Peningaþvætti

Peningaþvætti er aðgerð sem ég hef lítið stundað um ævina, nema þá kannski þarna um árið þegar ég gleymdi fimmhundruðkallinum í rassavasa gallabuxnanna og skellti þeim í þvottavélina.  Hreinni fimmhundruðkall hef ég sennilega aldrei átt, hann var að vísu dálítið útvatnaður, upplitaður og laskaður og gott ef ég fékk ekki athugasemdir við hann þegar ég átti næst leið í búð og reyndi að borga með honum en þó minnir mig að afgreiðslustúlkan hafi tekið við honum að lokum.  Síðustu helgina í febrúar var ég óþyrmilega minnt á aðgerðir gegn peningaþvætti þegar það rann upp fyrir mér að ég, sem stjórnarmaður í litlu áhugafélagi sem á í hreinum eignum kr. 71.234 í bankabók, þurfti að skrá raunverulega eiganda félagsins hjá skattinum.  Ekki nóg með það, það boð var látið út ganga að lagðar yrðu dagsektir á þá sem ekki yrðu við skráningunni innan tiltekins tíma.  Ég sá fram á að miðað við lágmarksdagsektir, 10 þúsund krónur á dag, tæki það skattinn einungis eina viku að tæma bankabók félagsins.  Því harkaði ég af mér, herti upp hugann, bældi niður bróðurpart frestunaráráttunnar, settist við tölvuna, skráði mig inn hjá skattinum og fann flipann fyrir skráningu raunverulegra eigenda.  Í fyrstu var ferlið nokkuð skýrt, einungis beðið um nafn, kennitölu, heimilisfang, skónúmer, lífsýni, mittismál, netfang og aðrar eðlilegar upplýsingar sem skatturinn þarf nauðsynlega á að halda en svo skall hrollkaldur eignatengslaveruleikinn á af fullum þunga.  Á síðu tvö þurfti að gera grein fyrir eignarhaldi og af hvaða toga það væri.  Þar birtist mér langur listi af óskiljanlegum möguleikum, eitthvað sem leit út eins og bein eignarhaldsaðildarafstaða, taumlaus stjórnunartengsl, dreifð stjórnun með beinum áhrifum og fleira þvíumlíkt.  Ég tel mig mjög góða íslenskumanneskju, hef lesið alls konar texta og skilið hann fullkomlega en þetta leit út eins argasta hrognamál fyrir mér, latína hefði til dæmis verið mun heppilegri kostur.  Rétt áður en flóttaviðbrögðin náðu tökum á mér greip ég símann og gerði það eina sem hægt er að gera í svona stöðu, ég hringdi í systur mína.

Systir mín er hagvön í heimi skatta og fjármála, hefur stýrt fjármálum stórfyrirtækja af mikilli nákvæmni og fór hún strax í að benda mér á að gera róandi öndunaræfingar fyrir framan tölvuna.  Hún talaði við mig þýðum rómi, rétt eins og ég væri ljónstyggt villidýr sem þyrfti að nálgast á varfærinn hátt, svo leiddi hún mig hægt og rólega í gegnum öngstræti raunverulegs eignarhalds með þeim undraverða árangri að innan skamms fékk ég tilkynningu á skjánum um að komið væri að undirritun. 

Á meðan systir mín bjargaði sálarheill minni heyrði ég af og til óljóst hringingu í heimasímanum (heimasími er hverfandi fyrirbæri sem mér skilst að finnist einungis á heimilum fólks sem annað hvort er orðið miðaldra eða er í mínum hópi, það er fólk sem er alltaf og að eilífu 15 árum yngra en miðaldra fólk) en ég gat að sjálfsögðu ekki brugðist við þessari hringingu á meðan ég var á kafi í raunveruleika eignarhaldsins.  Þegar dóttir mín kom til mín með símann í hönd og spurði mig hvort ég hefði ekki átt að vera einhvers staðar fyrir einum og hálfum tíma síðan rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds, ég var hreinlega búin að steingleyma því að rúmri viku áður hafði ég lofað að halda bráðskemmtilegan fyrirlestur um blóm á stórafmælisfundi hjá kvenfélagi í bænum.  Er hægt að sökkva niður í jörðina af skömm þegar maður býr á fjórðu hæð í blokk?  Á örfáum sekúndum náði ég að grípa tölvuna, skipta um föt, hlaupa út í bíl og bruna af stað á fundinn.  Hraður púlsinn hafði  mjög hvetjandi áhrif á þunga bensínfótarins en sem betur fer virtust löggæslumenn uppteknir við annað á meðan ég þaut á milli hverfa.  Þegar á fundarstaðinn kom sat í fagurlega afmælisskreyttum salnum hópur af broshýrum og prúðbúnum konum, hlaðborð af brauðtertum og marengsum á kantinum og búið að stilla upp skjávarpa og öðrum viðeigandi græjum fyrir fjarstaddan fyrirlesarann.  Við svona aðstæður er einungis hægt að bjóða upp á blákaldan og óritskoðaðan sannleikann.  ,,Ég vildi óska að ég gæti sagt að ég hafi gleymt stórafmælisfundinum ykkar vegna þess að ég var niðursokkin í eitthvað skemmtilegt en því miður var ég að reyna að skrá raunveruleg eignatengsl lítils félags sem ég tengist” stundi ég upp í afsökunartóni.  Mér fannst þetta nú ekkert sérlega fyndið og því kom mér á óvart að prúðbúnu og elskulegu konurnar sprungu allar úr hlátri og hlógu dátt og lengi.  ,,Já, við verðum öll að gera okkar til að ná Íslandi af gráa peningaþvættislistanum, við erum nýbúnar að ganga í gegnum þetta með kvenfélagið okkar” útskýrði forsvarskona hópsins fyrir mér og þurrkaði hláturstárin úr augnkrókunum. 

Með samstilltu átaki kvenfélaga og áhugamannafélaga hljótum við að heimta Ísland úr peningaþvættisheljunni.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og þvottakona

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!