Ég tel sjálfa mig frekar bjartsýna manneskju. Viðhorf mitt til lífsins er yfirleitt að allt muni nú fara vel að lokum, þetta reddast, öll él styttir upp um síðir en nú játa ég fúslega að ég er aðeins farin að örvænta. Hvar er sumarið? Hvar er sólin? Hvar er blái himininn? Ég veit nákvæmlega hvar stuttbuxurnar og stuttermabolirnir eru enda var sá sumarfatnaður kominn á aðgengilegasta staðinn í fataskápnum í byrjun maí, í þeirri fullvissu að nú væri kominn sumartími, brúnka framundan, jafnvel örlítill sólbruni á öxlum en hver hefur nú kvartað yfir slíku? Smávegis sólbruni er fyllilega ásættanlegur fórnarkostnaður fyrir D-vítamínupptöku og hraustlegt og sólbrúnt hörund. Undanrennublái húðliturinn sem einkennir þá Íslendinga sem ekki hafa stungið af til sólarlanda þetta sumarið er lítil prýði og jafnvel orðinn leiðigjarn. Í einu af mínum sólríkari bjartsýnisköstum í annars regnvotum júnímánuði fór ég meira að segja í verslun í bænum og keypti mér nýjar stuttbuxur og sérlega lekkeran stuttermabol í stíl. Afgreiðslustúlkan í búðinni átti bágt með að hemja krampakenndar hlátursrokurnar því þennan sama dag gekk á með slagveðurshryðjum á höfuðborgarsvæðinu.
Sumarblóm eru ómissandi hluti af sumrinu, fátt gleður meira en litrík blóm í skemmtilegum pottum, lífga upp á tilveruna, hughreysta eftir grámósku vetrarins. Sumarblómin mín voru komin í pottana á lögboðnum tíma, þann 16. júní, tilbúin fyrir þjóðhátíðina. Þau hímdu veðurbarin í pottunum allt þar til sólardagurinn rann upp bjartur og fagur, sumardagurinn í júní, með bláum himni og fjallasýn í allar áttir. Þá rifjaðist meðal annars upp landslagið á Suðurlandi, maður gleymir ósjálfrátt því sem maður hefur ekki fyrir augunum. Þennan fagra júnídag blasti við fagur fjallahringur, gamlir vinir sem höfðu horfið úr lífi Sunnlendinga um langa hríð en minntu nú rækilega á sig, höfðu engu gleymt sjálfir, biðu bara þolinmóðir í þokunni, oft búnir að upplifa tímabundna gleymsku mannanna. Þennan fallega dag fögnuðu sumarblómin sólinni með því að blómstra af einskærri gleði, loksins fengu þau tækifæri til að sýna sínar bestu hliðar.
Á Hvanneyri heyrði ég fyrst orðatiltækið ,,þetta fer alltaf einhvern veginn en þó aldrei verr en illa“ og hefur þetta orðatiltæki aldrei eignast neinn sérstakan uppáhaldsstað í hugskoti mínu. Það flaug þó í gegnum hug mér daginn eftir sólardaginn í júní. Þessum fagra heiðskíra degi fylgdi heilmikið næturfrost og urðu nokkur af sumarblómunum mínum frostinu að bráð. Þau náðu sem sagt að þrauka heila fjóra sólarhringa áður en sumarfrostið varð þeim að falli. Eftirlifandi blómin létu töluvert á sjá en náðu þó að tóra í gegnum frostnóttina. Hins vegar löskuðust þau verulega í hagléli nokkrum dögum síðar. Sumarblómapottarnir mínir, sem alla jafna eru til mikillar prýði, eru því ekki upp á marga fiska þetta sumarið, að minnsta kosti enn sem komið er. Sko, þarna datt ég í örlítið bjartsýniskast…
Mér er sagt að eitt af því mikilvæga í lífinu sé að halda í vonina. Ég hef því ákveðið að taka þann pólinn í hæðina og jafnframt að reyna að muna að vera þakklát fyrir það sem ég hef. Þannig er ég mjög þakklát fyrir það að grenitrén mín eru græn og falleg og hafa ekki orðið sitkalús að bráð (hér má hafa í huga að eins dauði er annars brauð, dauði sitkalúsa í frostkuldum í vetur hefur í för með sér heilbrigð grenitré). Tímaskyn náttúrunnar hefur eitthvað ruglast í vorkuldunum þannig að eitt af eplatrjánum mínum opnaði fyrstu blómin nú í byrjun júlí, um það bil tveimur mánuðum á eftir áætlun en ég er mjög ánægð með það, nú get ég notið þessara blóma í sumarfríinu en hefði annars misst af þeim. Páskaliljurnar mínar eru í fullum blóma, þrátt fyrir að páskarnir séu löngu liðnir og svei mér þá ef ég sá ekki rjúpupar í tilhugalífinu í móanum áðan. Ég er nú ekki sérfræðingur í tilhugalífi rjúpna en einhvern veginn hafði ég ímyndað mér að það ætti sér stað mun fyrr á vorin, um þetta leyti ætti að vera halarófa af ungum á eftir kvenfuglinum, ekki einn áhugasamur og ástsjúkur karri, til í allt.
Svilkona mín er fróð og vitur kona. Ég hitti hana í búð um daginn og við tókum tal saman, ekki síst um veðurfarið. Hún sagði að sennilega væri þetta nú ekki langversta sumar sögunnar, veðurminnið væri bara almennt mjög lélegt hjá okkur leikmönnum. Jafnframt sagði hún mér að gömul kona hefði upplýst hana um það að sumarið kæmi þann 13. júlí og það yrði gott. Sjálf ætlaði hún að gefa sumrinu svigrúm til 15. júlí, vatveir dagar væru ágætis skekkjumörk, eftir það er væntanlega hægt að setja dagsektir á rigninguna. Ég ákvað þar á staðnum að taka þessi orð trúanleg og trúi því og treysti að sumarið mæti á þessum tíma. Mikið hlakka ég til að vígja nýju stuttbuxurnar.
Myndin hér að ofan er sorglegur vitnisburður um þetta blauta og kalda sumar; freðið fiðrildablóm og kalinn kólus.
Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur og bjartsýnismanneskja
1 Ummæli
Takk fyrir góðan pistil. Það er gott að lifa í bjartsýni og þakka fyrir þessa tvo sólardaga á Suðurlandi. En að fá svona frostnótt um sumarsólstöður, er ekki beint það sem maður óskar sér. En við búum á útjaðri hins byggilega heims. Um verslunarmannahelgina í fyrra féllu kartöflugrösin mín, bara stönglarnir stóðu eftir. En bráðum fer sólin að skína aftur, jafnvel held ég að það verði á morgun, en ef ekki þá verður sól í sinni.
Comments are closed.
Add Comment