Hið árlega óvænta haust – Pistill frá Gurrý

Haustið kemur mér alltaf jafnmikið á óvart. Það læðist einhvern veginn aftan að mér og skyndilega er það komið. Það er þó ekki eins og ég viti ekki af því að það muni von bráðar ganga í garð, mér finnst einhvern veginn alltaf eins og það hljóti að vera á næstunni, ekki núna.
Stundum grunar mig að svona sé komið fyrir fleiri Íslendingum, að minnsta kosti þekki ég mjög fáa einstaklinga sem setja vetrardekkin undir með góðum fyrirvara, setja frostlög á vélbúnað bílsins og passa að skafan sé innan seilingar. Vetrardekkin mín eru enn ókeypt, skafan sem ég átti í fyrra er vonandi einhvers staðar í skottinu og hvar á svo að setja þennan frostlög? Mín góðu áform um skipulag og undirbúning urðu haustinu að bráð, eina ferðina enn.

Fleira kemur á óvart en dekkjaskiptin. Allt í einu hefjast skólar landsins og börn með skólatöskur leysa af hólmi börn í stuttbuxum og útileikjum.  Agnarsmá börn standa við gangbrautir, einbeitt á svip og bíða þess að bílarnir stöðvist og þeim sé óhætt að ganga áfram í skólann. Þessi litlu skinn eru örugglega minni en litlu krakkarnir sem stóðu við gangbrautirnar í fyrra.  Þá rifjast upp að svona var staðan akkúrat fyrir ári síðan, eini munurinn er að í ár eru manns eigin börn stærri og jafnvel farin að nálgast fermingaraldur, sem er svo ótrúlegt því það er eins og þau hafi fæðst í gær og ekki hefur maður sjálfur breyst neitt að ráði.

Haustið er blautasti tími ársins. Fyrir garðyrkjumenn eru haustrigningar dásamlegar því þær tryggja það að plöntur sem gróðursettar eru að hausti, fá næga vökvun og þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að þær visni eftir gróðursetninguna. Langvarandi lægðagangur er hins vegar hvimleiður og enn verra þegar hvassviðri kemur í kaupbæti. Rennandi blaut haustlauf þekja jörðina og færa heim sanninn um að sumrinu sé endanlega lokið. Litlu skólabörnin, sem minnst var á áðan, berast með veðri og vindum um hverfin og koma holdvot heim, gegnsósa eftir lárétta haustrigningu sem kemst alltaf inn undir regnfötin, sama til hvaða ráðstafana er gripið. Þegar svona viðrar er mest lokkandi að halda sig innandyra, lesa góða bók, drekka heitt kakó og maula eitthvað góðgæti, jafnvel óhollt.  Fátt er meira róandi en að horfa út um gluggann á vont veður, vitandi að maður þarf ekki að fara út sjálfur.

Fréttir af týndum rjúpnaskyttum eru einn af fylgifiskum haustsins. Líklega er ástæðan fyrir því sú að rjúpnaveiðitímabilið er einungis á haustin og fréttir af rjúpnaskyttum því ekkert fréttaefni á öðrum árstíðum.  Sem betur fer finnast þessar týndu rjúpnaskyttur yfirleitt heilar á húfi. Kannski er það engin tilviljun að um leið og fréttir berast af því að vel þjálfaðir björgunarsveitarmenn hafi fundið fyrstu týndu rjúpnaskyttur haustsins að þá stendur sala neyðarkallsins sem hæst…

Svo er það haustkvefið. Eftir hlýindi og veðursæld sumarsins er það frekar nöturleg tilhugsun að yfirgefa stuttbuxurnar og sandalana og draga fram vetrarklæðnaðinn. Hlírabolurinn þarf að víkja fyrir lopapeysunni, kuldaskór og þykkir sokkar eru æskilegur fótabúnaður og ekki má gleyma húfu, treflum og vettlingum. Ég játa það fúslega að ég hef gengið berfætt í sandölum langt fram á haust, hugsanlega í einhvers konar afneitun eða skringilegri trú á að hægt sé að halda aðeins lengur í sumarið með því að neita að yfirgefa sumarfötin. Svona hegðun er ekki skynsamleg enda bankar haustkvefið árlega upp á með tilheyrandi hósta, nefrennsli og almennum óþægindum.  Kannski verð ég skynsamari að ári.

Haustið er ekki alslæmt og hefur nokkra kosti sem ekki má gleyma að minnast á.  Kertaljós njóta sín mun betur eftir að dimma tekur á kvöldin og ég nota hvert tækifæri til að skapa rómantíska stemningu á heimilinu með því að kveikja á kertum. Logi kertanna er eitthvað svo fallegur og róandi og ekki spillir fyrir að eftir því sem árin færast yfir þá lúkkar maður bara einhvern veginn betur í hinni mjúku birtu kertaljósanna. Maður þarf bara að gæta þess að hósta ekki mikið í grennd við kertin.  Haustið er líka fyrsta vísbendingin um að bráðum komi jólin og þá er ekki úr vegi að rifja upp gamalt húsráð: Ef maður hefur ekki tíma til að gera stórhreingerningu á heimilinu fyrir jólin er um að gera að skreyta nóg og kveikja á kertum, þá sér enginn rykið.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Villtir matsveppir á Íslandi – Sveppamó

Að vökva lífsblómið