Japönsk nákvæmni

Ég er svo ótrúlega heppin að það er mjög gestkvæmt í vinnunni hjá mér.  Gesti ber að garði nánast daglega og í ýmsum erindagjörðum.  Flestir hafa þó áhuga á garðyrkju og ræktun og því hvernig við notum jarðhita í gróðurhúsunum okkar. Ekki spillir fyrir að í nágrenni við aðalbyggingu Garðyrkjuskólans er bráðsnoturt hverasvæði með töluvert fjölbreyttu úrvali hvera.  Þar má finna leirhveri með bullandi leir í mismunandi litum, einn tæran vatnshver sem hefur reyndar kólnað aðeins á síðustu árum og er núna einungis um 70°C heitur og síðast en ekki síst gufuhveri, þar sem gufan streymir af krafti upp í heiðloftin blá.  Það er ekki að undra að þessi fyrirbæri séu sérstök í augum gesta.  Mér finnst ákaflega skemmtilegt að leiða fólk um hverasvæðin og upplifa undrin í gegnum gestsaugun.

Hóparnir sem koma gagngert til að skoða hverina eru á ýmsum aldri en við höfum þó haft þá vinnureglu hjá okkur að fara aldrei með unga krakka inn á hverasvæðin.  Hóparnir eru einnig alls staðar að úr heiminum en viðbrögð þeirra við íslenskri náttúru oft  keimlík.  Þannig hefur brennisteinsilmurinn af hveragufunni aldrei heillað neinn upp úr skónum heldur hefur fólk af öllum þjóðernum engst sundur og saman af lyktinni einni saman.  Litaspilið í hverunum veldur mikilli hrifningu og krampakenndum hreyfingum þar sem hendur fálma ofan í vasa eftir síma eða myndavél og svo er smellt af í gríð og erg.  Einstaka sinnum hafa svona ljósmyndarar verið hætt komnir á blábrúnum hveranna vegna ákafans við að ná hinni fullkomnu mynd.

Fyrir nokkrum árum varð ég þeirrar gleði aðnjótandi að taka á móti hópi japanskra kvenna og túlki þeirra.  Þessar glæsilegu japönsku konur voru að meðaltali einn og ekkert á hæð, meðalaldur þeirra var hinum megin við áttrætt og þær voru hver um sig með myndavélabúnað að verðmæti fleiri milljóna íslenskra króna.  Þær voru yndislegar, rúnum ristar í andliti og háraliturinn í öllum tilbrigðum við silfurgrátt, glaðlegar og hláturmildar og staðráðnar í að njóta þessa langa ferðalags.  Túlkurinn þeirra var örlítið hærri í loftinu en konurnar, töluvert yngri að aldri, ekkert farinn að grána og allsleipur í ensku, sem var eins gott því japanska hefur aldrei ratað inn á mitt borð.  Á íslenskan mælikvarða er ég meðalmanneskja á hæð en innan um þetta ágæta japanska fólk skildi ég hvernig Gúllíver hefur liðið í Putalandi forðum.

Við gengum hægt og rólega í áttina að hverasvæðinu og ég sagði frá staðháttum á leiðinni.  Túlkurinn túlkaði jafnharðan og virtist gera það vel, að minnsta kosti kinkaði allur hópurinn kolli, fullkomlega samtaka, þegar ég sagði frá jarðskjálftanum á Suðurlandi 2008 og svipbrigðin gáfu til kynna að þær hefðu upplifað eitthvað álíka.  Við hverasvæðið höfum við starfsmenn skólans það fyrir sið að stoppa og útskýra fyrir gestum hvernig skynsamlegast sé að ganga um svona svæði.  Svæði með góðri gróðurþekju eru örugg, því þar er jarðvegurinn nægilega kaldur og ólíklegt að undir leynist viðsjárverðir hverir en eftir því sem jörðin er heitari því minna er um gróður, það er helst mosinn sem getur þraukað lengi ofan á heitum jarðvegi. Ég fór yfir þetta allt saman með túlkinum og dömurnar kinkuðu kolli ótt og títt til samþykkis.  Í lok yfirferðar minnar klykkti ég út með því að fullvissa þær um að öllu yrði óhætt, þær skyldu bara fylgja í fótspor mín.

Þar komum við að japönsku nákvæmninni.  Ég snerist á hæli og arkaði af stað inn á hverasvæðið.  Eftir nokkurn spöl þótti mér það dálítið undarlegt að ég varð ekki vör við hópinn við hlið mér þannig að ég staldraði við og sneri mér við.  Sú sýn sem blasti við mér var ógleymanleg.  Vinkonur mínar frá Japan höfðu raðað sér upp í einfalda röð og einbeittu sér að því að hoppa milli fótspora minna, til að tryggja það að þær hittu örugglega á réttan stað.  Í mínum huga hefur orðatiltækið að fylgja í fótspor einhvers aldrei haft svona nákvæma merkingu, eins og hinar japönsku dömur álitu.  Er skemmst frá því að segja að ég sprakk úr hlátri og þegar þær urðu þess áskynja brast á með allsherjar hlátrasköllum með bakföllum.  Eftir að við höfðum hlegið saman heillengi og þær tekið myndir af mér með hverri og einni þeirra og ég tekið myndir á hverja einustu myndavél af hópnum með túlkinum og þær höfðu myndað hvern einasta hver á svæðinu, kvöddumst við  með virktum og þær héldu brosandi á brott.  Síðan hef ég ekkert frétt af þeim en vona að þær haldi áfram að fara hlæjandi í gegnum lífið með myndavélarnar sínar að vopni og að túlkurinn hafi nóg að gera við að túlka.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!