Rassaköst og önnur köst

Sumarleyfistíminn er alveg hreint dásamlegur.  Engin vinna til að slíta í sundur fyrir manni frítímann, sólarhringurinn einhvern veginn miklu lengri en á veturna og almenn gleði og hamingja hjá fólki, svona yfirleitt.  Við fjölskyldan lögðum land undir fót í sumarfríinu og dvöldum meðal annars ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum í sérlega góðu yfirlæti í afskekktri vík utan þjónustusvæðis.  Í þessa yndislegu vík er ekki akfært, ekki búið að finna upp rafmagnið, símar eitthvað sem einungis er hægt að nota í neyðartilfellum og þá með talsverðri fyrirhöfn, engin opinber þjónusta af nokkru tagi og því er nauðsynlegt að undirbúa ferðalagið vel, ekki er hægt að skjótast út í búð ef eitthvað vantar.

Eitt af því sem ekki er til staðar í víkinni góðu er uppþvottavél, enda skilst mér að þær gangi almennt fyrir rafmagni.  Það er því nauðsynlegt að vaska upp með aldagömlum aðferðum þar sem vatn er hitað í stórum potti, leirtauið sett í uppþvottabalann og þvegið með handafli.  Flestum reynist þetta ágætis upprifjun á gömlum uppvöskunartöktum, skella á sig uppþvottahanskana, sprauta smá skammti af sápu í balann og ausa svo heita vatninu með könnu í balann eftir þörfum.   Almennt gengur þetta snurðulaust fyrir sig en stundum geta þó orðið uppvöskunaróhöpp.  Fyrsta kvöldið okkar í víkinni var hópurinn aðeins að slípast til, verkaskiptingin ekki alveg komin á hreint, allir fúsir til að leysa verkefnin og mikið kapp í fólki að sýna sínar bestu verkhliðar.  Því var það að þrjár þaulreyndar húsmæður voru allt í einu komnar að vaskinum til að vaska upp eftir kvöldmatinn.  Venjulega er þetta áætlað um það bil tveggja manna verk, einn vaskar upp og annar þurrkar en húsmæðurnar ákváðu að láta á það reyna hvort hugsanlega væri hægt að brjóta uppvaskið niður í enn fleiri verkþætti.  Ein þeirra tók því að sér að ausa vatni úr pottinum, önnur vaskaði upp og sú þriðja þurrkaði.  Þetta hefði allt gengið vel og áfallalaust fyrir sig ef uppvaskarinn hefði bara haldið sig við sitt verkefni og ekki verið að rassakastast fram og til baka við borðið.  Í einni mjaðmasveiflunni rak uppvaskarinn sig nefnilega í ausarann og fékk þá yfir annan handlegginn vænan skammt af nýsoðnu vatni, rjúkandi heitu úr pottinum.  Mátti vart á milli sjá hvorum sveið þetta meira, ausaranum eða uppvaskaranum sem varð fyrir vatninu.  Miðað við það hversu fljótur uppvaskarinn var að snara sér úr blautum bolnum mætti halda að hann hafi umtalsverða reynslu af hraðstrippi en það hefur ekki fengist staðfest.  Uppþvottabalinn var nú tæmdur með hraði og fylltur af svalandi vatni og sat uppvaskarinn með brennda handlegginn í balanum langt fram eftir kvöldi.  Smám saman varð ljóst að skaðinn var nægilega lítill til að hafa ekki áhrif á frekari dvöl uppvaskarans í víkinni, fyrir svefninn skellti uppvaskarinn á sig nokkurra ára gömlu brunageli sem fannst í skyndihjálparkassanum og daginn eftir fann hann ekki lengur til í hendinni.

Var þá komið að degi tvö í ferðalaginu.  Á dagskrá dagsins var veiðiferð í stöðuvatn í ríflega hálftíma göngufjarlægð frá húsinu.  Brenndi uppvaskarinn ákvað að halda sig heimavið en aðrir drifu sig af stað.  Ekki voru margir klukkutímar liðnir þegar einn af veiðimönnunum kom askvaðandi heim við annan mann.  Veiðimaðurinn hafði lent í því óhappi að fá öngul á kaf í lófann á sér, á einhvern óskiljanlegan hátt.  Hann náði ekki önglinum sjálfur úr lófanum og lagði því af stað heimleiðis til að kanna hvort þar væru einhver verkfæri sem hægt væri að nota til að losa um öngulinn.  Hann bar sig vel, þrátt fyrir augljós óþægindi af staðsetningu öngulsins og af reynslu sinni af erlendum bíómyndum sá hann fram á að þegar heim væri komið, fengi hann veglegan sopa af sterku áfengi áður en lagt yrði til atlögu við öngulinn, áhrif áfengis sem deyfilyfs eru víst vel þekkt á hvíta tjaldinu.  Þegar heim var komið var úr því skorið að ekkert dygði nema að skera öngulinn úr lófanum.  Til þess var fenginn dúkahnífur að láni í næsta húsi og hann baðaður upp úr spritti fyrir aðgerð.  Þrátt fyrir ítrekaða leit að sterka áfenginu sem grunur var uppi um að leyndist í húsinu fannst það ekki og neyddist veiðimaðurinn því til að þola uppskurðinn án nokkurnar hjartastyrkingar.  Enginn af viðstöddum hafði nokkra reynslu af því að beita hnífi á annað fólk og fór því alldrjúgur tími í að karpa um það hver skyldi bregða brandinum en á endanum var það brenndi uppvaskarinn frá því kvöldið áður sem tók af skarið og sá um uppskurðinn.  Allt gekk þetta vel, öngullinn var skorinn burtu, vænum sopa af spritti hellt í sárið til sótthreinsunar og sárinu svo lokað með heftiplástri.  Sem betur fer var afli dagsins fjölbreyttari en einn sjálfveiddur veiðimaður, einnig fengust nokkrir ágætis matfiskar í hús og glöddu svanga maga um kvöldið.

Lærdómurinn af þessum örsögum úr sumarfríinu er margvíslegur en hér má til dæmis nefna að fjölmenni við uppvask verður ekki endilega til þess að verkið gangar hraðar fyrir sig eða af auknu öryggi og handbruni er ekki heppileg leið til að komast hjá frekar uppvaski.  Eins er rétt að hafa í huga að ef maður ætlar að deyfa sársauka eftir að hafa fengið öngul í lófa er eins gott að vera bara með pelann á sér sjálfur. 

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur í sumarfríi

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur