Lóan – Pistill frá Gurrý

Kannski ætti pistill um lóuna betur við í upphafi sumars, ekki seinni partinn í ágúst þegar flestar skynsamar lóur eru að búast til brottfarar fyrir veturinn, búnar að koma upp ungunum sínum, orðnar bústnar og vöðvastæltar fyrir langflug haustsins.  Ég fyllist ákveðnum trega þegar farfuglarnir fara að hópa sig síðla sumars, það er eitt skýrasta merkið um að nú sé sumarið á enda, sumarfríið búið, haustið framundan, rútínan að bresta á.  Á hinn bóginn er það líka tilhlökkunarefni að hitta vinnufélagana eftir fríið, koma börnunum í skólann, stilla lífið aftur eftir klukkunni, kannski er það steingeitin í mér sem gleðst yfir svona ferköntuðu lífi.

Aftur að lóunni.  Í mínum huga hefur lóan alltaf verið fallegur fugl með fögur hljóð.  Eitt fyrsta fuglahljóðið sem ég lærði að þekkja var einmitt hið ljúfa tví-tvÍÍÍ lóunnar og eftir að ég náði lágmarksfærni í að flauta var lóuflautið fastagestur á lagalistanum.  Fátt er notalegra en að vakna upp á björtum sumarmorgni við notaleg lóuhljóð, þau heyrast meira segja enn þá hér í þéttbýlinu í uppsveitum Kópavogs þar sem mávar og hrafnar ráða alla jafna ríkjum.  Litir lóunnar eru líka sérlega fallegir og hún er eini fuglinn sem ég man eftir í svipinn með sportrönd eftir endilöngum búknum.

Í sumar kynntist ég nýrri hlið á lóunni og er ég enn að gera það upp við mig hvort ég eigi að hafa hana áfram á topp fimm vinsældalistanum yfir frábæra fugla.  Í sumarbústaðalandinu mínu búum við svo vel að lóur, spóar og hrossagaukar heiðra okkur sumarlangt með nærveru sinni.  Þessir fuglar hafa orpið á svæðinu og komið upp ungum og vonandi hefur það gengið stóráfallalaust hjá þeim.  Spóinn verpti lengi vel undir tjaldvagni sem var geymdur hjá nágrannahjónunum yfir veturinn og gerði það að verkum að þau hjón komust aldrei í útilegur fyrri hluta sumars.  Hrossagaukar björguðu ljótasta lerkitré Suðurlands því í hvert skipti sem átti að saga tréð niður var komið hrossagaukshreiður undir það.  Í dag er þetta tré orðið hátt og myndarlegt og ljótleikinn tilheyrir fortíðinni.  Lóan hefur orpið á ýmsum stöðum og yfirleitt álíka óheppilegum og hinir fyrri.

Einn góðan veðurdag í júlí brá svo við þegar ég gekk um landið mitt og skoðaði árangur gróðursetningar að allt í einu spratt upp við fætur mér lóa sem bar sig mjög aumlega.  Hún tísti ámátlega og hljóp svo á undan mér, að því er virtist vængbrotin á hægri væng, að minnsta kosti hékk hann máttlaus niður með búknum og lamdist í jörðina.  Á einum tímapunkti batnaði henni í hægri vængnum en sá vinstri varð samstundis ónothæfur.  Af og til leit lóan til baka til að kanna hvort ég elti hana ekki örugglega og tísti aftur.  Ég er nú eldri en tvævetur og áttaði mig strax á því að ég væri komin ískyggilega nálægt hreiðri.  Ég hraðaði mér því aftur inn í hús og lóunni batnaði jafn skyndilega.  Eftir dálitla stund heyrðist aftur hlýlegt tví-tvííí og allt féll í ljúfa löð.

Liðu nú nokkrir dagar, tíðindalausir að mestu nema það að mér áskotnaðist falleg planta sem ég ákvað að gróðursetja á sólríkan og skjólgóðan stað.  Ég sótti mér verkfæri, mold og vænan skammt af sauðataði og byrjaði að moka holu.  Eftir dálitla stund heyri ég undarlegt hljóð við hlið mér, einhvers konar skrjáf eða mjúka skelli.  Í fyrstu skellti ég skollaeyrum við þessum skrýtnu hljóðum en þegar þau héldu áfram leit ég upp og til hliðar.  Í rúmlega metersfjarlægð var lóan, illileg á svip.  Hún hafði sett undir sig hausinn og barði báðum vængjum ákveðið niður í grasið (sem útskýrði mjúku skellina og skrjáfið).  Á sama tíma sendi hún mér stingandi augnaráð og tísti svo grimmilega einu ákveðnu tví-i.  Fram að þessu augnabliki hefði ég aldrei trúað því að lóutíst gæti verið svona skelfilegt.  Við horfðumst í augu og hún endurtók tístið um leið og hún tók nokkur ógnandi skref í áttina að mér.  Það var greinilegt að hún áleit að tími leikþátta væri liðinn og nú væri ekkert nema fúlasta alvara framundan.  Ég skildi á þessari stundu að plantan mín yrði ekki gróðursett á þessum stað, tók saman mitt hafurtask og gekk rólega í áttina að húsinu.  Lóan sendi mér nokkur ókvæðistíst á meðan og eftir því sem ég fjarlægðist varð tónninn alltaf meira sigri hrósandi.  Eftir góðan og hjartastyrkjandi kaffibolla ákvað ég að finna annan stað fyrir plöntuna mína í hinum enda landsins og hugsaði með mér að þar væri ég komin nógu langt frá lóunni.  En allt kom fyrir ekki, nú var lóan búin að átta sig á því að hún hafði algjörlega yfirhöndina í okkar sambandi, um leið og ég gerði mig líklega til verka kom hún æðandi að og rak mig í burtu.  Nú er kannski ekki skynsamlegt af fullorðinni konu eins og mér að láta eitt lítið lóutetur stýra verkum í sumarlandinu en á hinn bóginn er ég full aðdáunar á þessari hugrökku lóumóður sem ræðst að því sem við fyrstu sýn virðist vera ofurefli og hlýtur fullnaðarsigur.  Það var hins vegar óþarfi hjá henni að tísta svona grimmilega, hún hefur alveg eyðilagt fyrir mér gleðina yfir lóuhljóðunum.  Vonandi lagast það í vetur..

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið

1 Ummæli

Stjórn 8. september, 2017 - 13:33

Snilldar penni!

Comments are closed.

Add Comment