Keðjusagarmanía – Pistill frá Gurrý

Fyrir nokkrum árum skellti miðaldra heimilisfaðir í Kópavogi sér í verkfærabúð og keypti sér keðjusög.  Í hans huga var keðjusög eins nauðsynleg í verkfærasafnið og hrærivél í eldhúsið og þvottavél í þvottahúsið, hann gat einfaldlega ekki án keðjusagar verið.  Þegar heim var komið með keðjusögina fór þessi ágæti heimilisfaðir í stuttermabol, tók niður lesgleraugun og gekk út í garð.  Í garðinum blasti við ýmiss konar trjágróður, hávaxin reynitré og þróttmiklar aspir, gamalgróin birki- og víðilimgerði, gróskumiklir rósarunnar, berjarunnar í blóma og plöntur með bogsveigðar og þokkafullar greinar, þaktar blómknúppum.   Heimilisfaðirinn var sosum ekkert að velta sér mikið upp úr þessari líffræðilegu fjölbreytni garðsins, húsmóðirin var meira í þessu plöntudúlleríi, hans hlutverk frekar að vinna erfiðisverkin eins og að moka holur, snúa safnhaugnum, slá grasið og klippa og snyrta trjágróðurinn.

Keðjusögin hrökk í gang í fyrstu tilraun enda glæný og til í allt, titringurinn frá söginni hríslaðist um heimilisföðurinn og hann fann að þetta yrði dagur góðra verka, dagur afkasta og erfiðis, dagur trjáfellinga og stórkostlegra afreka í garðyrkju.  Hann byrjaði á gamla víðilimgerðinu sem var löngu orðið úr sér sprottið og hann vissi að þyrfti að saga niður af og til, til að fá plönturnar til að þétta sig.  Víðilimgerðið lækkaði úr tveimur metrum í tuttugu sentimetra á örskömmum tíma.  Hornrétt á víðilimgerðið og á lóðamörkum við næstu lóð var gamalt birkilimgerði, um þriggja metra hátt.  Heimilisfaðirinn tímdi nú ekki að saga það alveg niður í rót þannig að hann tók vel ofan af birkinu og eftir stóð um meterhá röð af birkitrjábolum.   Þegar þarna var komið sögu var okkar manni farið að hitna í hamsi, hann var kominn í stuð, það söng og hvein í keðjusöginni og afsagaðar trjágreinar og trjábolir báru dugnaðinum fagurt vitni.  Hann ákvað því að ráðast til atlögu við trén sem höfðu verið eiginkonunni mikill þyrnir í augum allt frá því að sólpallurinn var smíðaður, hún kvartaði stöðugt yfir skugga og sólarleysi á pallinum og náði bara alls ekki þeim karamellugullinbrúna húðlit sem stefnt var að.  Þó vildi eiginkonan gjarnan fá að vera í góðum friði fyrir forvitnum augum þegar hún sólaði sig á pallinum.  Heimilsfaðirinn góði ákvað því að saga gamalt krónumikið reynitré við hornið á pallinum niður í þriggja metra hæð og eftir stutta umhugsun fékk himinhá alaskaösp, sem einnig hafði valdið skugga og vandræðum, sömu meðferð.  Trjábolunum hélt þessi ágæti maður vel til haga enda liðtækur smiður í frístundum en trjágreinarnar, sem fylltu nokkrar kerrur, fóru beint í Sorpu, til jarðgerðar og kurlunar.  Heimilsfaðirinn lagðist til hvílu um kvöldið, stoltur af afrekum sínum og sérlega ánægður með afrakstur dagsins.

Næsta vor byrjaði mjög vel.  Víðilimgerðið hagaði sér eins og til var ætlast, skaut upp fjöldanum öllum af kröftugum sprotum og varð með tímanum aftur gróskumikið og þétt.  Birkilimgerðið aftur á móti olli nokkrum vonbrigðum.  Til að byrja með komu á enda trjábolanna þéttir greinakransar, sem minntu helst á veglegan hárflóka eða nornavendi.  Ekki skánaði þessi kransamyndun með tímanum.  Limgerðið sem áður hafði verið nokkuð jafnþétt frá toppi til táar var nú orðið að tilviljanakenndum greinabrúskum sem voru ekki til mikillar prýði.  Auk þessa fór að bera á einhvers konar sveppagróðri á trjástofnunum, maðkur og lús gerðu töluverðan usla og með  hverju árinu varð þetta fyrrverandi limgerði æ ljótara og endaði saga þess örfáum árum síðar með því að síðustu plöntulufsurnar voru rifnar upp og þeim hent.  Um það leyti hafði heimilisfaðirinn aflað sér þeirra upplýsinga að birki þolir alls ekki svona meðferð, betra hefði verið að fjarlægja bara plönturnar strax.

Niðursöguðu trén, reynirinn og alaskaöspin, virtust ekki almennilega gera sér grein fyrir því hvernig þau ættu að hegða sér, svona höfuðlaus. Örvæntingarfullar rætur skutu upp rótarskotum um allan garð og var töluverð vinna að kljást við þessu óboðnu tré.  Fljótlega eftir að kollurinn var tekinn af þeim brutust fram litlar greinar í þéttum brúski efst á þessum afsöguðu stofnum.  Heimilisfaðirinn fagnaði því mjög og taldi þetta til marks um hversu vel hefði tekist til við sögunina.  Greinarnar uxu vel upp og eftir nokkra hríð virtust bæði trén geta vaxið áfram sem nokkurs konar teiknimyndaútgáfa af sjálfum sér, þykkur og fallegur stofn með fínlegt og vel laufgað greinaþykkni í toppinn.  Adam var þó ekki lengi í paradís.  Toppurinn á afsagaða bolnum, sem áður hafði verið innanborðs í trénu, var alls ekki í stakk búinn til að takast á við veður, vinda og sveppasmit.  Smám saman gróf um sig fúi sem hægt og rólega fór neðar og neðar í stofninn.  Á sama tíma óx greinakransinn að þyngd og ummáli, en þó án þeirrar styrku greinafestu sem fyrri greinar höfðu haft.  Það var því alls ekki skrýtið þegar bæði trén klofnuðu í brjáluðu veðri snemma sumars nokkrum árum eftir aðgerð heimilisföðurins og ollu miklu tjóni.

Heimilisfaðirinn áttaði sig á því að sennilega hefði hann átt að leita sér upplýsinga um eðli og hegðun trjáa áður en hann stökk út í garð vopnaður keðjusög.  Það skiptir nefnilega máli að vita við hverju er að búast þegar tré eru limlest með þessum hætti, ekki virðast allir gera sér grein fyrir því fyrirfram.  Í dag dettur honum alls ekki í hug saga svona ofan af trjám, ef trén eru of stór er miklu betra að fjarlægja þau í heilu lagi og gróðursetja bara lítil og krúttleg tré í staðinn.  Hann er reynslunni ríkari og tekur því heils hugar undir inntak þessa pistils:  Ekki kolla tré!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó