Hverfum aftur til náttúrunnar

„Hverfum aftur til náttúrunnar“er einskonar vígorð, sem sést og heyrist oft, bæði í ræðu og riti, og ekki síst yngri menn taka sér það oft í munn. Það lætur vel í eyrum að heyra talað um nýja lifnaðarhætti. Og hugsunin er lofsverð ef á bak við hana býr skilningur á raunverulegu ástandi umhverfis okkar. En því miður er hætt við að oft sé hér um að ræða marklaust orðagjálfur í munni rómantískra angurgapa.

Náttúran er ein stór lífræn heild: Hestar, kýr, refir, tré, jurtir og aðrar lifandi verur, hvað sem þær nú heita. Maðurinn einn stendur að vissu leyti utan við hina eðlilegu hringrás lífsheildarinnar og hefir raskað henni með aðgerðum sem eru fylgifiskar menningarinnar. Kýrin bítur grasið af jörðinni þar sem það verður á vegi hennar. Það er þáttur í eðlilegri hringrás hinnar lifandi náttúru. En menningarlíf mannsins er meðal annars í því fólgið, að hann gerist garðyrkjumaður eða fer að stunda kvikfjárrækt og truflar með því jafnvægið í náttúrunni.

Með vaxandi þörf fyrir matvæli handa sífjölgandi milljónum jarðarbúa göngum við æ meir á nægtabrunna náttúrunnar. Með skynsamlegum jarðræktaraðferðum getum við stutt viðleitni náttúrunnar sjálfrar til viðhalds og eflingar gróðri. Náttúran hefir gefið okkur rýgresið, sem við höfum með jurtakynbótum breytt í rúg. Væri hann nú látinn afskiptalaus gæti rýgresið aftur náð yfirhöndinni með tímanum. Með nýtísku jarðræktaraðferðum getum við aukið uppskeru jarðarávaxta. En þar gerir náttúran þær kröfur til okkar, að við spillum ekki jarðveginum með ónáttúrlegum aðgerðum og mergsjúgum ekki gróðurmoldina. En það er einmitt það sem gerist með ofnotkun tilbúinna áburðarefna og annarra kemiskra efna, sem skemma jarðveg og jurtir, og dýr er neyta þeirra.

Það er hin kalda og miskunnarlausa efnishyggja sem er á góðum vegi með að eyðileggja þann grunn sem tilvera okkar og framtíð hvílir á. Úrgangi frá stóriðnaði nútímans er safnað fyrir í vaxandi mæli í fullkomnu fyrirhyggjuleysi og með stórhættu fyrir umhverfið. Og það er ekki að ófyrirsynju að spurt er, hvernig verði komið fyrir mannkyninu eftir fimmtíu til hundrað ár. Og eru náttúrunni sjálfri ekki allar bjargir bannaðar? Þunnt lag olíu eða fitu á yfirborði úthafanna nægir til að tortíma öllu svifdýralífi, en það er meginskilyrði fyrir dýralífi í sjónum. Árnar mengast af skaðlegum efnum sem eyðast ekki nema á löngum tíma. Jarðvegurinn blandast margskonar eiturefnum, og loftið fer ekki varhluta af þessari eiturmengun. Græn gróðursvæði fara minnkandi með hverju árinu sem líður, en þau eiga þátt í að hreinsa loftið sem við öndum að okkur.

Okkur er öllum ljóst, að þannig getur þessu ekki haldið áfram, og þetta vita þeir sem völdin hafa. Og því skyldum við þá ekki gera harða hríð að allri mengun og gera það að höfuðmarkmiði komandi ára. Í því skyni þyrfti að rannsaka, hvort ekki væri hægt að nota ýmis úrgangsefni í nytsamlegum tilgangi í stað þess að losa sig við þau á staði þar sem þau eru aðeins til tjóns í bráð og lengd. Það nægir ekki að segja sem svo, að við eigum að hverfa aftur til náttúrunnar í þeirri von að hún sjái sjálf um hreinsun úrgangsefna. Svo einfalt er málið ekki. Við verðum að hefjast handa um raunhæfar aðgerðir til að varðveita þessa jörð okkar óspillta og skila henni þannig í hendur komandi kynslóða. Og við verðum að byrja þegar í stað. Það er ekki seinna vænna.

Related posts

Bleik október hugleiðing

Snyrtivörur og aðrar eitraðar vörur í umhverfi okkar

Forvarnir okkar eru að falla – Fljótum sofandi að feigðarósi