt verið að plaga og því er mikilvægt að hafa tunnuna ekki of nálægt húsakynnum eða opnum gluggum. Tunnan mín er í garðinum sem snýr í suður og hjálpar það til með niðurbrotið því sólin skín meira sunnan megin og hjálpar hitinn fá henni til með niðurbrotið.

Hvenær verður moltan tilbúin?

Moltugerðin er stöðugt í gangi og oft erfitt að segja hvenær henni lýkur. Talið er að það taki um 4-12 mánuði að búa til fullgerða moltu.
Það sem fer í tunnuna brotnar niður mishratt t.d. brotna ávextir og grænmeti hratt niður en pappír, brauð og kjöt brotna mun hægar niður.
Moltan er tilbúin þegar hún er orðin fíngerð, dökkbrún og nær lyktarlaus. Ef það er enn gróf efni í tilbúnni moltu er hægt að sigta tilbúnu moltuna frá og setja grófari efnin aftur í moltutunnuna.

Hvað hef ég lært af þessari motlugerð?

Nú er ég búinn að vera með þessa moltutunnu í nokkrar vikur og þetta er vissulega smá vesen en samt mjög skemmtilegt. Ég hef líklega lent í öllum þeim vandamálum sem hægt er að lenda í en um leið lært heilmikið á þeim. Í byrjun setti t.d. ég of fínan úrgang þannig að ég stíflaði loftgötin á botninum og súrefni komst ekki að og lyktin var hreint út sagt ógeðsleg. Svo kom tímabil þar sem ég hélt að tunnan væri að springa svo mikill var hitinn orðinn í massanum.
Moltugerðin er nú komin á ágætis skrið en þó er ég ekki enn farin að setja kjöt- og fiskafganga.
Það skonda i þessu öllu er að mínir nánustu (sérstaklega mamma mín) vita af þessari nýjusta tómstundagamani mínu og eru nú alltaf að senda mig heim með matarafganga og annan lífrænan úrgang.

Góður kostur í þessu ferli öllu er að ég huga meira að því sem ég hendi og sóun er minni. Að lokum vill ég þakka Terra sérstaklega fyrir þessa góðu tunnu og ég veit að hún á eftir að reynast mér vel í framtíðinni.

Heimildir:

https://www.visir.is/g/2018181019556
https://www.terra.is/vefverslun/jardgerdartunna
https://www.terra.is/vefverslun/stodefni-vegna-jardgerdar
https://minnasorp.com/2019/04/09/lifraenn-urgangur/
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1286257/
https://www.ust.is/library/Skrar/Einstaklingar/urgangur/Heimajardgerd/UST_Jardgerdarefni.pdf

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is

Related posts

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó