Hoppulín – Pistill frá Gurrý

Í árdaga trampólínvæðingar Íslands fóru tvær ungar stúlkur með föður sínum í þá merku búð, Europris að kaupa björgunarvesti, plastskálar fyrir sumarbústaðinn og ullarsokka.  Europris verslunin var ákaflega skemmtileg, fjölbreytt vöruúrval skrýddi hillumetrana og þar var hægt að kaupa ýmiss konar bráðnauðsynlegan varning sem mann hafði aldrei grunað fyrr að mann vantaði.  Það kom einmitt berlega í ljós í þessum verslunarleiðangri því ungu stúlkurnar ráku augun í það sem þær töldu að héti hoppulín.  Hoppulín eru augljóslega tæki sem maður hoppar á og þar sem þessar ungu dömur voru einmitt á hátindi hoppsins grátbáðu þær pabbann um að kaupa handa þeim hoppulín.  Feður eiga sérstaklega erfitt með að neita dætrum sínum um nokkuð, ekki síst þegar þær blikka stóru augunum sínum í áttina að pabbanum og lofa að vera rosalega þægar í allan dag.  Þessi pabbi var engin undantekning, keypti hoppulínið án tafar og hélt rakleiðis heim með góssið.  Það var ekki fyrr en nokkrum dögum seinna að upp komst að annað á innkaupalistanum hafði með einhverjum undarlegum hætti misfarist, björgunarvestin voru þá uppseld en sem betur fer var hægt að fá ömmu til að prjóna í snarhasti nokkur pör af ullarsokkum.

Hoppulínið var sett upp við húsið að viðstöddu nokkru fjölmenni smáfólks, sem dáðist að útsjónarsemi og herkænsku ungu stúlknanna.  Á þessum tíma voru hoppulín ekki algeng í görðum og gáfu dömurnar góð ráð um það hvers konar blikk virkuðu best á pabba og hversu þægur maður þyrfti að vera út daginn til að hreppa hoppulín.  Er ekki að því að spyrja að á stuttum tíma fylltust garðar í nágrenninu af þessum töfratækjum og smáfólkið eyddi heilu dögunum í hoppið.  Þessi dásamlegu töfratæki hafa haldið krökkum uppteknum utandyra heilu sumrin við töluverðan fögnuð foreldra og annarra aðstandenda og hafa jafnvel dregið hörðustu tölvufíkla út úr fylgsnum sínum um hábjartan daginn.  Svo algeng eru þau orðin í görðum að segja má að marrið í gormunum sé orðið jafn sjálfsagður hluti af hljóðheim sumarsins eins og suð í býflugum og mjúkur kliður laufblaða í sumargolu.

Ríflega tíu árum eftir að hoppulínið var sett upp við húsið eru ungmeyjarnar enn skoppandi á græjunni, orðnar mun flinkari en í upphafi og farnar að framkvæma flókin hopp með alls konar snúningum.  Foreldrarnir hafa einstaka sinnum látið plata sig til að hoppa aðeins en hafa fundið verulega fyrir slakri færni sinni í trampólínhoppi (svona samanborið við börnin) og orðið að sætta sig við að þessar tilraunir eru fremur flokkaðar sem sprenghlægileg skemmtiatriði fyrir börnin.

Trampólín hafa haft verulega áhrif á íslenskt samfélag, þegar grannt er skoðað.  Þau eru orðinn jafn sjálfsagður fylgihlutur í íslenskum görðum og birki og grasflöt, að minnsta kosti hjá barnafjölskyldum.  Að sumarlagi hafa bráðamóttökur sjúkrahúsa verið þéttsetnar fólki (af ýmsum stærðum) sem hefur komist að því fullkeyptu að hoppfærnin er ekki sem skyldi.  Í veðurfræðinni er komið fram nýtt hugtak yfir aftakaveður, hugtakið trampólínveður en í slíkum veðrum geta trampólín farið á flug og lent á stöðum þar sem þau teljast alls ekki æskileg.  Trampólínveður eru yfirleitt fyrstu haustlægðirnar sem skella á landinu af fullum krafti, áður en garðeigendum hefur auðnast að taka trampólínin inn í hús eða festa þau niður með tryggum hætti.  Útköll björgunarsveita vegna slíkra trampólínferðalaga undanfarin ár eru líka fjölmörg því það er með haustið eins og aðrar árstíðir að það virðist koma fyrirvaralaust.  Trampólíntjón er svo notað um það tjón sem trampólín valda, til dæmis á bílum, húsum, gróðri og öðru sem verður í vegi trampólína þegar þau berast um með vindi.

Hoppulín ungmeyjanna hér að ofan hefur staðið af sér öll veður enn sem komið er, enda er pabbinn mjög áhugasamur um alls konar öryggismál.  Það er tjóðrað niður með stögum á átta stöðum og eru stögin fest í staura sem reknir voru um það bil meter niður í jörðina.  Að auki hefur pabbinn raðað þungum steinhellum á lappirnar á trampólíninu, í þeim tilfellum sem stögin gætu hugsanlega losnað.  Öryggisnetið og dúkurinn eru alltaf tekin inn í hús snemma hausts (við lítinn fögnuð ungmeyjanna sem finnst pabbinn alltaf helst til fljótur til að skemma hoppstemninguna) og sett upp að vori um leið og veður leyfir (eftir mikið suð ungmeyjanna sem finnst pabbinn helst til seinn að koma hoppgleðinni af stað).  Í það minnsta hefur fjölskyldan aldrei iðrast verslunarferðarinnar í Europris forðum, hoppulínið hefur staðið fyrir sínu.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið