Eftir síðasta vetur var ég mjög spennt fyrir sólríku og hlýju sumri. Snemma vors bjó ég mig vel
undir sumarið, straujaði uppáhalds stuttbuxurnar og kom þeim haganlega fyrir efst í skúffu
þannig að ég gæti gripið hratt til þeirra, flokkaði hlýraboli eftir litum og raðaði í stafrófsröð
fremst í hillu og stífbónaði sumarsandalana svo stirndi á þá. Svo hófst biðin. Hún bar ekki
árangur. Ég hélt lengi vel í vonina um að úr myndi rætast en skyndilega var sumarfríinu lokið og
ég komin á kaf í vinnu, nákvæmlega jafn föl á hörund og D-vítamínskert og í vor. Vonin er þó
ótrúlegt fyrirbæri og einhverra hluta vegna virtist ég enn illa haldin af von eftir betra veðri þegar
leið að hausti og fór að dimma fyrr á kvöldin. Það kom mér því gjörsamlega í opna skjöldu þegar
ég einn frekar leiðinlegan veðurdag í haust þurfti að skafa frostrósirnar af bílnum mínum og
sumarið ekki einu sinni komið. Þvílík vonbrigði.
Ég brá á það ráð að láta eins og þetta væri einsskiptisviðburður og kæmi mér hreinlega ekki við.
Ég ók því af stað í vinnuna en fljótlega kom í ljós að sléttu sumardekkin mín voru ekki
heppilegasti skóbúnaðurinn fyrir bílinn minn. Þvert á móti varð ég að hægja verulega á mér og
fylgja umferðarhraða yfir Hellisheiðina en þess má geta að hraðinn í röðinni sem ég var fremst í
fór ekki mikið yfir 37 kílómetra á klukkustund þegar best lét. Þegar ég seint og um síðir var
komin heilu og höldnu á leiðarenda dreif ég í að hafa samband við frænda minn á
dekkjaverkstæðinu og bað hann um að græja fyrir mig dekk með almennilegum nöglum. Hann
tók erindinu mjög vel og nokkrum dögum seinna var ég mætt eldsnemma við dekkjaverkstæðið.
Þar fyrir utan var fjöldi bíla og erfitt að finna bílastæði en þrautseigjan skilar sér og ég fann
stæði ekki mjög langt frá og skokkaði svo í úrhellisrigningu að inngangi verkstæðisins. Við
innganginn stóð hópur af fólki undir skyggni og beið greinilega eftir því að verkstæðið opnaði.
Vingjarnleg kona í hópnum bauð mér góðan dag og hvort ég vildi ekki koma undir skyggnið til
þeirra. Ég þáði boðið, hópurinn þétti raðirnar og vingjarnlega konan tilkynnti mér að ég væri
númer átta í röðinni. Eftir stutta stund var mér orðið nokkuð kalt þannig að ég stappaði aðeins
niður fótum og iðaði töluvert í skinninu til að koma blóðinu á hreyfingu. ,,Ertu ekki í
föðurlandi?“ spurði vingjarnlega konan. Ég svaraði því neitandi og sagðist ekki hafa búist við að
standa úti í röð. ,,Ég skellti mér nú bara í dekkjaskiptadressið í morgun, föðurland, lopapeysy og
síðast en ekki síst regnkápu og utanyfirbuxur“ sagði vingjarnlega konan og benti á viðkomandi
fatnað sem var ekki bara hagnýtur heldur sérlega litríkur og fallegur. ,,Ja, ég er nú með hanska
og trefil í bílnum“ sagði ég og tvísteig aðeins. ,,Ekkert mál, skondrastu bara eftir því, við
geymum plássið þitt í röðinni á meðan.“
Um leið og ég kom til baka bættist karlmaður í hópinn. ,,Þú ert númer níu í röðinni væni minn,
áttan okkar stökk bara eftir vettlingum“ tilkynnti vingjarnlega konan manninum sem tók sér
stöðu í þéttum hópnum undir skyggninu.
Loks kom að því að frændinn og félagar opnuðu verkstæðið og hópurinn streymdi inn, sótti sér
miða og flestir héldu svo sína leið út í haustið. Ég kvaddi frænda minn með og þegar ég var við
það að fara út um dyrnar spurði vingjarnlega konan hvort mig vantaði far eitthvað, hún gæti
hæglega skutlað mér. Ég hef aldrei hitt þessa konu fyrr né síðar en þvílík hjartagæska og
hjálpsemi. Ég afþakkaði þó boðið því ég hafði gert aðrar ráðstafanir en hef hugsað með hlýhug
til þessarar konu oft síðan.
Nagladekkin mín eru mjög góð, það eina er að ekki hefur gert frost síðan dekkin fóru undir og
þessa dagana er hitastigið komið langt upp fyrir það sem var í sumar. Hefði ég átt að bíða aðeins
lengur eftir sumrinu?
Guðríður Helgadóttir, sem ekki hefur náð því að vera sumarkona í ár.