Þar sem háir hælar

Fyrir nokkru var ég beðin um að spila undir söng hjá félagsskap sem ég er í.  Sá sem bað um undirleikinn er mikill grínari og þegar hann bar upp spurninguna horfði hann djúpt í augu mér og sagði:  ,,Gætirðu spilað undir í laginu ,,Þar sem háir hælar, hálfan daginn fylla“?“  Mig grunaði að þetta væri einhvers konar hrekkur af hans hálfu því textinn var eitthvað dularfullur, þó hann hljómaði um það bil réttur og ég hafði aldrei heyrt lag við þennan texta.  Ég setti því þann fyrirvara við undirleikinn að ég fyndi nótur að laginu.  Hann glotti við tönn og leiðrétti þá textann aðeins. ,,Auðvitað er þetta ,,Þar sem háir hólar, hálfan dalinn fylla“ Hannesar Hafsteins og lagið er eftir Árna Thorsteinsson, þú finnur það í Söngvasafninu.“  Allt gekk þetta eftir en ég verð að viðurkenna að ég hef spilað lög sem eru meira grípandi.

Háir hælar hafa hins vegar komið mjög mikið við sögu á mínu heimili síðustu árin enda kannski ekki hjá því komist þegar búið er með ungmeyjum sem vaxa úr grasi og vilja verða stórar sem allra fyrst.  Yngsta daman á heimilinu óskaði sér einskis heitar en þess að fá hælaskó í afmælisgjöf þegar hún varð fimm ára.  Foreldrarnir voru eitthvað uppteknir af því að það væri óhollt fyrir unga skrokka í hröðum vexti að ganga á háum hælum, slíkt gæti valdið hryggskekkju, mjaðmavandamálum og meltingartruflunum en sem betur fer eru ömmur og afar ekki rígbundin af slíkum uppeldisfjötrum.  Því má skjóta hér inn að amman hefur aldrei gengið öðru en hælaskóm og er einungis til eitt óstaðfest dæmi um að til hennar hafi sést á flatbotna skóm, öll sönnunargögn eru hins vegar horfin og því ekki hægt að fjölyrða meira um það.  Litla daman fékk því fyrstu hælaskóna í afmælisgjöf frá ömmunni og afanum og mér er til efs að nokkur afmælisgjöf hafi vakið önnur eins viðbrögð fyrr og síðar.  Gömlu spariskórnir, sem fram að afmælinu höfðu vakið heilmikla aðdáun enda silfraðir, með glimmeráferð og skreyttir bleikum fiðrildum, fuku út í næsta horn og nýju svörtu hælaskórnir með silfurhjörtunum voru umsvifalaust dregnir á fæturna.  Svo hljóp stúlkan hælavösk af stað.  Afmælisveislan fór fram í grónu og fallegu umhverfi að sumarlagi og gaf það fjölbreytta möguleika á að prófa skóna við margvíslegar aðstæður.  Í ljós kom að þessir frábæru hælaskór voru jafngóðir hvort sem hlaupið var á hellulögðu yfirborði, í blómabeðum, hoppað í grunna tjörn í nágrenninu eða klifrað upp í tré.  Einnig reyndust þeir vel í snúsnú og sippi, sem og í stuttum fótboltaleik með leðurbolta.  Allan þennan tíma brosti afmælisbarnið hringinn af ánægju með nýju hælaskóna og það var ekki að sjá að það hefði nokkurn tíma gengið á annars konar fótabúnaði.  Þegar afmælisdagurinn var að kvöldi kominn og veisluhöldum lokið sofnaði afmælisbarnið vært í rúmi sínu en foreldrarnir dunduðu sér við það fram á nótt að dytta að hælaskónum því þeir höfðu látið verulega á sjá, silfurhjörtum hafði fækkað aðeins og hælarnir trosnað við aðfarir dagsins.  Það er magnað hvað hægt er að gera með lími og svörtum tússpenna.

Svo hafa árin liðið og með tímanum hefur áhugi ungmeyjanna á hælaskóm einungis aukist.  Metnaðurinn fyrir hæð hælanna hefur einnig vaxið og virðist mér á stundum sem það væri nær að fá laghentan smið til að smíða fyrir þær tækifærisstultur í ýmsum litum sem gætu passað við fatnaðinn hverju sinni.  Stundum hefur móðurinni dottið í hug að selja inn á þá viðburði þegar ungmeyjarnar æfa göngu á háum hælum, eða ætti kannski frekar að tala um jafnvægislistir?  Tekjurnar af aðgöngueyrinum yrðu örugglega drjúgar.  Oftast ganga þessar æfingar mjög vel og þær ná að haldast í uppréttu formi allan tímann en stundum riða þær töluvert til og minna þá á strá í vindi eða þarablöðkur sem berast um með hafstraumum, jafnvel á hóp eldri kvenna sem var að æfa sig að gera jafnvægisæfinguna tré í jógatíma fyrir byrjendur og kennarinn hafði orð á því að það væri greinilega hvasst í þessum skógi.  Göngulagið er enn sem komið er frekar rykkjótt enda þarf að huga að jafnvægi og líkamsstöðu í hverju skrefi.  Eljusemin við gönguæfingarnar er aðdáunarverð og þær gefast ekki upp þótt móti blási, þótt þær riði til falls, þótt móðirin geti ekki aðstoðað þær á fætur því hún liggur sjálf í hláturskrampa á gólfinu.  Nei, einbeitingin er alger, þær munu verða snillingar á hælunum, líða áfram þokkafullar eins og ballerínur, jafnvel keppa í spretthlaupi á hælaskóm eins og gert er sums staðar í útlöndum, í þessu eins og flestu öðru verða þær móðurbetrungar.  Enn sem komið er ber ekkert á hryggskekkju, mjaðmabrasi eða meltingartruflunum hjá ungmeyjunum af völdum hælaskónna en stöku hæl- og tásæri hafa sett tímabundin strik í reikninginn.  Það virðist vera ásættanlegur fórnarkostnaður af þeirra hálfu. Eitt af því sem nú er alltaf til í skápum heima hjá mér er hælsærisplástur.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur