Jól og blíða – Pistill frá Gurrý


Þegar Baggalútar nefndu jólaplötuna sína Jól og blíða fyrir nokkrum árum er mér mjög til efs að þeir hafi verið að hugsa um hitabylgju í desember.  Hlýjasti desember frá því veðurmælingar hófust stendur nú yfir.  Heitir sunnanvindar blása upp að landinu sunnanverðu, sleppa þar úr sér ylvolgum regndropum í ómældu magni og halda svo áfram norður yfir heiðar, hlýna dálítið við það og skella svo niður á Norðurlandinu.  Afleiðingarnar eru svo þær að norðlenskir bændur á sumum bæjum hafa orðið að vekja sláttuvélar sínar af værum blundi vetrardvalans, hengja þær aftan í dráttarvélar og slá tún sín.  Í desember.  Í einmuna veðurblíðu, sannkallaðri hitabylgju.  Sumar sögur eru einfaldlega svo ótrúlegar að þær geta ekki annað en verið sannar.  Sem betur fer eru veðurguðirnir með allar helstu tímasetningar á hreinu því jólasnjórinn er loksins mættur, dúnmjúkur og töfrandi, akkúrat tímanlega fyrir jólin.  Á mínu heimili voru rekin upp fagnaðaróp þegar ungmeyjarnar mínar litu út um gluggann og sáu alhvíta jörð.

Að öðru leyti virðist jólaundirbúningurinn ganga sinn vanagang.  Bakstursóðar húsmæður eru að detta í áttundu smákökusortina, fjórföldu terturnar er klárar til framreiðslu og sörur er örugglega hægt að finna í flestum frystikistum landsins.  Sem betur fer gengur nú yfir landið tískubylgja margvíslegra jólaljósa sem lýsa upp skammdegið og fegra jafnvel ófríðustu hús þannig að þau virka bara lekker.  Á mínum vinnustað eru jólaseríur settar upp í byrjun október, áður en haustfagnaður starfsfólks hefst og þær eru ekki teknar niður fyrr en rétt fyrir páska.  Þetta finnst mér vera góður siður og tilvalið að láta þessi ljós vinna aðeins fyrir sér, ekki gera þau mikið gagn inni í geymslu.

Jólaseríuæfingarnar á mínu heimili eru hins vegar ekki alltaf jafn áreynslulausar og ég myndi kjósa.  Í fyrsta lagi kemur aðventan mér alltaf dálítið á óvart, mér finnst síðasta aðventa rétt nýliðin og svo er þessi bara allt í einu mætt á svæðið, án aðvörunar, án þess að ég fái rönd við reist.  Mér er því nauðugur einn sá kostur að skipa eiginmanninum niður í geymslu að sækja jólaseríurnar á svalirnar.  Þegar búið er að grafa seríurnar upp úr neðri jarðlögunum í geymslunni kemur iðulega í ljós að það kemur ekki ljós á þær.  Hefst þá mikil leit að ónýtu perunni. Skrúfa þarf hverja einustu peru úr sínu perustæði og prófa nýja peru í staðinn.  Þessar æfingar geta staðið yfir tímunum saman enda erum við með mjög langar jólaseríur með mörgum perum.  Ég hef oftar en einu sinni stungið upp á því við elskulegan eiginmanninn hvort við ættum ekki bara að henda þessum bannsettu seríum og kaupa nýjar.  Ég viðurkenni að hugsanlega hefur tónninn verið eilítið geðvonskulegur því svona bras tekur svo mikinn tíma þegar aðventan kemur eftir korter og ekkert er tilbúið.  Maður verður að hafa allt klárt fyrir aðventuna svo hægt sé að hamast við að slaka á.  Elskulegur eiginmaðurinn lætur hins vegar alltaf eins og ekkert sé, heldur bara áfram að dunda við að finna veika hlekkinn, ónýtu peruna og er svo sigri hrósandi þegar björninn er unninn.  Í hjartanu er ég mjög fegin því þegar ónýta peran er fundin því maður verður að ástunda það að vera ábyrgur neytandi, ekki stuðla að óþarfa sóun, huga að endurvinnslu og endurnýtingu og gera frekar við það sem bilar heldur en að henda því og kaupa nýtt.  Stundum er tíminn bara svo naumur. 

Ég get þó ekki verið annað en þakklát fyrir það að mestu sálarflækjurnar á mínu heimili þessa dagana snúist aðallega um seríuflækjur og svoleiðis smáatriði.  Víða eru áhyggjurnar alvöru áhyggjur og snúast um það að hafa húsaskjól eða nóg að bíta og brenna. Jólamánuðurinn er mánuður allsnægta og útgjalda og á þessum tíma sér maður svo glöggt hvað gæðum heimsins er misskipt, sumir hafa allt, aðrir hafa ekkert.  Ég hef ákveðið að ganga inn í jólahátíðina með þakklæti í huga fyrir allt það sem ég hef, fyrst og fremst þó fólkið mitt nær og fjær því í mínum huga eru jólin fjölskylduhátíð, hátíð samveru við þá sem eru okkar kærastir, hátíð ljóss og friðar (með skínandi fallegar jólaseríur á svölunum).

Gleðileg jól!      

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur.

Related posts

Sumar- og nagladekk

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó