Inntak náttúrulækningastefnunnar


Náttúrulækningastefnan segir:

1. Orsakir sjúkdóma eru rangir lífshættir. Hér er fyrst og fremst átt við hina svokölluðu “menningarsjúkdóma”, og að nokkru leyti einnig marga sýklasjúkdóma.

2. Flestum sjúkdómum má verjast, eða lækna þá, með réttum lifnaðarháttum.

Hér á eftir fara ennfremur orð tveggja spekinga:

Grikkinn Hippókrates, sem var uppi á 5. öld f. Krist og kallaður hefir verið “faðir læknisfræðinnar”, sagði: “Sjúkdómar koma ekki yfir oss úr heiðskíru lofti. Þeir verða til úr daglegum syndum gegn lögmálum náttúrunnar. Þegar þær hafa safnast saman, virðast sjúkdómarnir brjótast út án þess að gera boð á undan sér.”
Með þessum orðum hefir Hippókrates gerst faðir náttúrulækningastefnunnar.

Are Waerland, kunnasti formælandi stefnunnar á Norðurlöndum, sagði 1940: “Við eigum ekki í höggi við sjúkdóma, heldur við rangar lífsvenjur. Ráðið bót á hinum röngu lífsvenjum, og sjúkdómarnir munu hverfa af sjálfu sér.”

Þetta eru ekki slagorð út í loftið. Hér skulu nefnd örfá dæmi þeim til staðfestingar.

1. Annálaðir fyrir langlífi og frábæra heilbrigði hafa verið, og eru jafnvel enn, íbúar Andesfjalla í S-Ameríku, Kákasusbúar, og Húnsamenn í hálendi Himalajafjalla í N-Indlandi. Þeir hafa lifað á heima-aflaðri fæðu í náttúrlegu ástandi og búið við heilnæmt útilíf. Súrmjólkurgerill í Kákasus er aðeins einn þáttur af mörgum.

2. Á árunum 1931-5 ferðaðist amerískur tannlæknir, Dr. Weston Price, um meðal flestra þjóða heims, aðallega þjóðflokka sem lifðu enn á frumstæðu fæði sínu. Tannskemmdir voru þar með öllu óþekktar, nema hjá þeim sem flust höfðu í bæi, sem fengu matvörur frá Evrópu, þar á meðal kaffi, sykur o.fl. tískuvörur.

3. Fjöldi heimilda er til frá læknum sem starfað hafa árum saman meðal frumstæðra þjóða, m.a. í hitabeltislöndum Afríku, og aldrei séð þar menningarsjúkdóma eins og botnlangabólgu og krabbamein. Öðru máli gegnir um sjúkdóma stafandi af ormum og hættulegum sýklum, svo og hungursjúkdóma.

4. Á Íslandi þekktust tannskemmdir ekki fyrr á öldum, og líklega ekki fyrr en um aldamótin 1800, og nú gengur enginn þess dulinn að þar er sykurinn aðalorsökin. Botnlangabólga var ákaflega sjaldgæf á fyrstu árum læknanna Jónasar Kristjánssonar, Guðmundar Magnússonar og Guðmundar Hannessonar í byrjun 20. aldar; allir þekktu þeir þennan sjúkdóm frá námi sínu í Kaupmannahöfn.

5. Á fyrri hluta 20. aldar sannaði enski vísindamaðurinn Sir Robert McCarrison, að hægt er að framkalla flesta svokallaða “menningarsjúkdóma” á tilraunadýrum með því að fóðra þau á svipuðu fæði og tíðkast meðal Evrópubúa. Þau dýr, sem fóðruð voru á svipaðan hátt og Húnsamenn nota, lifðu með öllu sjúkdómalaus.

6. Fyrir utan tannskemmdir eru tregar hægðir meðal algengustu sjúkdóma vestrænna þjóða, en með öllu óþekktar t.d. hjá Afríkuþjóðum sem nærast á grófefnaríkum matvælum. Og sama er að segja um sjúkdóma eins og pokamyndanir og meinsemdir í ristli og margvíslega aðra sjúkdóma, sem eru bein eða óbein afleiðing hægðatregðunnar.

7. Árið 1917-18 varð danska þjóðin að gera gjörbreytingu á mataræði sínu í þá átt sem náttúrulæknar mæla með. Þetta eina ár fækkaði dauðsföllum í Danmörku um 6 þúsund miðað við árin á undan, en það mundi jafngilda 250 manns hér á landi, en fjölgaði svo aftur næsta ár er mataræðið færðist í sitt fyrra horf.

Í sambandi við nútíma lifnaðarhætti skal hér aðeins á það bent, að hér á landi þekktist sykur ekki fyrr en um aldamótin 1800, og hvítt hveiti ekki fyrr en um 1880. Nú eru þessar tvær fæðutegundir, sem eru einhæfasta fæða er á borð nokkurs manns kemur, orðnar um 1/3 af allri fæðutekju þjóðarinnar og tvímælalaust aðalorsök tannskemmda og hægðatregðu og tilheyrandi sjúkdóma.

Munurinn á starfi náttúrulækna og almennra lækna er aðallega í því fólginn, að náttúrulæknar byrja á því að reyna að fá sjúklingana til að breyta matarvenjum sínum og öðrum lifnaðarháttum, leggja áherslu á útivist, ýmiskonar böð og fleiri slíkar aðgerðir, og nota ekki lyf eða skurðaðgerðir eða hættulega geisla nema sjúkdómurinn sé kominn á svo hátt stig að annars er ekki kostur. Að sjálfsögðu nota þeir lyf við bráðhættulegum sjúkdómum eins og heilahimnubólgu og í ýmsum fleiri tilfellum. En oftast telja þeir nægja að efla viðnámsþrótt líkamans innan frá. En auðvitað er árangurinn af slíkri viðleitni undir því kominn, að sjúklingarnir sjálfir öðlist skilning á þessum aðferðum og fáist til fullrar samvinnu við lækninn.

Á síðari árum hefir orðið stefnubreyting meðal lækna og vísindamanna í þessum efnum, m.a. í afstöðu þeirra til sykurs og hveitis. Það eru ekki mörg ár síðan full viðurkenning lækna fékkst á sambandinu milli reykinga og lungnakrabba. Um síðustu aldamót hélt einn kunnasti læknir landsins því fram, að hvítt hveiti væri hollara en heilhveiti, og fyrir 30-40 árum sagði kunnur læknir, að sykur og hvítt hveiti væru “fullkomnar fæðutegundir”.

Þess eru ófá dæmi úr sögu læknisfræðinnar, að læknastéttir þjóðanna hafa hundsað uppgötvanir á sviði læknisfræðinnar, svo sem varðandi orsök barnsfararsóttar, en töfin á viðurkenningu þeirrar uppgötvunar kostaði líf þúsunda sængurkvenna um allan heim. Á hinn bóginn er svo enn gleypt við nýjum lyfjum í þúsunda tali, meðan verið er að strika út af lyfjaskrám önnur eldri lyf, stundum eftir að sannast hefir að þau hafa orðið fjölda sjúklinga að bana. 

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 5. tbl. 1979, bls. 105-107

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi