Lífræn ræktun vörn gegn mengun

Margt hefir verið rætt og ritað um lífræna ræktun, bæði með henni og móti. Þeir sem notað hafa þá aðferð árum saman eru sannfærðir um að með henni fá þeir bragðbetri uppskeru sem geymist betur og lengur en það sem ræktað er á venjulegan hátt. En gróðasjónarmiðið fælir menn frá notkun lífræns áburðar. Óneitanlega er hún ekki samkeppnisfær að öllu leyti, því að hún útheimtir meiri vinnu og meiri tíma, og þess vegna þurfa framleiðendur að fá hærra verð fyrir vöruna. Á því eru ýmsir annmarkar. En þeir sem reynt hafa þessar vörur mundu fúslega greiða hærra verð fyrir þær en matvörur ræktaðar með venjulegum aðferðum.

Þetta sýnir erlend reynsla, þar sem heilsuvöruverslunum fjölgar og eftirspurn fer vaxandi eftir grænmeti og öðrum matvörum sem framleiddar eru án notkunar tilbúins áburðar og skaðlegra eiturefna. Skilningur almennings glæðist óðum á nauðsyn þess að vernda heilsuna og koma í veg fyrir sjúkdóma fremur en að lækna þá, m.a. með því að forðast eftir föngum eiturmenguð matvæli. Og sífellt fjölgar röddum vísindamanna og fræðimanna sem vara við vaxandi mengun í umhverfi okkar á öllum sviðum. Fyrir rúmum tíu árum kom út bókin „Raddir vorsins þagna“ eftir ameríska konu, þekktan rithöfund að nafni Rachel Carson, en þýðinguna gerði Gísli Ólafsson. Bók þessi fjallaði um mengunarvandamálið og vakti heimsathygli. Og í vetur kom út önnur stórmerk bók um svipað efni eftir enska fræðimenn „Heimur á helvegi“, þýdd af dr. Bjarna Helgasyni. Í bókinni er m.a. fjallað um ræktun og áburðarnotkun, og fer hér á eftir hluti af þeim kafla. Ætti þetta að vera hvatning til manna um að leggja enn meiri áherslu á notkun búfjáráburðar og annarra lífrænna áburðartegunda.

Tilbúinn áburður gegnir veigamiklu hlutverki í flestallri ræktun. Ofnotkun hans leiðir þó til tveggja lítt viðráðanlegra vandamála. Annarsvegar er mengun í ám og vötnum og hinsvegar er gengið á aðra frjósemisþætti jarðvegsins, svo að leiðir til minnkandi uppskeru. 

Næsta skref í breyttri áburðarnotkun skal vera það, að lífrænn áburður komi smátt og smátt í stað tilbúins áburðar. Óhjákvæmilegt er þó að bæta lífræna áburðinn upp með tilbúnum áburði. Samhliða þessu ber að taka sáðskiptaræktun upp á ný svo og venjulega ræktun túna. Og þar með hefst lokaskrefið, sem er blandaður búskapur í stað sérhæfingar. En með því er alls ekki verið að taka upp gamla góða búskaparlagið, heldur er verið að hverfa frá tilbúinni stundarfrjósemi landsins og stefnt að eðlilegri hringrás næringarefnanna með því að skila aftur því sem burtu er tekið. Með þessu skrefi hætta menn að bera utanaðkomandi næringarefni að lífskeðju landbúnaðarins, efni sem plönturnar nota að nokkru leyti, en sem að öðru leyti skolast niður í jarðveginn með úrkomunni og burtu með jarðvatninu.

Höfuðkostur lífræns áburðar er, að hann virðist henta jarðveginum miklu betur en tilbúinn áburður, vegna þess að næringarefni lífræna áburðarins leysast hægar upp en næringarefni tilbúna áburðarins. Í húmus er t.d. aðeins um 0,5% köfnunarefnisins í auðleystum ólífrænum samböndum sem skolast geta burtu eins og næringarefni tilbúna áburðarins. Allt annað köfnunarefni;húmusins er að finna í samböndum rotnandi jurtaleifa, skorkvikinda og búfjáráburðar, og losnar það því aðeins smátt og smátt.

Jarðvinnsla verður tiltölulega auðveld ef í jarðveginum er ríflegt magn rotnandi lífrænna efna. Vatn binst líka betur í jarðveginum, og hann verður síður að leðju, um leið og nýtanleg næringarefni geymast betur og í meira mæli en þegar jarðvegurinn er snauður af rotnandi efnum. Jafnframt skapa lífrænu efnin kjörskilyrði fyrir smáverulíf jarðvegsins sem er eitt grundvallaratriðanna fyrir varanlegri frjósemi landsins. Bestu aðferðirnar til að auka lífræn efni jarðvegsins eru sáðskipti með belgjurtum og ræktun grasa fyrir búpening. Með slíkri ræktun getur búfénaður á beit líka valið sér grösin eftir lostæti og því fitnað á eðlilegan hátt. Húsdýraáburður bætir jafnframt jarðveginn í stað þess að valda beinni mengun eða yfirfylla skolpræsin.

Hin yfirgripsmikla þekking sem aflað hefir verið á lífskeðjum landbúnaðarins gerir kleift að stunda fjölbreyttan og hæfilega blandaðan búskap. Þessi mikla þekking verður ekki betur notuð, og hún á enn eftir að aukast með áframhaldandi rannsóknum.

Skrifað af Niels Busk
Birtist í ritinu Heilsuvernd árið 1975

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Lífræn ræktun – Framtíð okkar allra