Íslenska jólatréð er lifandi barrviður úr íslenskum skógum eða skógarreitum. Um er að ræða nokkrar tegundir, hvaða tegund verður fyrir valinu er smekkur hverrar fjölskyldu.
Þær tegundir sem eru í boði hér á landi eru rauðgreni Picea abies, blágreni P. engelmannii, sitkagreni P. sitchensis, stafafura Pinus contorta og fjallaþinur Abies lasiocarpa.
Myndin er af ungri stafafuru í Brynjudal árið 2009, tekin af Ragnhildi Freysteinsdóttur.
Lengi vel var það rauðgrenið, fíngert og ilmandi sem vermdi fyrsta sætið á vinsældarlistanum, en í dag hefur stafafuran, grófgerð og ilmandi, náð yfirhöndinni. Svo er gaman að velta því fyrir sér hvort það verði fjallaþinurinn eftir nokkur ár.
Staðsetning
Ef ekki á að setja tréð upp fyrr en að kveldi Þorláksmessu, þá er mikilvægt að geyma það á köldum stað. Ef tréð er geymt þar sem því er hætt við að þorna, t.d. í upphituðum bílskúr, þá þarf tréð að standa í vatni.
Íslenska jólatréð prýðir allar stofur, stórar og smáar. Veljið trénu stað fjarri miðstöðvarofni ef möguleiki er á.
Vökvun
Þegar komin er tími á að setja upp tréð, er best að saga örlítið neðan af því, Skógræktarfélag Íslands mælir með 5 cm. Tréð þolir ekki að þorna og verður því að passa að hafa nægt vatn í jólatrés fætinum, alla hátíðina. Ekki er æskilegt að ydda fótinn, æðarnar sem flytja vatn liggja innan við börkinn. Það er ekkert sem heitir of sver jólatrjáastofn, bara of lítill jólatrésfótur.
Annað
Að velja íslenskt jólatré er gott fjölskyldusport, hvort sem það er valið á sölustað eða í einhverjum skógarreitnum sem býður fjölskyldunni að höggva sitt eigið. Að velja íslenskt jólatré stuðlar að aukinni skógrækt í landinu, það er atvinnuskapandi og sparar gjaldeyri. Enginn eiturefni eru notuð við ræktun íslensku skóganna og ef litið er til málefna loftslagsbreytinganna, þá má benda á að áður en jólatrén lenda í stofum landsmanna hafa þau bundið sinn skerf að koltvísýringi, sem losnar þó að hluta við förgun trésins. Áhugaverð grein birtist á vefsíðu Skógræktar Ríkisins um miðjan desember mánuð sem ber heitið Margfalt umhverfisálag af gervijólatrjám en lifandi trjám, þeir sem hafa áhuga geta nálgast hana hér: http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/2718
Samantekt:
Guðrún Helga Guðbjörnsdóttir, garðyrkjufræðingur.
Heimildir:
www.skogur.is
www.skog.is
Mynd af stafafuru í eigu Skógræktarfélags Íslands.