Lífræna hornið

Eftir að ég flutti búferlum til Danmerkur hafa lífrænar matvörur verið mér afar hugleiknar. Ekki hvað síst munurinn á aðgengi að þeim á Íslandi og Danmörku. Sumir spyrja sig af hverju maður ætti að vera að eltast við lífrænan mat á meðan aðrir eru sannfærðir um kosti hans til þess að halda heilsu. Það er ekki mitt að leggja mat á hvort sé rétt og er þessi grein því aðeins skrifuð um hugleiðingar mínar sem 5 barna móður sem trúir því að það geti alla veganna alls ekki sakað að borða frekar lífrænt og að þær staðreyndir sem ég viti um lífrænan mat geri hann eftirsóttarverðan í mínum augum.

Þeir sem borða eingöngu lífrænt geta verið nokkuð vissir um það að þeir séu ekki að borða t.d. leifar af skordýraeitri eða erfðabreytt matvæli. Þá eru ótaldir allir aðrir kostir sem lífræn ræktun á matvælum hefur eins og t.d. minni grunnvatnsmengun, fjölbreyttari náttúra og betri aðbúnaður fyrir dýr. Þetta hljómar vissulega allt vel og væntanlega enginn sem myndi halda því fram að hann vildi einmitt hið gagnstæða.

En málið er nú samt ekki alveg svo einfalt. Á Íslandi þarf nefnilega að hafa talsvert fyrir því að borða eingöngu lífrænt. Þeir sem eru vanir að vera alltaf í næstu matvöruverslun þurfa að breyta neysluvenjum sínum talsvert þar sem úrvalið af lífrænu einskorðast þar almennt við eina hillu eða eitt horn í búðinni. Vilji þeir geta borðað fjölbreytta fæðu en samt haldið sig við lífræna ræktun þurfa þeir að versla í sérverslunum. Þetta er í sjálfu sér ekkert stórmál ef fólk er skipulagt en vandamálið felst helst í því að talsvert mikill verðmunur er á milli flestra lífrænna matvara á Íslandi og svo þeirra „hefðbundnu“. Það er einfaldlega dýrt að versla lífrænt.

Málið flækist líka talsvert ef fólk á börn í t.d. leikskólum og skólum þar sem þau borða t.d. hádegismat. Ætli foreldrar sér að ala börnin sín upp eingöngu eða að mestu leyti á lífrænu fæði þurfa þau væntanlega að nesta börnin vel að heiman, því lítil vitundarvakning hefur átt sér stað á Íslandi um lífrænan mat í skólum og öðrum opinberum stofnunum. Ég verð að viðurkenna að ég verslaði ekki eins mikið lífrænt á Íslandi og ég gjarnan hefði viljað. Á 7 manna heimili voru matarinnkaupin einfaldlega nógu dýr þó karfan væri fyllt bara af „hefðbundnum“ mat í ódýrustu versluninni.

Í Danmörku er þessu öðruvísi farið. Í almennum matvöruverslunum er hægt að velja um lífrænan kost af nánast öllum þeim vörum sem standa í hillunum. Ekki þarf að leita að þeim sérstaklega heldur standa þær við hliðina á hinum „hefðubundnu“ matvörunum. Þetta á jafnt við um grænmeti og ávexti, allan almennan heimilismat sem og ýmsa óhollustu eins og t.d. snakk, kökur og kex. Það er nefnilega mikill misskilningur að allar lífrænar vörur séu hollar. Verslanir taka gjarnan sjálfar fram hvaða ávextir hafi verið sprautaðir og gera þannig viðskiptavinum auðvelt fyrir að forðast slíkar vörur ef það er meiningin. Það munar almennt nánast engu í verði og því er ísskápurinn okkar núna fullur af lífrænni mjólk, smjöri, jógúrt,safti, ávöxtum, grænmeti og kjöti. Ennfremur hefur Kaupmannahafnarborg ákvæði sem kveður á um að árið 2015 skuli 90% þess matar sem borinn er fram í eldhúsum borgarinnar vera lífrænn. Í lok árs 2011 var þetta hlutfall komið upp í 74%. Þetta á við um t.d. leikskóla, grunnskóla, elliheimili og sjúkrahús. Engu að síður eru ansi margir leikskólar t.d. sem bjóða upp á nánast 100% lífrænan mat. Gera þeir það sem lið í því að skapa sér samkeppnisyfirburði og fá foreldra til þess að senda börnin sín þangað. Sé leitað á netinu undir leitarorðunum „lífrænt í leikskóla“ má t.d. sjá að mjög margir foreldrar leita gagngert að dagmömmum eða leikskólum sem bjóða eingöngu upp á lífrænt.

Það er augljóst að lífrænn matur skipti Dani miklu máli enda kom í nýlegri rannsókn fram að rúmlega 30% Kaupmannahafnarbúa segjast kaupa eitthvað lífrænt í hverri búðarferð og 54% sögðust gera það af og til. Mikið hefur verið skrifað um lífræna ræktun sem og erfðabreytt matvæli á Íslandi undanfarið og verður áhugavert að sjá hvernig það mun hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga,

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Lífræn ræktun – Framtíð okkar allra