Makkintossjól

Loksins eru jólin á næsta leiti, tilhlökkunin í hámarki, jólasveinar farnir að tínast til byggða og bóka- og jólatónleikaflóð að ná stórstraumshámarki sínu.  Ég er  nú þegar búin að baka nokkrar uppskriftir af súkkulaðibitakökum, þær hafa klárast jafnharðan enda eru breyttir tímar, nú til dags eru smákökur ekki lengur geymdar í læstum peningaskápum fram á aðfangadag heldur er þeirra notið í aðdraganda jóla, enda hafa fáir lyst á smákökum yfir blájólin.  Næst á innkaupalistanum hjá mér er hinn árlegi skammtur af makkintossi, konfektinu sem einungis er keypt við tvö tilefni á mínu heimili, í fermingarveislur og til jólanna.  Ég vona nú innilega að mér verði ekki hent út af þessari heimasíðu heilsueflingar og náttúrulækninga þó ég skrifi af innlifun um sykurneyslu og súkkulaðis, það eru nú einu sinni jólin bráðum.  Eins vona ég að mér fyrirgefist stafsetningin á makkintossinu, það er skrifað eins og það hljómar á íslensku, í anda þessa pistils.

Samkvæmt yfirborðskenndum rannsóknum sem byggja einkum og sér í lagi á innsæi og óstaðfestum orðrómi eru Íslendingar eina þjóðin sem kallar Mackintosh sælgætið makkintoss.  Í öðrum löndum er þetta jólahnossgæti kallað Quality street, enda stendur það stórum stöfum á dósunum.  Orðið makkintoss hefur svo sannarlega fest sig í sessi á Íslandi og allir vita hvað um er rætt þegar það ber á góma. Hagsýnar húsmæður hafa aukinheldur notað dósirnar undir smákökur og á sumum heimilum eru þær ómissandi hluti af undirbúningi jólanna.

Allt frá barnæsku hefur makkintossið verið ríkur þáttur af jólahaldinu á mínu heimili, þessir litríku molar sem einir og sér eru býsna hátíðlegir og skraut í sjálfu sér.  Fyrir síðustu jól var móðir mín að taka til í bókahillum og rakst þá á bók sem mér var gefin þegar ég var lítil.  Hafandi starfsferil minn í huga þá fannst mér titill bókarinnar áhugaverður en bókin heitir ,,Berðu mig til blómanna“.  Það var þó ekki bara titillinn sem okkur mömmu fannst skondinn heldur kom í ljós þegar bókinni var flett að á sínum tíma hef ég dundað við að taka bréfin utan af makkintossmolunum, sléttað úr þeim og pressað í þessari bók.  Þarna voru bréf utan af gömlum uppáhaldsmolum sem hafa því miður ekki staðist tímans tönn og aðrir molar komið í þeirra stað.

Annar óvæntur makkintossatburður átti sér stað þegar ég fetaði í fótspor þúsunda íslenskra húsmæðra og heimsótti herrafataverslunina Slater‘s í Glasgow.  Á innkaupalistanum voru jakkaföt og skyrtur handa eiginmanninum.  Eitthvað var leiðarlýsingin óljós þannig að ég eigraði um skuggaleg hverfi heillengi áður en ég kom að húsinu sem hýsti þessa víðfrægu verslun.  Inni í anddyri hússins, sem var teppalagt og það lágt til lofts að mér fannst sem ég þyrfti að beygja mig, sat fagurlega máluð móttökustúlka í glerbúri og talaði í síma.  Ljóst hárið var túberað og umfangsmikið, heiðblár augnskuggi litaði augnlokin, kinnarnar voru rósrauðar og varirnar skærbleikar.   Var þetta mjög til prýði í annars grámóskulegu umhverfinu.  Stúlkan leit ekki upp þegar ég kom inn, hélt áfram að tala í símann og virtist ekki hafa mikinn áhuga á að leiðbeina væntanlegum viðskiptavinum um aðgang að verslunarrými.  Eftir stutta stund rak ég augun í lyftu fyrir innan glerbúrið og gekk ég þangað lítið eitt hikandi.  Á handskrifuðum miða við hlið lyftunnar mátti sjá upplýsingar um að herradeildin væri á annarri hæð.  Ég steig því inn í lyftuna, þrýsti á hnappinn og lyftan lúsaðist af stað.  Á annarri hæðinni opnuðust lyftudyrnar og við blasti til vinstri jakkafatahimnaríki, svo langt sem augað eygði, til hægri voru skyrturnar.  Ég gekk hægum skrefum út úr lyftunni, var sennilega á svipinn eins og mér hafi verið kippt aftan úr grárri forneskju og þokaði mér í áttina að jakkafatadeildinni.  Elskulegur afgreiðslumaður kom fljótlega til mín og spurði hvort hann gæti aðstoðað mig.  Ég taldi það nú og sagðist ætla að kaupa jakkaföt á eiginmanninn.  Hann bað mig að hinkra aðeins og hvarf bak við næsta rekka.  Eftir augnablik kom aðvífandi lágvaxinn maður í skærfjólubláum og dálítið glansandi jakkafötum, í bleikri skyrtu og með hálsklút í stíl við jakkafötin, meira að segja grásprengt hárið á honum hafði yfir sér fjólubláan blæ.  Hann horfði djúpt í augu mér og sagði svo á íslensku með þykkum  hreim:  Góþan daginn, má bjóþa þér konfekt?  Um leið rétti hann fram myndarlega dós af makkintossi.  Allar mínar dauðu lýs duttu snarlega fyrir borð, ekki einungis hafði maðurinn mælt á íslensku heldur notaði hann líka hið rammíslenska orð konfekt.  Þegar mesta undrunin hafði runnið af mér teygði ég mig eftir uppáhaldsmolanum mínum og þakkaði pent fyrir, svo hélt samtal okkar áfram á ensku.  Í ljós kom að þessi ágæti maður hafði upplifað það þegar rútufarmar af íslenskum húsfreyjum flykktust í Slater‘s með innkaupalista og versluðu eins og þetta væri síðasta tækifæri þeirra til að gera góð kaup.  Hann var fljótur að átta sig á að nokkur orð á íslensku og einn og einn makkintossmoli liðkuðu verulega fyrir viðskiptunum.  Það sama gilti auðvitað um mig, veskið var mun léttara á heimleiðinni.

Uppáhaldsmakkintoss sagan mín er þó af mér og tvíburasystrum mínum þegar við vorum litlar.  Á þeim tíma var makkintoss sveipað ævintýraljóma, ekkert annað sælgæti komst með tærnar þar sem það hafði hælana.  Reyndar var sælgæti ekki oft í boði á heimili foreldra minna og ef það barst inn á heimilið var mamma mjög dugleg að fela það svo við systurnar myndum nú ekki gleypa það allt í okkur.  Fyrir ein jólin áskotnaðist mömmu stór dós af makkintossi sem hún faldi á mjög auðveldum stað (að mati okkar systra), uppi á eldhúsinnréttingunni.  Að vísu var kappi ofan á innréttingunni sem með réttu hefði átt að fela góssið fyrir lágvöxnu fólki en við systurnar stunduðum þá áhættuhegðun að klifra upp um allt, meðal annars í leit að sælgæti, jólasmákökum og jafnvel jólagjöfum.  Við vorum því ekki lengi að finna dósina góðu og hugsuðum okkur gott til glóðarinnar en því miður var lokið límt aftur með límbandi.  Var þá sett upp mikil hernaðaráætlun sem var fylgt eftir í hvívetna.  Fyrsta skrefið var að finna límband og geyma það á vísum stað.  Næsta skref var að á hverjum degi, þegar mamma var vant viðlátin, klifraði einhver okkar upp á eldhúsborð, náði í dósina, opnaði hana varlega, tók nákvæmlega þrjá mola úr dósinni (einn á mann) og svo var límt vandlega fyrir aftur.  Við tókum að sjálfsögðu ekki eftir því að það hríðlækkaði í dósinni með tímanum, með því að taka lítið á hverjum degi sáum við ekki högg á vatni.  Það má því rétt gera sér í hugarlund undrun okkar systranna þegar við opnuðum dósina einn daginn (þá hefur sennilega ekki verið mikið meira en botnfylli eftir) og á botni dósarinnar glitti í miða.  Á honum stóð:  Gurrý og tvíburar, skammist ykkar!  Við vorum alveg dolfallnar.  Á þerri stundu áttuðum við okkur á því að við áttum göldrótta móður, hvernig í ósköpunum fattaði hún glæpinn?  Við sem fórum svo varlega.  Seinna meir hef ég frekar undrast það að hún skyldi ekki vera löngu búin að segja eitthvað, það gengur í algjört berhögg við hennar innsta eðli.

Makkintoss gleðin heldur svo áfram eftir áramótin í vinnunni hjá mér en sá siður hefur skapast þar að eftir jólin mæta allir með vondu makkintossmolana í poka, þ.e. þá mola sem ekki hafa klárast heima hjá þeim um jólin.  Það skemmtilega er að vondu molarnir á einu heimili eru einmitt bestu molarnir hjá öðrum.  Uppáhaldsmolinn minn er bleikur.

Gleðileg makkintossjól!

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur