Hvers virði er tré?

Af og til komast tré í fjölmiðla. Yfirleitt gerist það þegar lítið er um jarðskjálfta, eldgos og aðrar náttúruhamfarir af náttúrulegum eða pólitískum toga. Ástæður þess að fjallað er um tré í fjölmiðlum eru yfirleitt þær að trén eru fyrir einhverjum.
Í sumum tilfellum eru það stök tré sem valda vandræðum eins og silfurreynirinn margumræddi á Grettisgötu 17.  Þessi gróskumikli, ríflega aldargamli silfurreynir þvældist fyrir uppbyggingu í Þingholtunum og hefði sennilega horfið á vit feðra sinna ef nágrannar hans hefðu ekki slegið um hann skjaldborg.

Fyrir nokkrum árum var óformlega rætt um möguleika þess að flytja eitt frægasta tré Reykjavíkur, garðahlyninn sem stendur á horni Vonarstrætis og Suðurgötu og rýma þannig til fyrir að minnsta kosti fjórum bílastæðum. Garðyrkjufræðingar töldu öll tormerki á því að flytja tréð enda rótakerfið orðið víðfeðmt og tréð níðþungt, auk þess sem hætta væri á því að tréð myndi ekki lifa flutninginn af. Hlynurinn var látinn eiga sig enda ávinningurinn af flutningnum takmarkaður, sé kostnaðurinn við hann einnig tekinn með í reikninginn. Í dag eru borgarbúar farnir að hjóla ferða sinna í auknum mæli og ekki eins mikil þörf á bílastæðum þannig að vonandi fær hlynurinn að standa á sínum stað næstu tvö- til þrjúhundruð árin sem hann á eftir ólifuð.

Einstaka sinnum eru það ekki stök tré heldur skógur sem þvælist fyrir framþróuninni. Þannig var með skógarreit í Heiðmörk sem var látinn víkja vegna lagningar á vatnslögn.  Eigandi skógarins var ekki spurður leyfis áður en framkvæmdir hófust og var eðli málsins samkvæmt ekki ánægður með eyðilegginguna.  Hann kærði  því verknaðinn og fékk að lokum dæmdar bætur fyrir trén, bætur sem erfitt var að reikna út því hvert er virði trjáa?.

Er hægt að setja endanlegan verðmiða á hvert einasta tré, hversu gamalt sem það er, hversu frægt sem það er, hversu mikilvægt sem það er eiganda sínum og nágrönnum?  Þjóð sem hefur frá ómunatíð búið í nær skóglausu landi þarf dálítinn tíma til að laga sig að nýju landslagi fylltu trjám. Þessi aðlögun er ekki alltaf jákvæð. Við þurfum að sætta okkur við minna útsýni því trén hafa tilhneigingu til að vaxa upp og skyggja á umhverfið. Við þurfum að sætta okkur við að sólin hafi ekki jafn greiðan aðgang að hörundi okkar því trén skyggja á hana.  Það þýðir að við komum náföl undan sumri og höfum hugsanlega ekki náð að fylla nægilega á D-vítamín tankinn fyrir veturinn. Svo taka þau pláss og eru fyrir.

Sem garðyrkjufræðingur hef ég tilhneigingu til að horfa á jákvæðar hliðar þess að búa í grónu umhverfi þar sem gróðurinn skýlir og prýðir. Eitt fallegt tré getur verið augnayndi árið um kring, hvort sem það fellir blöðin yfir veturinn eða stendur grænt alltárið, hvernig sem vindar blása og veður geisa.  Mörg falleg tré eru einfaldlega margfeldi af ánægjunni af þessu eina tré.  Í skjóli trjánna verður mannlífið auðveldara og yfirbragð þess allt léttara, gróðurinn hefur svo góð áhrif á andann. Hér er einnig hægt að nefna vísindalega sannaðar staðreyndir eins og hærra hitastig í skjólinu, minni upphitunarkostnað húsnæðis, jafnara rakastig í jarðvegi og meiri uppskeru plantna sem vaxa í skjóli.  Fyrir mér er tré ekki bara falleg planta, það er skjólgjafi, bústaður fugla og skordýra, hluti af náttúrunni, tenging við fortíð og framtíð, hluti af sögunni og ég fæ að njóta samvista við það þá skömmu stund sem ævi mín varir. Þegar ég og mínir förunautar hverfum á braut stendur tréð eftir og fylgir næstu kynslóðum úr garði.  

Einhvers staðar segir að besti tíminn til að gróðursetja tré var fyrir 25 árum, næstbesti tíminn er í dag. Íslenskur trjágróður býr við frekar erfið vaxtarskilyrði. Vaxtartíminn er stuttur og hitastigið ekki mjög hátt. Það er því næsta víst að gróðursetji ég miðlungsstórt tré í dag, muni það verða barnabörnin mín sem hugsanlega njóta þess að hengja rólu í neðstu greinarnar og róla sér. Það tekur mannsævina að rækta upp fullvaxta trjágróður. Þess vegna þurfum við að hugsa okkur vel um áður en gripið er til sagarinnar og trén fjarlægð af því þau eru fyrir. Tré geta lifað um aldir og stundarhagsmunir eins og fjögur bílastæði eða nokkur hótelherbergi fyrir erlenda ferðamenn eiga ekki að ráða örlögum lífveru sem hefur dafnað í íslenskri veðráttu síðastliðna öld. Er kannski komin þörf á að búa til embætti Umboðsmanns trjáa?

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið