Kötturinn Pési

Um daginn var ég að skrolla niður eftir fésbókinni í símanum mínum þegar ég rakst á einstaklega krúttlegt myndband af fimm sofandi kettlingum.  Þeir lágu þétt saman, hlið við hlið, teygðu litlu loðnu loppurnar sínar upp fyrir höfuðin, það umlaði aðeins í þeim, einn reis upp við dogg (er þó ekki viss um að köttum sé það mögulegt), horfði syfjulega á félaga sína, geispaði, teygði aðeins úr sér, hallaði sér síðan aftur og lygndi aftur augunum.  Myndbandið var nokkrar mínútur að lengd og ég fylgdist með allt til enda.  Eftir á að hyggja finnst mér undarlegt að ég hafi fallið í þessa kettlingagildru, ef ég ætti að skipa mér í lið væri ég frekar hundamegin (mér skilst að fólk geti bara verið annað hvort kattafólk eða hundafólk, ekki sé hægt að vera neins staðar þar mitt á milli, ekki frekar en að til sé fólk sem er bara sama um lúpínu), ég hef aldrei átt kött en ég vann einu sinni með ketti.

Kötturinn, sem var vinnufélagi minn í gróðrarstöð fyrir þó nokkrum árum, var mjög ötull í sínu starfi.  Hann sinnti almannatengslum, afþreyingarmálum og vörnum og eftirliti gagnvart meindýrum á meðan verkefni mín og annarra starfsmanna voru meira á ræktunarsviðinu.  Þessi köttur var mjallahvítur á litinn, kafloðinn og með heiðblá augu, sagt var að í honum rynni blóð angórakatta sem skýrði hárafarið og augnlitinn.  Hann hét því virðulega nafni Pési.

Almannatengslaverkefni Pésa snerust fyrst og fremst um viðskiptavini gróðrarstöðvarinnar.  Hann var mjög félagslyndur, gekk gjarnan um sölusvæðið á góðviðrisdögum og nuddaði sér upp við fætur viðskiptavina en ef rigndi fann hann sér notalegan samastað innan um pottaplönturnar í gróðurhúsinu eða lá í einhverri furðulegri stellingu í pappakassa á afgreiðsluborðinu, viðskiptavinum til undrunar og kátínu.  Ég hef ekki tölu á því hversu oft viðskiptavinir ráku upp stór augu þegar þeir sáu köttinn í kassanum, réttu varlega fram höndina, snertu hann aðeins og spurðu svo hvort þetta væri köttur og jafnvel hvort hann væri lifandi.  Tvennt hefur alltaf vakið undrun mína á þessum viðbrögðum.  Í fyrsta lagi að almennri þekkingu á útlitseinkennum algengustu húsdýra á Íslandi virtist vera nokkuð ábótavant og í öðru lagi að nú hef ég heimsótt fjölmargar gróðrarstöðvar um ævina en hef þó aldrei heyrt af eða orðið vitni að því að dauðir kettir séu hafðir til sýnis á afgreiðsluborðum gróðrarstöðva.  Kannski það tíðkist í öðrum atvinnugreinum?

Greinilegt var að í huga margra viðskiptavina voru Pési og gróðrarstöðin tengd órjúfanlegum böndum.  Dæmi um slíkt er eftirfarandi samtal:

Viðskiptavinur í síma: ,,Góðan dag, er þetta gróðrarstöðin þar sem hvíti kötturinn með bláu augun á heima?“

Starfsmaður:  ,,Uu, já.“

Viðskiptavinur í síma:  ,,Hvað kosta stjúpurnar hjá ykkur?“  eða ,,Eigið þið til grænkál?“

Fjöldi svona símtala skipti tugum yfir sumarið og voru þau mörg hver skrifuð niður í dagbók stöðvarinnar, starfsfólki til skemmtunar enda vandséð hvaða áhrif tilvist kattarins hafði á verð á stjúpum eða framboð á grænkáli.

Afþreyingarverkefni Pésa sneru meira að starfsfólkinu sjálfu.  Hann heimsótti kaffistofuna oft á dag og kannaði gaumgæfilega hvort ekki væru einhverjar kræsingar í boði.  Fallega skreytt afmælisbrauðterta með rækjum sem eitt sinn var skilin eftir óvarin á eldhúsborðinu varð að framúrstefnulegu abstraktverki eftir að Pési hafði sleikt majonesið af og valið sér rækjur af handahófi úr skreytingunni.  Hann gat líka orðið súkkulaðitertum skeinuhættur, að ógleymdum osti og öðru áleggi sem hugsanlega fannst á glámbekk.

Í meindýravörnum og eftirliti stóð Pési sig mjög vel en þó lá fyrir að skilgreining Pésa og annars starfsfólks á meindýrum fór ekki alls kostar saman.  Almennt held ég að fólk telji að meindýr séu hver þau dýr sem mæta óumbeðið til leiks og valda skaða með einum eða öðrum hætti.  Þannig voru allir aðilar máls sammála um stöðu músa og annarra nagdýra sem meindýr í gróðrarstöð en þegar kom að fuglum var uppi bullandi ágreiningur.  Pési kappkostaði við að fjarlægja allan fiðurfénað af lóð gróðrarstöðvarinnar á meðan starfsfólk og eigendur reyndu að örva fuglalífið á staðnum.  Engin niðurstaða fékkst í það mál og má segja að í þessu hafi aðilar á endanum orðið sammála um að vera ósammála.  Einnig var ágreiningur um tilvist annarra katta innan gróðrarstöðvarinnar.  Pési, sem var sannkallaður garðyrkjuköttur hafði á langri ævi komist að því hvaða plöntur gætu komið köttum í stuð.  Hann bauð því gjarnan nokkrum félögum úr nágrenninu í partý þegar gljásýrenur voru komnar á sölusvæðið.  Kettirnir nöguðu börkinn af sýrenunum, nudduðu sér upp við greinarnar og hlupu svo sem byssubrenndir um alla stöð, allt þar til stuðið kláraðist úr kroppnum, þá lágu þeir eins og hráviði hér og þar í stöðinni á meðan þeir jöfnuðu sig á vímunni.  Þessi hegðun var alls ekki öðru starfsfólki að skapi enda neysla hvers konar vímugjafa á vinnutíma litin hornauga í gróðrarstöðvum, sem og annars staðar.  Ítrekað reyndi starfsfólkið að leiða Pésa það fyrir sjónir hversu slæm þessi hegðun væri, partýstand á vinnustað væri verulega illa séð, að ekki sé minnst á hversu alvarlegar afleiðingar neysla vímuefna gætu verið en allt kom fyrir ekki, Pési lét allar ávirðingar sem vind um kafloðin eyrun þjóta.  Afleiðingar þessarar áhættuhegðunar Pésa og félaga hans urðu þær að allri sölu gljásýrenurunna var hætt í gróðrarstöðinni og félagar Pésa hættu þá að venja komur sínar þangað.

Því miður náði Pési því aldrei að verða frægur á netinu, hans dagar voru taldir löngu áður en netið varð almannaeign. Ég er sannfærð um að hefði hann verið á lífi í dag væri hann heimsfrægur almannatengslaköttur með stóran hóp fylgjenda á netinu, að minnsta kosti myndu allir gömlu viðskiptavinirnir vera í þeim hópi.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!