Hvítlauksraunir

Ef það er ekki til laukur í ísskápnum heima hjá mér þá er ekkert til. Laukur er ein af undirstöðufæðutegundunum á mínu heimili og er engin máltíð svo bragðgóð að hún batni ekki töluvert við það að bæta við hana lauk af einhverju tagi. Ungmeyjarnar mínar voru mjög hissa þegar þær uppgötvuðu að bragðmunur á lauktegundum flokkast ekki undir almenna vitneskju unglinga á þeirra aldri og vinir þeirra gátu ómögulega rökrætt það af innsæi og þekkingu hvort ætti að bæta rauðlauk, venjulegum matlauk, skalottulauk, perlulauk, vorlauk, púrrulauk eða hvítlauk út í matinn til yndisauka. Þetta finnst mér benda til að heilaþvottur sé af ýmsu tagi.

Heimaræktaður hvítlaukur er að mínu mati um það bil 669 sinnum safaríkari og bragðbetri en búðarkeyptur hvítlaukur og ég þekki fleiri aðila sem eru sama sinnis. Reyndar er að svo að flestir sem hafa prófað að rækta eigin hvítlauk ánetjast slíkri ræktun og endurtaka leikinn ár eftir ár, þrátt fyrir að árangurinn sé stundum ekki eftir björtustu vonum. Á haustin þegar Garðyrkjufélag Íslands auglýsir hvítlauk og aðra lauka til sölu bíð ég ekki boðanna og panta umsvifalaust vænan skammt af útsæðislaukum. Það var einmitt staðan haustið 2021 þegar í boði voru ljúffeng og harðgerð yrki af laukum sem ég hef áður prófað að rækta og fengið fína uppskeru. Ég pantaði þrjú yrki af hvítlauk og eitt af skalottulauk og það kom mér ánægjulega á óvart að sjá hversu stórir og myndarlegir þessir útsæðislaukar voru.

Ég keypti tvo stóra potta undir laukana og blandaði sérstaka næringarríka mold með dálitlum skammti af vikri, til að tryggja að laukarnir þyrftu aldrei að standa í vatni yfir veturinn. Laukarnir voru settir niður eftir kúnstarinnar reglum, hæfilega djúpt, frekar þétt, því eins og alþjóð veit eru laukar frekar félagslyndir og þess vandlega gætt að þeir sneru rétt í pottunum (þ.e. mjói hlutinn upp). Skalottulaukurinn fór í annan pottinn og hvítlaukurinn í hinn. Hvert hvítlauksyrki fékk sitt svæði og var vandlega merkt því það er svo gaman að vita hvaða laukur er í boði hverju sinni. Pottarnir voru svo staðsettir við vesturgaflinn á sumarbústaðnum, í skjóli fyrir helstu vindáttum, aðeins frá veggnum og í góðri augsýn frá borðstofuborðinu enda vaxa laukar sérlega vel undir vökulu auga garðyrkjufræðings. Eftir niðursetningu laukanna vökvaði ég létt yfir til að moldin settist vel og dáðist að dagsverkinu. Þetta var seint í októbermánuði.

Haustið er annasamur tími hjá flestum og því hafði ég ekki mörg tækifæri til að fylgjast með laukræktuninni fyrr en leið að jólum. Við hjónin ákváðum að skella okkur í rómantíska helgarferð í sumarbústaðinn, öðrum þræði til að líta eftir laukum og öðrum eignum. Ófögur sjón blasti við okkur þegar við komum að húsinu.

Ég hefði sennilega átt að geta sagt mér það sjálf að mýsnar sem halda til undir útigrillinu hjá mér væru orðnar sólgnar í hvítlauk þar sem það er ein af  undirstöðufæðutegundunum á mínu heimili og notaður í flesta matseld. Mig grunaði hins vegar ekki að planta sem hefur verið notuð til að verjast fjölbreyttu úrvali af alls konar óværu í gegnum tíðina, eins og blaðlús, kálflugu og vampírum, léti í lægra haldi fyrir mús. Að auki held ég að mýsnar í þessari sveit hljóti að vera heimsmeistarar í músahástökki utanhúss. Þær höfðu náð að stökkva upp í hvítlaukspottinn (sem er yfir 60 cm á hæð), grafa upp hvert einasta hvítlauksrif, sem var að minnsta kosti á stærð við meðalfallþunga meðalmúsar og drösla því af stað. Nokkur rif lágu ofan á moldinni og höfðu þær náð að naga sum þeirra töluvert. Öðrum rifjum höfðu þær komið að pottbarminum, skutlað yfir brúnina á pottinum og svo lá slóð eyðileggingar af misétnum hvítlauksrifjum yfir að grillinu í nokkurra metra fjarlægð. Þær létu skalottulaukinn alveg í friði.

Verandi garðyrkjufræðingur þá er aldrei í boði að gefast upp á ræktunaræfingunum þannig að ég safnaði saman heillegustu hvítlauksrifjunum, potaði þeim aftur niður í pottinn og setti vænan skammt af mold ofan á. Þetta gerði ég nú meira til málamynda og hafði ekki mikla trú á að þessar laukaleifar gætu hjarnað við. Gleði mín var því takmarkalaus þegar ég sá í byrjun dymbilvikunnar að lítil laukagrös eru farin að spretta upp úr hvítlaukspottinum. Þau hafa stækkað hægt og rólega enda er farið að hlýna í veðri og því lengri sem vaxtartíminn er því betri verður árangurinn. Ég er búin að breiða múshelt net yfir pottana og sendi neikvæða og fælandi strauma á allar mýs í nágrenninu. Þær skulu ekki sigra í baráttunni um hvítlaukinn. Stóra spurningin hjá mér og mínum er hins vegar þessi: Ætli íbitinn hvítlaukur sé eins góður á bragðið og óbitinn?

Guðríður Helgadóttir, hvítlauksræktandi

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur