Hressingarheimilið


Náttúrulækningafélag Íslands hefir starfrækt hressingarheimili í kvennaskólanum í Hveragerði frá því 20. júní sl. Fyrstur dvalargesta var Guðni Stefánsson.

Aðsóknin jókst ört, og varð um skeið að leigja nokkur herbergi í öðrum húsum. Voru dvalargestir þá um 40. Enn hefir ekki verið athugað, hve margir hafa sótt hressingarheimilið alls, enda er, þegar þetta er ritað, hálfur mánuður til loka (15. sept.).

Dagleg tilhögun er þessi: Morgundrykkur kl. 7, morgunverður kl. 8, hádegisverður kl. 12, hvíldartími til kl. 14, eftirmiðdagsdrykkur kl. 16, kvöldverður kl. 18 og háttatími kl. 22. Í húsmæðraþættinum er fæðinu lýst nánar.
Í skólanum er ágætt gufubað, og hafa konur og karlar aðgang að því á vissum tímum dags. Þá geta dvalargestir fengið ódýran aðgang að hinni stóru og góðu sundlaug í Hveragerði. Auk þess hafa margir sótt leirböðin, sem starfrækt eru af Hveragerðishreppi.

Þrátt fyrir ýmsa agnúa á húsakynnum og öðrum aðstæðum hefir dvalargestum yfirleitt líkað aðbúðin vel. Fæstir þeirra höfðu áður kynnzt fæði því, sem þarna var framreitt, en svo að segja undantekningarlaust hefir fólki fallið það vel þegar frá upphafi. Sumir áttu við byrjunarörðugleika að etja, meðan meltingarfærin voru að venjast þessu nýstárlega fæði, m.a. af því að þess var ekki gætt sem skyldi að tyggja nógu vel.

Jónas læknir Kristjánsson hefir dvalið að staðaldri þar eystra. Hann hefir skoðað alla dvalargesti og lagt þeim ráð um mataræði og annað. Hefir þarna verið margt af fólki með langvinna sjúkdóma, gigt, kölkun, o.s.frv., sem mörg ár getur þurft til að bæta. Hinsvegar hefir dvöl fæstra verið lengri en 1 til 2 vikur, enda hefir tilgangur margra verið sá að kynnast mataræðinu og hvíla sig og hressa um leið, þótt ekki væru þeir haldnir neinum sérstökum sjúkdómum. Telja menn sig yfirleitt hafa haft mikið gagn af dvölinni, og margir hafa hlotið bót meina sinna. Verður væntanlega skýrt nánar frá árangrinum hér í ritinu síðar.

Fræðslukvöld hafa verið á laugardögum. Þar flytur Jónas Kristjánsson fyrirlestra, stundum hefir verið lesið upp úr bókum NLFÍ, svarað fyrirspurnum og rabbað saman og sungið, og að því loknu borin fram hressing. Annars hefir fólk ofan af fyrir sér með lestri blaða og bóka, spilum, handavinnu og með því að hlusta á útvarp, þegar ekki er veður til útivistar.

Eftirspurn eftir lausum máltíðum var allmikil, og varð oft að vísa fólki frá um helgar. Kom fólk oft fyrir forvitnissakir að borða eina og eina máltíð.

Í byrjun júlí bauð hreppsnefnd Hveragerðis fréttamönnum útvarps og blaða að skoða leirböðin. Stjórn hressingarheimilisins notaði tækifærið til að kynna þeim starfsemina og bauð þeim, ásamt hreppsnefndinni, til hádegisverðar.

Óhætt mun að segja, að þessi fyrsta tilraun með hressingarheimili í anda náttúrulækningastefnunnar hafi gengið að óskum. Má ekki hvað sízt þakka það sérstakri heppni með starfskrafta. Ráðskona var frú Halldóra Sigfúsdóttir, en matráðskona ungfrú Ásta Helgadóttir, eins og sagt var frá í síðasta hefti. Auk þeirra ungfrúrnar Bára Friðleifsdóttir og Elín Guðjónsdóttir. Auk hins beina árangurs hefir tilraun þessi verið mjög lærdómsrík og leitt í ljós ýmis viðhorf, sem taka verður til greina, þegar starfsemin verður tekin upp á ný.

B.L.J.

Björn L. Jónsson 
Heilsuvernd 3. tbl. 1951, bls. 87-89

Related posts

Gervilíf

Saga skógræktar á Íslandi

Bleik október hugleiðing