Selfí

Í gegnum tíðina hef ég haft sérstakan áhuga á ljósmyndun.  Fyrstu myndavélina mína gaf amma mín og nafna mér í fermingargjöf, það var mjög framúrstefnuleg myndavél, svokölluð Kodak Disc myndavél þar sem filman var flatur diskur sem fór haganlega í vélinni. Þessi vél var einnig með innbyggðu flass og ekki man ég til þess að ég hafi þurft að trekkja hana.  Gjöfinni fylgdu þau ummæli að ég skyldi taka mikið af myndum, það væri svo gaman að eiga góðar minningar á pappír. Eins og lög gera ráð fyrir fór ég vel og vandlega að fyrirmælum ömmu minnar og tók myndir af hvaðeina sem varð á vegi mínum, fjöllum, steinum, blómum, fólki, dýrum og meira að segja á ég mynd af uppáhalds makkintossmolanum mínum, appelsínugulu karamellunni (já hún var enn í umbúðunum!), sællar minningar.  Það eina sem hamlaði för við ljósmyndaáhugamálið var framköllunarkostnaður, orð sem fólk fætt á þessari öld hefur kannski lesið og heyrt en hefur sennilega takmarkaðan skilning á merkingunni.

Með árunum þróaðist myndavélatæknin og færni mín til að taka myndir og smám saman færðist fókusinn yfir á plöntumyndir, þær eru mjög þægilegt viðfangsefni, kyrrar á sínum stað, síbrosandi og alltaf fallegar.  Það var eiginlega ekki fyrr en ég eignaðist uppáhaldsdætur mínar að blómin fengu samkeppni við athygli myndavélarinnar.  Dætur mínar hafa alist upp við fyrirsætustörf allt frá fæðingu, eins og flest ungviði nútímans.  Fyrstu árin átti ég hægfara stafræna myndavél sem gerði það yfirleitt að verkum að þegar ég smellti af liðu nokkrar sekúndur þar til myndavélin áttaði sig á sínu hlutverki og kláraði dæmið, á þessum sekúndum náðu ungmeyjarnar að skipta um stellingu, hætta að brosa eða jafnvel hlaupa í burtu.  Þetta þótti mér frekar hvimleitt því ég fylgi enn leiðbeiningum ömmu minnar um að geyma minningar.  Ég á fjöldan allan af myndum af dætrunum þar sem sést í handlegg eða fót, andlit úr fókus eða jafnvel myndir þar sem þær sjást alls ekki, svona eins og kindurnar bak við fjallið í myndum Stefáns frá Möðrudal ( Stórval).

Þegar ungmeyjarnar voru yngri fannst mér mikilvægt að ná að taka fallegar myndir af þeim, þær væru helst ekki alltaf að gretta sig, mættu jafnvel brosa eða að minnsta kosti sitja kyrrar á meðan smellt væri af.  Smám saman náðist þetta og um 10 ára aldurinn voru þær eins og hugur manns.  Svo eignuðust þær farsíma og nú eru eggin farin að kenna hænunni.

Um það leyti sem ungmeyjarnar mínar fóru að feta sína leið á samfélagsmiðlum fór að bera á ýmiss konar tilfæringum við ljósmyndatökurnar.  Það sem einu sinni þóttu eðlileg bros virðast í dag vera flokkuð sem grimmilegar grettur þar sem sést allt of mikið í tennur, kannski eru tennur aftur orðnar að þeirri ógn sem þeim var ætlað í fyrndinni?  Að minnsta kosti hef ég skoðað ógrynni sjálfsmynda (selfí) af ungmeyjum þar sem þær eru allar með sama munnsvipinn, dulúðlegt bros, sést aldrei í tennur, myndavélinni alltaf haldið aðeins fyrir ofan andlitið þannig að undirhökur heyra sögunni til, myndefnið fullkomnunin uppmáluð.  Stundum þarf að hagræða símanum í heillanga stund þar til svipurinn er fullkomnaður.

Það er því ekki undarlegt að dætur mínar tóku sig til um daginn og reyndu að skóla móðurina til í að taka selfí.  ,,Mamma, settu tunguna upp í góminn og teygðu á hálsinum, þá losnarðu við undirhökuna, bíttu saman tönnunum og láttu neðri vörina vera alveg slaka, þá færðu svona ,,resting bitch face“(mér skilst að það hafi ekki eins neikvæða merkingu og lauslega þýðingin tíkarleg hvíldarstaða býður upp á), nei ekki tennur, brostu bara með augunum, nei ekki glenna þau svona upp.. ekki beygja þig svona fram, þá er eins og þú sért með kryppu..“  Á endanum gafst ég upp, mér fannst þetta allt of flókið, það er ekki skrýtið að ungt fólk í dag sé að sligast af áhyggjum þegar einföld myndataka er svona mikið fyrirtæki, ekki síst þegar haft er í huga að lífið er nánast allt skrásett á samfélagsmiðlum.  Dæturnar hafa að ég held gefið skólunina upp á bátinn, þeim fannst ég ekki ná ,,resting bitch face“ nægilega vel, ég brast alltaf í stjórnlausan hlátur.  Þær komust að þeirri niðurstöðu að það skásta sem ég gæti náð væri að þeirra mati ,,resting glott face“ sem gæti útlagst sem glottandi hvíldarstaða.  Ég held því áfram að sigla glottandi í gegnum lífið og æfi kannski sjálfsmyndatökur í jólafríinu.

Gleðileg jól!

Guðríður Helgadóttir, glottandi garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur