Músagangur

Ég er ein af þeim lánsömu Íslendingum sem hafa haft ráð á því að koma sér upp sumarhúsi í sveitinni, athvarfi í dagsins önn, sælureit þar sem fjölskyldan unir sér glöð og ánægð um helgar og í fríum og nær að aftengja sig frá erli hversdagsins. Undanfarin ár höfum við ræktað plöntur til skjóls og fegrað umhverfið smátt og smátt, eftir því sem tími og efni leyfa. Hluti af gleðinni er að fylgjast með dýralífi náttúrunnar, fjölbreyttu fuglalífi, einum og einum ref sem á leið hjá og auðvitað músum sem hafa látið hjá líða að gera okkur skráveifu, nema þarna um árið þegar þær stálu hvítlauksrifjunum úr pottunum.

Helgi eina í vetur drifum við hjónakornin okkur í bústaðinn með tvö barnabörn meðferðis og stóð ýmislegt til. Þegar inn í bústaðinn var komið kom hins vegar í ljós að ekki var allt með felldu. Við innganginn voru illa farnar leifar af fjölnota innkaupapoka og nagaðar tætlur af honum dreifðar um gólfið. Innan um og saman við plasttætlurnar voru óyggjandi sönnunargögn um skaðvaldinn, músaskítur. Um leið og húsfreyjan fylltist réttlátri reiði yfir þessari óforskömmuðu innrás á heimilið er ekki laust við að hún hafi glímt við lamandi tilfinningu aftan í lærunum en sú tilfinning stafar af innbyggðri óbeit á óboðnum loðnum nagdýrum. Barnabörnin hlökkuðu hins vegar mikið til að sjá músina því mýs eru svo mikil krútt. Einmitt.

Hjónin gripu strax til aðgerða og hófu leit að innbrotsaðilanum um allt hús, húsfreyjan vopnuð ryksugu og húsbóndinn kústi. Fljótlega var ljóst að óboðni gesturinn hafði dvalið um nokkra hríð í húsinu og nýtt sér aðstöðuna til hins ítrasta. Í stofunni hafði músin gert tilraun til að gera sér bæli á tveimur stöðum, í sófanum og á hvítri gæru sem fram til þessa hafði verið vinsæl hjá yngstu kynslóðinni. Henni hafði ekki orðið mikið ágengt í eldhúsinu en á baðherberginu var baðmottan, blessuð sé minning hennar, greinilega lokkandi dvalarstaður. Ryksugan var óspart notuð á þessari yfirreið enda nóg hráefni til staðar.

Smám saman röktu hjónin slóðina inn í svefnherbergisálmuna og þegar húsfreyjan fann músaskít á koddanum sínum var henni allri lokið. Hún lyfti sænginni sinni ofurrólega en þar undir var allt músalaust og með kyrrum kjörum. Húsbóndinn tók því í sína sæng og lyfti henni upp og þá blasti vígvöllur eyðileggingarinnar við, og músin sjálf, í bóli bjarnar. Þarna horfðumst við þrjú í augu, músin, eiginmaðurinn og ég og mátti ekki á milli sjá hverju okkar var mest hverft við. ,,Vá hvað hún er sæt“ gall við í barnabörnunum, ,,hún er með svo mjúk eyru“ en ég viðurkenni að það síðasta sem mér kom í hug á þessari stundu var fegurð eyrna músarinnar. Hún var búin að naga í sundur lakið, undirdýnuna og gott gat á sængina þannig að músahreiðrið hennar var dúnmjúkt og fiðrað, rétt eins og æðarfugl hefði séð um hönnun og framkvæmdir á þessum hýbýlum. Jafnframt hafði hún gert þarfir sínar víðs vegar undir sænginni og finnst mér að mýs almennt ættu að gæta betur að hreinlæti og sóttvörnum en þær gera, það getur ekki verið heilnæmt að ganga örna sinna á svefnstað sínum.

Músin var fyrst allra til að átta sig á aðstæðum og stökk af stað en hún misreiknaði viðbragsðflýti konu með ryksugu. Ég náði að henda rúmteppinu yfir músina og króa hana af með ryksugubarkanum. Þegar eiginmaðurinn gerði sig líklegan til að grípa dýrið náði það hins vegar að sleppa fram á gang. Þar upphófst heilmikil barátta við að ná músinni og á endanum tókst að veiða hana ofan í stígvél en góður vinur okkar, sem hefur sopið ýmsa fjöruna við músaveiðar, hafði einhvern tíma lofsamað stígvél sem músaveiðarfæri og get ég nú staðfest að það svínvirkar. Músinni var umsvifalaust hent út og horfðum við á eftir henni hlaupa út í móa. ,,Hún er með svo falleg augu. Verður henni ekki kalt?“ spurðu barnabörnin með áhyggjusvip enda var hitastigið utanhúss í tveggja stafa tölu í mínus og þykkt snjólag yfir öllu. ,,Nei nei“ sagði ég kaldrifjuð, ,,nú fer hún bara heim til sín í músarholuna, það verður allt í lagi með hana.“

Hreingerningin tók heillangan tíma og ótrúlegt hvað svona lítið dýr getur gert mikinn usla. Mér er skapi næst að fá mér kött.

Guðríður Helgadóttir, músaveiðari

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!