Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu

Mamma mín bakar bestu súkkulaðibitasmákökur heimsins og jafnvel þótt víðar væri leitað.  Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu hafa verið bakaðar fyrir hver einustu jól sem ég hef lifað og ég geri ráð svo verði áfram, ekkert í kortunum bendir til annars.  Ég tel mjög líklegt að mamma hafi fengið þessa uppskrift hjá mömmu sinni, að minnsta kosti rekur mig minni til þess að í gömlu handskrifuðu uppskriftabókinni hennar mömmu (þessari með bráðnuðum smjörblettum, súkkulaðislettum og öðrum bakstursummerkjum) hafi uppskriftin heitið ,,Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu“. Að sjálfsögðu hafa þær fengið sama heiti í minni bók.

Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu eru bakaðar úr heiðarlegri óhollustu, með sykri, púðursykri, hveiti, smjöri og súkkulaði, nánast öllum þeim efnum sem okkur er ráðlagt að forðast.  Enda eru þær góðar.  Deigið er hnoðað og kælt, svo býr maður til rúllur úr því, sker rúllurnar í litla bita sem eru mótaðir að vild og mynda kökurnar.  Ofan á hverja köku fer svo biti af súkkulaði.  Það er mjög mikilvægt að þessi súkkulaðibiti sé úr alvöru suðusúkkulaði frá Nóa-Siríusi (þetta er ekki auglýsing, þetta er staðreynd), þessu sem er innpakkað í smjörpappír og það skiptir öllu máli að hver plata sé skorin niður í bita, hér má alls ekki stytta sér leið.  Einhverju sinni ákvað mamma að spara sér súkkulaðiniðurskurðinn og keypti súkkulaðidropa.  Ofan á hverja köku setti hún einn dropa og viti menn, kökurnar urðu mjög fallega einsleitar, litu vel út á kökudiskinum og svo ég gæti nú fyllstu sanngirni, þær brögðuðust mjög vel.  Þetta hugnaðist okkur systrunum þó alls ekki.  Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu eiga að líta út fyrir að vera heimabakaðar, miskringlóttar, misstórar og með misstórum súkkulaðibitum, hálf gleðin við að borða þær er einmitt sú að velja köku með stærsta bitanum, vera sneggri en systurnar að ná girnilegustu kökunni, glenna hana framan í systur sínar og lýsa því yfir með mikilli velþóknun að þetta hefði nú örugglega verið besta kakan.  Stöðluðu súkkulaðidroparnir gerðu allar svona æfingar marklausar og hafa þeir aldrei verið notaðir á súkkulaðibitakökur síðan í minni fjölskyldu.

Súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu eru einungis bakaðar fyrir jólin.  Um þetta gildir mjög strangt heiðurskvennasamkomulag milli mömmu og okkar systra.  Sú breyting hefur þó orðið á framkvæmdinni með tímanum að nú eru þær bakaðar í upphafi aðventu og borðaðar á aðventunni en áður voru þær bakaðar á aðventunni, læstar í peningaskáp með háþróuðu viðvörunarkerfi fram á aðfangadagskvöld og boðnar með heitu súkkulaði eftir að pakkarnir höfðu verið opnaðir.  Það lýsir einmitt ákveðinni herkænsku að geyma kökurnar þangað til allir eru pakksaddir af öðrum mat, með þessu móti endast þær svo miklu lengur og hægt að bjóða þær aftur og aftur yfir jólin því hver og einn getur varla torgað mörgum kökum ofan í þríréttaðar veislumáltíðir.  Heyrst hefur að í einhver skipti hafi þessar ljúffengu kökur jafnvel náð að endast fram á þrettándann en þær sögur eru algerlega óstaðfestar.

Yngismeyjarnar á mínu heimili voru ekki háar í loftinu þegar þær áttuðu sig á einstökum bragðgæðum súkkulaðibitakakanna og þurfti hreinlega að skammta þeim nokkrar kökur á disk til að koma í veg fyrir sykursprengingar af alvarlegra taginu.  Einhverju sinni kom frændi þeirra í heimsókn á aðventunni í þeim tilgangi að mála piparkökur og leika við frænkur sínar.  Frænkurnar tóku sérlega vel á móti frændanum og buðu hann velkominn með því að fullvissa hann um að mamma væri búin að baka súkkulaðibitakökurnar og þær ættu að vera með kaffinu.  Frændinn brosti út að eyrum enda alinn upp við þessar sömu súkkulaðibitakökur hjá sinni mömmu.  Börnin máluðu á piparkökurnar og sungu jólalög hástöfum á meðan móðirin sótti hálffullan kökudall með súkkulaðibitakökum og fór að gera klárt fyrir drekkutíma.  Við eftirgrennslan í ísskápnum kom hins vegar í ljós alvarlegur mjólkurskortur á heimilinu og við það varð ekki búið, mjólk er staðaldrykkur með súkkulaðibitakökum.  Móðirin varð því að hlaupa út í búð eftir mjólk og fullvissaði börnin um að hún yrði eldsnögg, búðin rétt hinum megin við götuna.  Búðarferðin tók hugsanlega hátt í 14 mínútur og þegar móðirin kom sigri hrósandi inn um dyrnar með fangið fullt af ískaldri mjólk mættu henni tvær yngismeyjar með súkkulaði og kökumylsnur í munnvikinu, einn frændi með eina súkkulaðibitaköku á leiðina upp í munninn og galtómur súkkulaðibitakökudalllur.  Móðirin horfði forviða á börnin og sagði svo undrandi:  ,,Kláruðuð þið allar súkkulaðibitakökurnar?“  Yngismeyjarnar horfðu hvor á aðra og svo á frændann sem var sá eini sem enn var með sönnunargögn í hendi sér og bentu svo á frændann.  ,,Hann kláraði þær.“  Aumingja frændinn gat alls ekki neitað því, hann hafði jú fengið síðustu tvær kökurnar úr dallinum, hinar kökurnar höfðu ratað í botnlausa maga yngismeyjanna.

Sjálf hef ég nú þegar bakað súkkulaðibitakökurnar hennar mömmu í tvígang fyrir þessi jól og eins og staðan er nú þegar þessi pistill er skrifaður er ekki ein einasta kaka til í kotinu.  Kannski ég skelli í eins og einn skammt í viðbót fyrir jólin, það er von á frændanum í kaffi.

(Innskot ritstjóra) Þessi uppskrift brýtur allar heilsureglur Náttúrulækningafélags Íslands og er með ríflegt magn af sykri. Að beiðni ritsjóra bauðst Gurrý til þess að deila þessari fjölskylduuppskrift með okkur með því skilyrði að við gættum hófs í neyslunni og borðuðum kökurnar bara á aðventunni.

Uppskrift
500 g hveiti
200 g sykur
200 g púðursykur
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
2 egg
1 tsk vanilludropar
250 g ljómasmjörlíki
Ca 150 g suðusúkkulaði frá Nóa-Siríusi, skorið í bita (hver biti í fernt).

Aðferð
Allt hnoðað saman og deigið kælt.  Rúllað í lengjur, skorið í litla bita og kökur mótaðar, ofan á hverja köku fer 1 súkkulaðibiti.  Athuga að hafa kökurnar ekki of stórar, þær renna dálítið út við baksturinn.  Úr þessari uppskrift að fást ríflega 200 kökur.
Bakað við 180°C í ca 8-10 mín eða þar til kökurnar eru gullnar á litinn.
Borið fram á aðventunni með ískaldri mjólk.

Verði ykkur að góðu!

Gleðileg jól!

Guðríður Helgadóttir, súkkulaðibitakökudrottning

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!