Pottaplöntur og unglingar

Undanfarin ár hafa aðdáendur pottaplantna endurheimt gleði sína því loksins, eftir mörg mögur ár, eru pottaplöntur aftur komnar í tísku.  Eigendur pottaplantna hafa nú fengið uppreisn æru og geta um frjálst höfuð strokið, geta dregið pottaplönturnar fram í dagsljósið, stundað ræktunaræfingar sínar opinberlega en ekki í felum í bakherbergjum.  Það er dálítið sérstakt hversu algjört þetta hvarf pottaplantna var af heimilum, hvergi mátti sjást í grænan blett innanhúss, uppi voru kenningar um að fólk gæti orðið fyrir koltvísýringseitrun af því að hafa pottaplöntur í svefnherbergjum sínum, hvers konar vatnssull annars staðar en í vöskum og baðkerjum færi illa með gólfefni, meindýr á pottaplöntum gætu valdið varanlegum usla á húsbúnaði og jafnvel mannfólki (þá koma mannætublaðlýsnar og sófaánamaðkarnir auðvitað strax upp í hugann) og að auki væru þær bara ljótar.  Heilu árgangarnir af tímaritum um hýbýli og hönnun komu út gerilsneydd af plöntum.  Svo gerðist það að einhver frægur á instagram birti mynd af blómi heima hjá sér og það var eins og við manninn mælt, nú er ekkert heimili almennilegt nema þar sé dágott úrval af pottaplöntum. 

Það er ekki síst unga fólkið í dag sem hefur áhuga á að grænka umhverfi sitt og er það örugglega hluti af aukinni umhverfismeðvitund nútímans.  Úrval af pottaplöntum hefur nú stóraukist aftur og það er orðið verulega hættulegt fyrir veskið að heimsækja blómabúðir og garðyrkjuverslanir, ekki síst ef maður er með unglingana sína með sér. 

Ungmeyjarnar mínar hafa ekki farið varhluta af þessari tískusveiflu og finnst mjög gaman að eiga pottaplöntur.  Við erum ekki með gæludýr á heimilinu en það að eiga pottaplöntur er dálítið eins og að fá sér gæludýr, það þarf að hugsa um vel um þær.  Fyrir tæpum tveimur árum fóru dömurnar í garðyrkjuverslun með ömmu sinni og fengu að kaupa sér þykkblöðunga sem þær komu stoltar með heim og hugsuðu um.  Eftir um það bil viku voru tveir af þremur þykkblöðungum einhverra hluta vegna komnir í stofugluggann, eftir að hafa verið í herbergjum eigenda sinna fram að því. Skýringarnar sem eigendurnir gáfu voru að það væri ekki pláss í þeirra eigin gluggum fyrir þessar plöntur.  Fyrir áhugasama lesendur má geta þess að plönturnar voru í um það bil 6 cm breiðum pottum.  Þriðji þykkblöðungurinn kúrði áfram í gluggakistunni hjá elstu heimasætunni og virtist eiga gott líf í vændum, hún spjallaði reglulega við hann, vökvaði af og til og gekk svo langt að skíra plöntuna Tengdapabba, einhverra hluta minnti plantan hana á aðra plöntu sem hefur stundum verið kölluð tannhvassa tengdamamma.  Það kom foreldrunum því nokkuð á óvart þegar daman kom fram einn morguninn með tárvot augun og tilkynnti okkur að Tengapabbi hefði dottið út um gluggann hjá henni.  Úti var frost og skafrenningur, töluverður snjór yfir öllu en við stukkum í úlpur og drifum okkur út að leita að tengdapabbanum.  Hann fannst eftir nokkra leit en því miður lifði hann ekki þessar hrakfarir af. 

Fyrir stuttu vorum við mæðgur saman á ferð í garðyrkjuverslun þar sem var dásamlegt úrval af alls konar pottaplöntum.  Freistingarnar eru svo sannarlega til þess að falla fyrir þeim þannig að við fórum ekki tómhentar heim. Elsta heimasætan ákvað að fá sér fallegan nóvemberkaktus til að hafa í glugganum, í stað Tengdapabba heitins.  Auk þess keyptum við litla mímósuplöntu en mig hefur alltaf langað í slíka plöntu.  Fyrir þá sem ekki þekkja mímósu þá er hún þeim eiginleikum gædd að ef hún er snert byrjar hún á því að leggja blöðin saman og ef hún er snert aftur lætur hún smágreinarnar hanga.  Þetta er sjálfsvarnarviðbragð hjá mímósunni, með þessu er hún að gera sig ógirnilega fyrir þá sem hugsanlega vilja gæða sér á henni.  Litla mímósuplantan okkar var í byrjun úti í glugga en henni virtist ekki líða vel þar þannig að hún var færð inn í eldhús, þar sem hún undi sér vel undir flúorlýsingunni.  Fljótlega kom í ljós að setja þurfti stífar umgengnisreglur um mímósuna því hver einasti gestur sem kom í heimsókn (og það var töluverður fjöldi) þurfti að fá að prófa að snerta mímósuna til að sjá viðbrögðin.  Plöntugreyið var því stöðugt að bregðast við áreiti og er það mjög streituvaldandi.  Yngsta dóttirin var mjög áhugasöm um mímósuna og tók upp á því að kalla hana hræðslupúkann. 

Skemmst er frá því að segja að smám saman dró af hræðslupúkanum.  Dag frá degi slappaðist hann enn frekar niður, þrátt fyrir hæfilega vökvun, hitastig og birtu.  Við lauslega og gleraugnalausa skoðun virtust engin meindýr eða sjúkdómar hrjá plöntuna þannig að það lá beinast við að skamma yngstu dótturina.  ,,Mamma, það er sko ekki mér að kenna að hræðslupúkinn er svona slappur, það má ekki einu sinni hnerra á hann, þá hrekkur hann bara í kút!“  ,,Hnerraðirðu í alvöru á plöntuna??“ ,,Uu, já, ég var að baka og setti hveiti í skálina og þá þurfti ég allt í einu að hnerra og það er ekki góð hugmynd að hnerra ofan í hveitið..“  ,,Og liggur þá bara beinast við að hnerra yfir næsta blóm?“  Ég var alls ekki ánægð með þessa framgöngu dótturinnar, að hnerra á lítilmagnann, minni máttar, varnarlausa plöntuna sem átti sér engrar undankomu auðið.  Ég vökvaði mímósuna varlega með stofuheitu vatni og lofaði henni að ekki yrði hnerrað á hana aftur.  Þegar ég sneri mér frá henni sá ég hreyfingu út undan mér og bjóst jafnvel við að mímósan væri að kinka kolli til samþykkis.  Á þeirri stundu rifjaðist upp fyrir mér að það er betra að setja upp gleraugun áður en maður leitar lúsa.  Litla krúttlega mímósan, hræðslupúkinn, draumaplantan var morandi af pöddum.  Ég greip samstundis til aðgerða með efnum sem ekki eru á lista yfir viðurkennd plöntuvarnarefni, þ.e. vatns og blautsápu en því miður báru þær ekki árangur.  Blessuð sé minning mímósunnar.

Guðríður Helgadóttir, fyrrverandi mímósueigandi

Mínmósan góða fyrir hrekk…
og eftir hrekkinn!

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur