Ég hef alla tíð verið frekar handköld kona. Sem barn hafði ég miklar áhyggjur af þessu og bar mig upp við ættingja sem brugðust við með því að fara með hið ævaforna og margsannaða orðatiltæki: Kaldar hendur – heitt hjarta. Það var mér mikil huggun að þetta ástand væri svo algengt og mikið rannsakað að búið væri að finna út fylgni kaldra handa við hlýtt hjartalag. Með aldrinum hefur handkuldinn frekar ágerst en hitt og ég kýs að líta svo á að hjartalagið hlýni enn frekar samhliða lækkandi hitastigi útlimanna. Smám saman hefur mér líka orðið það ljóst að hitastigið í umhverfinu hefur nokkuð afgerandi áhrif á handhitastigið og hægt er að nota ýmis hjálpartæki til að halda fingrunum ofan við frostmark, til dæmis góða ullarvettlinga.
Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að nýliðinn maímánuður er sá kaldasti í 33 ár. Hvaða áhrif það hefur á sumarhitann veit maður svo sem ekki en að sjálfsögðu vonast Sunnlendingar eftir sólríku og hlýju sumri, mörgum finnst þeir eiga það skilið eftir lægðafaraldurinn sem gekk yfir landið frá því í byrjun desember, að ekki sé talað um hráblaut og hrollvekjandi sumrin síðustu tvö ár. Kuldinn hefur veruleg áhrif á lífríki landsins. Laxfiskar koma sér ekki að því að ganga upp í ár á eðlilegum tíma, varp sumra fuglategunda dregst og gróðurinn lætur eins og enn sé vetur. Það er fyrst í upphafi júní sem fyrstu laufblöðin gægjast út úr trjáplöntum eins og ösp og birki, hikandi þó, eins og þau eigi von á hinu versta.
Mun færri skordýr virðast komin á kreik en í meðalári og má alveg flokka það sem einn helsta kost kaldra vora, að minnsta kosti fyrir þá sem standa í garðrækt. Undanfarin ár hafa nýjar tegundir meindýra flutt til landsins og helgað sér svæði á íslenskum plöntutegundum. Í þeirra hópi má nefna birkikembu, asparglyttu og rifsþélu auk fleiri tegunda en þessar nýju skordýrategundir eiga það sameiginlegt að þær valda miklum og sýnilegum skaða á plöntunum sem við erum að bisa við að rækta. Nú er spennandi að vita hvaða áhrif kuldinn hefur á þessa nýbúa í íslensku meindýrafánunni, hvort þeir ná að fjölga sér eins ötullega og í hlýindum síðustu ára eða hvort þeir líti svo á sem forsendubrestur hafi orðið fyrir búsetunni hérlendis og þeir flýi land. Gömlu góðu meindýrategundirnar okkar, sem hafa japlað á jarðargæðunum undanfarin árhundruð láta sér sennilega fátt um finnast og halda áfram að gæða sér á gróðrinum, garðeigendum til lítillar gleði.
Þessar fyrstu vikur sumars eru vertíðartími fyrir þá sem stunda garðaúðun. Nýútsprungin laufblöð plantna eru sæt og safarík og innihalda öll þau næringarefni sem lítil meindýr þurfa á að halda til að verða stór og sterk. Þess vegna velja flestar tegundir jurtaæta að ala ungviði sitt á mjúkum og næringarríkum nýgræðingnum, öll foreldri vilja börnunum sínum bara það besta. Garðeigendur lenda því stundum í þeirri búmannsraun að horfa á uppáhaldsplönturnar sínar hverfa, hreinlega fyrir augunum á sér. Það er því ákaflega freistandi að grípa til skyndilausna til að bjarga plöntunum og úða þessi óboðnu og andstyggilegu meindýr með efnum sem koma þeim fyrir kattarnef, helst í eitt skipti fyrir öll. Garðaúðun er hins vegar aðgerð sem maður ætti ekki að framkvæma nema að vel athuguðu máli og þá einungis í neyðartilfellum. Með einhverjum hætti þurfum við að koma þeirri hugsun inn hjá okkur garðeigendum að garðurinn er hluti af náttúrunni og á því að vera líflegur og fjörugur, hann er ekki hluti af stássstofunni þar sem við skúrum, skrúbbum og bónum og höldum öllu dauðhreinsuðu og fínu.
Plöntuvarnarefni sem nota má við úðun garða hafa svokallaða snertivirkni þannig að þau verða að komast í snertingu við meindýrin sjálf, eigi efnin að virka. Stundum heyrir maður um fyrirbyggjandi úðun en hafi menn snertivirkni efnanna í huga þá kolfellur slík hugmyndafræði um sjálfa sig og er í raun kolvitlaus. Einnig þarf að hafa það í huga að flest þau meindýr sem hrella garðeigendur eiga sér náttúrulega óvini sem lifa á viðkomandi meindýrum. Eðli málsins samkvæmt er fjöldi náttúrulegra óvina minni en fjöldi meindýranna því þarna erum við komin þrepi ofar í fæðuvefinn. Í náttúrunni næst ákveðið jafnvægi milli þessara dýrategunda þar sem náttúrulegu óvinirnir halda fjölda meindýra í skefjum. Úðun gegn meindýrum setur þetta jafnvægi úr skorðum og það tekur langan tíma að byggja það upp aftur. Margar fuglategundir eru líka sérlega hrifnar af iðandi fiðrildalirfum eða safaríkum blaðlúsum og í görðum þar sem ekki er úðað er fuglalífið yfirleitt mun fjölbreyttara en ella. Önnur skuggahlið ýmissa plöntuvarnarefna eru áhrif þeirra á dýralíf í vatni. Ef uppáhaldsplantan er við það að hverfa í gin meindýra og engin önnur ráð í stöðunni en að grípa inn í er hægt að blanda lífrænar sápur eins og grænsápu eða brúnsápu við vatn og úða með því yfir meindýrin. Slíkar sápublöndur skaða einnig náttúrulega óvini meindýranna en þær brotna auðveldlega niður og hafa því ekki sömu skaðlegu áhrif á dýralíf í vatni.
Hugsanlega þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af meindýrum í görðunum okkar í sumar en það er alveg öruggt að ullarvettlingarnir mínir verða geymdir innan seilingar. Kaupum á sólarvörn hefur verið frestað og enn sem komið er eru stuttbuxur og hlírabolir neðst í fataskápnum. Ég hef þó ekki gefið upp alla von um sólríkt og hlýtt sumar. Minnug þessa ágæta orðatiltækis, kaldar hendur, heitt hjarta þá er finnst mér að það hljóti að vera hægt að yfirfæra það yfir á veðurfarið, kalt vor, heitt sumar… Ég mun trúa því þar til annað kemur í ljós.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur
1 Ummæli
Hvrnig á að blanda brúnsápu til úðunar í görðum ?
Comments are closed.
Add Comment