Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að elskulegur eiginmaður minn bauð mér með í helgarferð fyrir stuttu, ásamt með vinnufélögum hans og mökum. Þetta var hin ánægjulegast ferð, góður félagsskapur, fínn matur og veðrið af dýrari gerðinni, glaðasólskin og hægur andvari, svona svipað og maður les um á netinu og vonast til að upplifa en því miður hefur framboð af slíku veðri verið mjög takmarkað á suðurhluta Íslands þetta árið. Til að gæta fullrar sanngirni má þó ekki gleyma því að sumarið á Íslandi í ár bar upp á þriðjudag snemma í september og hvílíkur dagur, glampandi sól og tveggja stafa tala í hitastigi! Eftir á að hyggja hefðu fyrirtæki og stofnanir á Íslandi átt að loka vegna veðurs, eins og gerðist stöku sinnum á sumardögum í den.
Víkur þá aftur sögunni að ferðalaginu okkar góða en eftir nokkra ljúfa daga kom að heimferð eins og gengur. Langferðabifreið sótti hópinn og ók á flugvöllinn en eins og gengur var töluverð umferð á leiðinni og tafðist því aksturinn nokkuð, að minnsta kosti þurftum við að rifja upp gamla sprettgöngutakta til að missa ekki af fluginu. Við hjónin vorum svo heppin að fá sæti hlið við hlið, komum okkur þægilega fyrir, ég tengdi snúruna með heyrnartólunum við skjáinn og valdi mér ákaflega spennandi kvikmynd. Fljótlega komst ég að því að hljóðgæðin voru ekki sem skyldi og þurfti ég að halda um snúruna með annarri hendi á ákveðinn hátt til að heyra almennilega hvað fram fór á skjánum. Það gekk vel og svo niðursokkin var ég í söguþráðinn að mér krossbrá og missti snúruna þegar flugfreyjan kom og spurði mig hvort ég vildi fá eitthvað að drekka. Ég þáði vatnsglas og var mjög ánægð með það fá klaka í vatnið. Fyrsti sopinn af þessu góða vatni var kaldur og svalandi en myndin beið mín þannig að ég tók til við að finna aftur réttu stellinguna fyrir snúruna. Eitt augnablik leit ég yfir til eiginmannsins sem dreypti á heitu og notalegu kaffi og velti fyrir mér hvort ég hefði frekar átt að þiggja kaffibolla en í því rak ég snúruna í glasið og vatnið flæddi beint í kjöltuna á mér. Ískalt. Með klökum.
Þegar maður situr í flugvélarsæti með sætisbeltið spennt eru harla litlir möguleikar á að stökkva hæð sína í loft upp. Þess í stað sat ég pikkföst og fann hvernig vatnið lak niður, flæddi vel yfir lærin og safnaðast í sætið undir rassinum. Það má kannski segja það flugvélasætum til hróss að þau eru fullkomlega vatnsheld, ekki einn einasti dropi lak niður á gólf. Á borðinu fyrir framan mig var ein lítil servíetta sem gagnaðist lítið sem ekkert þannig að ég bað eiginmanninn um að hnippa í flugfreyjuna og fá hjá henni eitthvað til að þurrka pollinn. Flugfreyjan var frekar upptekin við annað en rétti honum tvær servíettur og sagðist geta komið aftur með meira þegar búið væri að afgreiða drykkina. Ég sat því í pollinum í drykklanga stund og íhugaði mögulegar langtímaafleiðingar alvarlegs lærakals eða bráðablöðrubólgu en sem betur fer bráðnuðu klakarnir frekar hratt og smám saman hitnaði vatnið af líkamshitanum. Loks kom freyjan með hálfa eldhúsrúllu sem ég notaði eins og kostur var og með tímanum þornuðu gallabuxurnar framan á lærunum.
Þegar flugvélin lenti og kom að því að ganga frá borði var ég búin að biðja ástkæran eiginmanninn að ganga á eftir mér og halda sig mjög nærri því mér fannst dálítið óþægilegt að rennblautur afturendinn væri almenningi til sýnis, mögulega gæti fólk dregið af þessu ástandi kolrangar ályktanir. Þessi ráðahagur gekk mjög vel hjá okkur hjónum allt þar til komið var að því að fara í gegnum vegabréfaskoðunina. Þá urðum við því miður viðskila og ég var eiginlega hætt að velta mér upp úr þessum vandræðum. Ég arkaði því ákveðið í áttina að fríhöfninni, komin á endasprettinn og nánast sloppin úr þessum aðstæðum. Þá heyri ég sagt stundarhátt rétt fyrir aftan mig: ,,Er þetta ekki Gurrý?“ Ég nauðhemlaði og snarsnerist á punktinum og viti menn, rétt á eftir mér voru fimm gamlir skólafélagar úr menntaskóla, sprúðlandi kátir eftir skemmtilega strákaferð til útlanda. Aðaltöffararnir. Verra gat það varla verið. Ég vona samt að þeim hafi ekki fundist það undarlegt að ég hafi bakkað á undan þeim alla leið inn í fríhöfnina á meðan ég spjallaði við þá.
Guðríður Helgadóttir, dálítið vandræðaleg