Litrík jól – Pistill frá Gurrý


,,Mamma, koma núna rauðu jólin eða hvítu jólin?“ spurði fjögurra ára dóttir mín fyrir nokkrum árum.  Í hennar huga virtust jólin vera fyrirbæri sem hægt væri að fá í tveimur litum og að mamma hennar, eins og mæður annarra fjögurra ára barna, gæti upp á sitt eindæmi ákveðið litinn á jólunum. Móðirin útskýrði gerði sitt besta til að útskýra áhrif veðurfars og úrkomu á jólalitinn en barninu fundust þessar útskýringar furðulegar. Á aðfangadag þessara jóla byrjaði að snjóa.  Drifhvít hundslappadrífan sveif tignarlega til jarðar í fullkomnu logni, jörðin var færð í sparijólabúninginn og allt varð kyrrt og hljótt og einstaklega jólalegt. Snjónum kyngdi niður fram eftir kvöldi og eldsnemma á jóladagsmorgun dreif sú stutta sig út með stóru systur sinni og bjuggu þær til dásamlega myndarlegan snjókarl með gulrótarnef og valhnetur fyrir augu og munn. Upp úr klukkan 11 fór að rigna og rétt eftir hádegið var snjókarlinn horfinn, ekkert eftir nema ein dapurleg gulrót og nokkrar valhnetur á stangli á stéttinni.  Snjókarlinn var syrgður af tveimur telpum sem hugguðu sig þó við það að mamma náði að taka mynd af þeim þremur, áður en hið eldsnögga bráðnunarferli átti sér stað. 

Á hverju ári veltir fólk fyrir sér hvort jólin verði rauð eða hvít.  Rauðu jólin eru sosum ekkert verri en þau hvítu, jólamaturinn er alveg jafn góður á bragðið, flestar jólahefðir á mínu heimili fara fram innanhúss (nema sú hefð að fara út í skóg að höggva jólatré), jólamessan hljómar alveg jafn vel í útvarpinu og fram til þessa hefur veðurfar ekki haft teljandi áhrif á fjölda, stærð eða fjölbreytni jólapakka fjölskyldunnar.  Það er bara eitthvað svo jólalegt við hvít jól, einhver galdur sem hrífur mann í sérhvert sinn, einhver friður, einhver tilfinning sem hittir mann beint í hjartastað og er sterkust á jólunum.  Hvít jól verða þó að uppfylla ákveðin skilyrði. Snjórinn þarf að vera kyrr á sínum stað í ákveðinn tíma, helst fram yfir áramót, ekki einungis vegna hátíðleikans heldur getur snjór á hraðferð hamlað för milli staða og valdið ómældum vandræðum. Snjórinn lýsir einnig umhverfið upp þannig að skammdegið verður ekki eins þrúgandi og litrík jólaljósin líta einstaklega vel út innrömmuð af snjó. 

Jólin tilheyra hinum óútreiknanlega vetrartíma á Íslandi, allra veðra er von. Það er því vissara að skoða jólaveðurspána vandlega áður en lagt er af stað í ferðalög, jafnvel þótt einungis eigi að bregða sér milli hverfa í þéttbýli. Jólaklæðnaður Íslendinga er oft á tíðum ekki sérlega skjólgóður og það getur gleymst að grípa með sér lopapeysu og dúnúlpu þegar farið er í jólaboð. 
Skóflan hefur stundum verið tekin úr skottinu á bílnum til að koma jólainnkaupunum fyrir og gleymst að setja hana  aftur á sinn stað og keðjur eru almennt ekki lengur staðalbúnaður í fólksbifreiðum, að minnsta kosti ekki þegar ferðast er innanbæjar. Gefi veðurspáin það til kynna að vissara sé að vera bara heima ættu menn hiklaust að fylgja því heilræði. Það er miklu huggulegra að njóta þægindanna heima hjá sér en að sitja fastur í snjóskafli í brjáluðu veðri og átta sig þá allt í einu á því að björgunarsveitarfólkið, sem er alltaf boðið og búið að koma og bjarga fólki úr vandræðum, er hugsanlega að njóta þægindanna heima í faðmi fjölskyldunnar.  Ég efast ekki um  eitt augnablik að okkar frábæra björgunarsveitarfólk stekkur af stað og bjargar, án þess að hugsa sig tvisvar um en kannski ættu ferðalangar að hugsa sig tvisvar um áður en þeir ana illa búnir út í óvissuna.

Síðasti vetur var okkur hressileg áminning um að ferskir vindar geta svo sannarlega blásið um landið. Ríflega 40 lægðir gengu yfir landið á um fjögurra mánaða tímabili með tilheyrandi vindgangi og úrkomu.  Fyrsti hvellurinn gekk yfir um mánaðamótin nóvember-desember 2014 og í minningunni finnst mér eins og alltaf hafi verið brjálað veður.  Um jólaleytið þurfti að sæta lagi milli lægða til að komast í jólaboðin og kuldagallinn og föðurlandið voru aldrei langt undan. Fjallvegir í nágrenni Reykjavíkur hafa aldrei verið eins oft lokaðir á þessari öld eins og síðasta vetur og mynduðust oft langar bílaraðir sitt hvorum megin við slíka vegi meðan beðið var eftir opnun.  Eitt jólalegasta atvik síðasta vetrar var þegar ég var vitni að því að bílaröð yfir 100 bíla kom akandi í einni lest niður Kambana að kvöldlagi eftir að Hellisheiðin var opnuð fyrir umferð eftir lokun.  Bílaljósin mynduðu óslitna keðju ljósa sem liðaðist niður beygjurnar á Suðurlandsveginum og minntu þannig á lifandi jólaseríu. Ekki spillti heldur fyrir léttirinn yfir því að geta loksins ekið af stað heim eftir langan vinnudag, það er jú alltaf best að vera heima.

Eins og staðan er núna er útlit fyrir að hvítu jólin gleðji okkur á Íslandi í ár, kuldi í kortum og veðurfræðingarnir hafa teiknað falleg snjókorn á veðurkortin sín. Vindvélarnar mega halda sig til hlés þannig að skafrenningur skemmi ekki færð því margir þurfa að komast milli landshluta fyrir jólin.  Þegar heim er komið er yfirleitt ekkert að því að vera veðurtepptur í nokkra daga (að því gefnu að samkomulagið í fjölskyldunni sé sæmilegt) og bíða þess að veðri sloti, vegir opni og lífið komist aftur á réttan kjöl. 

Dóttir mín fjögurra ára velti jólalitunum mikið fyrir sér af yfirvegaðri heimspeki jafnaldra sinna. Að setja lit jólanna í samhengi við veðurfar fannst henni ótækt.  Hún horfði um stund á jólaljósin á jólatrénu og sagði svo:  ,,Mamma, af hverju skírum við jólin ekki í höfuðið á jólaljósunum og höfum bara litrík jól?“. Við svona speki er ekkert svar annað en samþykki. Við höfum því haldið upp á litríku jólin á mínu heimili en haft auga með útijólunum til að vita hvernig þarf að búa sig fyrir jólaboðin. Af þessum þrennum jólagerðum held ég hreinlega að litríku jólin séu best, þau hafa alla vega ekki valdið vonbrigðum fram að þessu…

Gleðileg jól!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og jólabarn

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó