Nætursvefn

Góður svefn er gulls ígildi.  Þetta veit almannarómur og kannski sérstaklega þeir sem einhvern tíma hafa upplifað andvökunætur, hvort sem þær eru tilkomnar af barnagráti, hávaða í nágrönnum, veðurofsa, kvíða af einhverjum ástæðum, hrotum í bólfélaga eða öðrum streituvaldandi þáttum. Svo virðist einnig vera sem hér skipti magnið mestu, átta stunda svefn telst mun áhrifaríkari en tveggja stunda blundur, jafnvel þótt stutti blundurinn geti verið mjög afslappandi. Svefn virðist einnig vera að færast upp í virðingarstiga heilsufræðinnar, það er alveg sama hvað maður er líkamlega hraustur og vel nærður, svefnlaus er maðurinn illa fyrirkallaður. 

Yfirleitt er ég ekki mikið að velta svefni fyrir mér enda er ég svo lánsöm að ná yfirleitt fullum nætursvefni miðað við aldur og fyrri störf. Á rafrænu spjalli við systur mínar um daginn fórum við hins vegar að rifja upp ýmsar áhugaverðar og skemmtilegar sögur úr barnæsku okkar og einhverra hluta vegna snerust þær flestar um svefn og venjur honum tengdar. 

Ein af okkur systrunum var svo kvöldsvæf að hún náði ekki alltaf að ljúka við kvöldverðinn og átti það til að sofna ofan í þá rétti sem voru á boðstólum hverju sinni.  Þannig man ég vel eftir henni sofandi með hægri kinnina á diski með soðinni ýsu, stappaðri saman við glænýjar kartöflur, bráðið smjör og Valstómatsósu. Við annað tækifæri svaf hún á steiktum kjötbollum með kartöflumús, brúnni sósu,  grænum baunum og rabarbarasultu en það hefur örugglega ekki farið eins vel undir kinn og soðna ýsan. Eldsnögg viðbrögð mömmu björguðu þessari systur minni örugglega frá drukknum þegar hún sofnaði með andlitið beint ofan í blómkálssúpu með heimaræktuðu blómkáli, mamma náði að færa súpuskálina til hliðar og lagði höfuð dömunnar mjúklega á eldhúsborðið. Í öllum tilfellum var ómögulegt að vekja barnið, hún var Þyrnirós, steinsofandi og ekki einu sinni komin á þann aldur að prinsakoss hefði haft nein áhrif.

Önnur af systrum mínum var á sífelldum þönum en henni entist ekki tíminn til að ljúka öllum þeim verkefnum sem hún þurfti að sinna á daginn. Af þeim sökum hélt hún áfram eftir að hún sofnaði á kvöldin, lauk til dæmis við fjöldann allan af samtölum upp úr svefni og einstaka sinnum mátti jafnvel greina skýr orðaskil í þessum orðaflaumi. Ég vona að þessi systir mín lesi aldrei þennan pistil því ég játa að á unglingsárum var hægt að fræðast töluvert um tilhugalífið hjá henni með því að spyrja hana út í það eftir að hún sofnaði á kvöldin, ef spjallgallinn var á henni. Eins virtist hún töluvert þurfa að erindast eftir að hún sofnaði á kvöldin og átti þá til að fá sér lengri og skemmri gönguferðir, innan íbúðar sem utan. Ekki stuðlaði þetta næturflakk að góðum nætursvefni foreldranna sem þurftu að hafa varann á sér og endurheimta ungmeyna ef hugur hennar stefndi úr húsi. 

Enn ein systir var staðráðin í að missa alls ekki af neinu í lífinu.  Hún lagði því á sig að halda sér vakandi á meðan einhver annar í fjölskyldunni var vakandi, ef ske kynni að eitthvað áhugavert ætti sér stað. Hún til dæmis vakti yfir kosningasjónvarpi með foreldrum sínum allt fram til dagskrárloka, jafnvel þótt hún, fjögurra ára gömul, væri kannski ekki komin með ítarlega þekkingu á pólitískum málefnum. Á gamlárskvöld fór hún að sofa þegar síðasti flugeldurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði sprungið en vaknaði samt tímanlega til að missa ekki af barnaefninu í sjónvarpinu á nýjársdagsmorgunn. Þessi þjálfun hennar í að vaka á óvenjulegum tímum kemur sér vel þessa dagana þar sem hún er með smávaxinn verkstjóra á heimilinu sem ákveður hvort og hvenær sambýlisfólk hans fær að sofa.

Í samanburði við sögulegar svefnvenjur hinna systranna fer litlum sögum af svefnvenjum hinnar fjórðu enda er hún síst til frásagnar um þær.

Ungmeyjarnar mínar eru nú komnar á þann aldur að foreldrarnir geta ekki lengur skipað þeim í háttinn, þær fara að sofa þegar þeim hentar. Því miður hentar þeim ekki alltaf að sofa á nóttunni enda eru vinirnir í rafheimum þá sérlega fjörugir og allt að gerast sem ekki má missa af.  Skólayfirvöld sýna þessu takmarkaðan skilning og halda sig við það að boða fólk í skólann eldsnemma á morgnana og jafnvel langt fram eftir degi og rjúfa þar með mikilvægan frítíma unglinganna, frítíma sem þau gætu notað á uppbyggilegan hátt í spjall með vinum sínum eða jafnvel til að vinna upp þann svefn sem þau missa á nóttunni.  Hvernig væri bara að hliðra skólastarfi um 12 tíma og kenna á nóttunni?  Ég er viss um að þá væri Eyjólfur hressari.

Guðríður Helgadóttir Lokbrá

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur