Nýtt ár

Nýtt ár er gengið í garð, svona rétt um það leyti sem maður var farinn að venjast gamla árinu, rétt orðinn öruggur á að skrifa alltaf 2017 í stað einhvers annars ártals, orðið hlýtt til þessa góðæris sem yljaði svo mörgum kaupmanninum um veskisræturnar, árinu sem færði okkur þrjá forsætisráðherra og Costco.  Geri önnur ár betur.  Er nokkuð undarlegt að gleðin yfir nýja árinu sé örlítið blendin?

Reyndar viðurkenni ég að á hverjum áramótum finnst mér gleðin alltaf pínulítið tregablandin.  Ekki það að ég hlakki ekki til nýja ársins og nýrra verkefna heldur er þetta frekar treginn yfir tímanum.  Eftir því sem maður eldist skilur maður betur hversu stutt lífið er í raun og veru og um leið og maður hefur áttað sig á því þá herðir tíminn för, sprettir úr spori, hendist áfram hraðar og hraðar og sama hvað maður gerir þá er það mannsbarninu ómögulegt að hægja á tímanum.  Hann hefur sinn gang. Reyndar eiga Færeyingar frábært máltæki sem hljómar einhvern veginn á þann veg að maður þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af tímanum, það komi alltaf tími.  Í þessu eins og fjölmörgu öðru eiga frændur okkar á næsta eyjaklasa kollgátuna, auðvitað kemur alltaf tími, það eina er að sá tími mun koma að minn tími klárist.  Í stað þess að leggjast í þunglyndi yfir þessari staðreynd ætla ég að nota tímann minn vel, ekki sóa honum í leiðindi, ekki drepa hann heldur njóta hans.  Sérhver stund er eins og texti eftir Jón Kalman, maður þarf að njóta með skilningarvitin opin, með fullri meðvitund, treina sér andartakið, ekki háma það í sig með gleypugangi eins og einhvern skyndibita.

Nýársnótt er magnaður tími, tími þegar mörkin milli mannheima og annarra heima verða óljós, þegar álfar og huldufólk eru á kreiki, þegar kýrnar geta skeggrætt við bóndann um landsins gagn og nauðsynjar á mannamáli, þegar framliðnir fara á kreik, þegar selir kasta af sér selshamnum og dansa sem menn um stund, þegar vatn getur breyst í vín.  Þessi gamla hjátrú hefur nú dofnað nokkuð í meðförum nútímans en þó gerast enn kynlegir atburðir á nýársnótt.  Nýársnótt er tími þegar venjulegt fjölskyldufólk breytist upp til hópa í sturlaða sprengjusérfræðinga sem fylla himininn af litríkum flugeldum, tímunum saman, án tillits til kostnaðar, mengunar, hávaða eða nokkurra annarra neikvæðra afleiðinga því þetta er jú nýársnóttin þegar flest má og allt getur gerst.  Á sama tíma rennur vínið (sem hefur vissulega einhvern tíma verið vatn) í ómældu magni niður í hálsa sem eru hásir af hlátri yfir frábæru áramótaskaupi og orðnir hálfskorpnir af því að anda að sér flugeldarykinu.  Í flestum siðuðum ríkjum telja ráðamenn þessa blöndu, ótakmarkað magn af flugeldum saman við ótakmarkað vínmagn óheppilega, þarna geti orðið slys, vissara sé að láta allsgáða sérfræðinga sjá um sprengjulætin en vei þeim ráðamanni sem ætlaði sér að koma böndum á þennan hálfgeggjaða sið okkar Íslendinga.  Sá held ég myndi nú kolfalla í næstu kosningum.  Sjálf hef ég ekki mikla ánægju að því að bera eld að sprengiefni en ég er heilluð af litríkum flugeldunum og gæti ekki hugsað mér áramótin án þeirra.

Og maturinn!  Allur ljúffengi áramótamaturinn sem fyllir magann löngu áður en augun eru orðin södd.  Þar sem þessi pistill er skrifaður fyrir heimasíðu Náttúrulækningafélagsins tel ég skynsamlegt að orðlengja ekki frekar um matinn en þó verð ég að segja að gómsæta grænmetissalsað gerði útslagið, hér eftir verður það fastagestur á áramótaborðinu.

Önnur tilfinning sem hellist yfir mig um áramót er þakklæti. Ég fell í hóp allra þeirra Íslendinga sem tel mig ljónheppna í lífinu.  Það er ekki sjálfgefið að maður hafi alltaf tækifæri til að fagna nýju ári í faðmi fjölskyldunnar, umvafinn gleði andartaksins en að sama skapi fullur eftirvæntingar og tilhlökkunar vegna nýja ársins, nýs tíma, nýrra ævintýra, næstu áramóta, fyrir það ber að þakka.  Ég finn á mér að árið 2018 verður frábært ár, sennilega jafn frábært og 2017 og hin árin þar á undan, ef ekki bara  betra.

Gleðilegt ár og hjartans þakkir fyrir allt gamalt og gott!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!