Vökvun pottaplantna

Vökvun plantna getur vafist fyrir mörgum enda vandasamt verk, það er svo auðvelt að vökva of mikið eða of lítið.

Vatn er plöntum jafn mikilvægt og birta, hversu mikið vatn plöntur þurfa veltur á tegund, stærð plöntu, pottagerð, staðsetningu (birta, hitastig, rakastig), árstíð og veðurfari. Að því sögðu er ekki hægt að gefa upp hversu oft í viku þurfi að vökva tiltekna tegund, það eru svo margir þættir sem hafa áhrif hér á.

Við vökvum meira á vaxtartíma plantna (mars – október) en á hvíldartíma, á veturna gæti okkur hætt til að vökva of mikið.

Planta sem fær of mikið  eða of lítið af vatni verður slöpp – einkennin eru þau sömu, því er nauðsynlegt að kanna hvort moldin sé þurr eða blaut áður en brugðist er við með vökvun.

Við vökvum áður en moldin verður of þurr. Við getum þreifað og skoðað, þurr mold er ljósari en rök. Það er ekki nóg að þreifa bara yfirborðið, stingdu t.d. fingri niður í moldina og finndu rakastigið á eigin skinni. Það er líka hægt að nota blýant með strokleðri í endann. Endanum með strokleðrinu er stungið ofan í moldina, ef blýanturinn kemur hreinn upp þá er moldin líklega orðin of þurr, ef það fylgir mold með strokleðrinu þá er moldin enn rök.

Það er líka hægt að lyfta plöntunni, þyngdin segir til um hvort þörf sé á vökvun eður ei.

Nú ef moldin verður of þurr þá munt þú sjá það á plöntunni sjálfri, laufblöð fara að hanga og jafnvel að verpast, blaðjaðrar fara að visna – ef það gerist einu sinni, þá munu flestar plöntur jafna sig eftir smá umhyggju, en ef plantan lendir í svona áfalli trekk í trekk þá verða bara vandamálin fleiri og stærri, t.d. með heimsókn meindýra.

Það er hægt að vökva ofan frá eða neðan frá. Ef vökvað er ofan frá, þá er vökvað ofan í pottinn og reynt að komast hjá því að bleyta sjálfa plöntuna mikið, sumar plöntur fá flekkótt laufblöð við yfirvökvun. Ef skilinn var eftir 1 -2 cm frá yfirborði moldar að pottabrún við pottun, þá fyllum við þetta rými af vatni, ætti að duga í hverri vökvun. Yfirborðið má gjarna þorna á milli vökvana til að koma í veg fyrir að svarðmý (litlar svartar flugur) nái sér á strik. Umfram vatni sem lekur í undirskálina þarf að hella af. Að því sögðu er vert að minna á, að blómapottar þurfa að hafa gat/göt í botninn svo umfram vatn geti lekið frá.

Ef plantan stendur í leirpotti með undirskál, þá er hægt að vökva í undirskálina og hella síðan umfram vatni af eftir 20-30 mínútur. Plöntur í leirpottum án glerungs þarf að vökva oftar en plöntur í glerjuðum pottum.

Ef pottaplantan er í plastpotti sem síðan er komið fyrir í leirpotti er hægt að taka plöntuna upp og koma henni fyrir í bala eða vaski, vatn er haft stofuheitt, nóg er að vatn standi 2-3 cm upp á pottinn. Eftir 20-30 mínútur er plantan tekin upp og henni komið fyrir í leirpottinum á ný. Stórar plöntur geta auðveldlega klárað vatnið á stuttum tíma, bætið þá við vatni. Smáar plöntur ná að taka upp nægju sína af vatni á skemmri tíma. Það er einnig hægt að dýfa blómapotti á kaf í fötu með vatni og halda honum þar, þar til að loftbólur hætta að sjást, þá er ráð að taka plöntuna upp og láta renna aðeins af henni. Eins og áður var nefnt hafa flestar plöntur gott af því að þorna á milli vökvana – hversu mikið er mismunandi á milli tegunda.

Gott er að venja sig á að vökva með stofuheitu vatni, hitakærar plöntur þola illa kalt vatn.

Hér fyrir neðan eru nokkrar punktar sem hægt er að styðjast við:

Lítil vökvun

  • Plantan vex við litla birtu
  • Kaktusar og þykkblöðungar
  • Plantan stendur á svölum stað
  • Plantan skartar þykkum og leðurkenndum laufblöðum
  • Plantan er í vetrarhvíld (enginn vöxtur yfir hávetur)
  • Plöntunni hefur nýlega verið umpottað
  • Plantan hefur verið klippt hressilega niður

Mikil vökvun

  • Plantan er staðsett við suður, austur eða vestur glugga að vori og yfir sumarið
  • Plantan stendur í óglerjuðum leirpotti
  • Plantan er í miklum vexti frá vori og fram á haust
  • Plantan blómstrar
  • Plantan er með stór laufblöð
  • Plantan er í of litlum potti miðað við hæð og umfang

Heimildir:
Mynd af floridania.dk

Guðrún Helga, garðyrkjufræðingur

Related posts

Plöntuhornið – Blettaskytta/Pengingablóm er vinsæl á haustin

Vel heppnað kryddjurtanámskeið

Plöntuhornið – Hið íslenska jólatré