Hvalfjörður og Kaldidalur

Á dögunum brugðum við okkur fjölskyldan í laugardagsbíltúr með góðum félögum.  Lagt var af stað eldsnemma á laugardagsmorgni og verður það nú að segjast eins og er að fjölskyldumeðlimir voru mjög misupplagðir til ferðalagsins svona í upphafi ferðar.  Stefnan var tekin í Borgarfjörð og var ekið um Hvalfjörð.  Í æskuminningunni er Hvalfjörður sveipaður grámóskulegri leiðindaþoku, endalausi fjörðurinn sem allir neyddust til að afplána til að komast heim, snarbrattar og örugglega lífshættulegar hlíðar niður í stórgrýtta fjöru, óteljandi blindbeygjur sem opinberuðu enn einn voginn sem þurfti að krækja fyrir, ólýsanleg gleðitilfinningin þegar ljósin í borginni sáust blika í fjarska og vonbrigðin þegar uppgötvaðist að enn ætti eftir að fara Kjalarnesið og Kollafjörðinn.  Hvalfjörður nútímans er ekki sami fjörðurinn.  Nú hefur maður val um það að fara göngin eða fjörðinn og sennilega hefur enginn fjörður fríkkað jafn mikið við það að vera tekinn úr umferð.  Að sama skapi tel ég að veðurfar hafi breyst umtalsvert í Hvalfirði og byggi ég það á vísindalegum athugunum á veðri þau fjögur til fimm skipti sem ég hef ekið Hvalfjörðinn síðustu ár.  Undantekningalaust hefur veður verið sérlega bjart, jafnvel heiðskírt, fjörðurinn allt að því spegilsléttur og fjallasýnin mikilfengleg.  Það er nú eitthvað annað en Hvalfjörður fortíðarinnar, með þoku, slagviðrisrigningu og jafnvel kolniðamyrkri og skafrenningi.

Jæja, upp úr Hvalfirði var farið yfir Dragann og Hestháls í Borgarfjörðinn sem skartaði sínu fegursta í tilefni dagsins.  Bústnar kindur bitu fagurgrænt gras á túnum, grunlausar um það írafár sem tilvist þeirra hefur valdið undanfarna daga og vikur.  Í Reykholti var hægt að bregða sér á snyrtingu fyrir 100 krónur og örtröð var á bílastæðinu við Hraunfossa.  Í Húsafelli voru ferðalangar fóðraðir á þjóðlegri og ljúffengri kjötsúpu, staðgóðri og matarmikilli enda engin vanþörf á, nú skyldi halda á Kaldadal.

Kaldidalur ber svo sannarlega nafn með rentu.  Nafnið eitt er hrollvekjandi, návistin við jöklana lækkar hitastigið væntanlega til muna en síðast en ekki síst er vegurinn svo skelfilegur að bara tilhugsunin um hann framkallar gæsahúð um allan kroppinn.  Eftir á að hyggja hefði kannski verið skynsamlegt að hafa með sér nýrnabelti en slíka fyrirhyggju hafði hópurinn nú ekki.  Stundum veltir maður því fyrir sér hvort að vegur geti orðið svo holóttur að holurnar nái allar saman og hann verði sléttur.  Ef vísindamenn Vegagerðarinnar vilja rannsaka þetta væri vegurinn um Kaldadal fyrirtaks rannsóknarvettvangur.  Þar er hægt að finna alls konar tilbrigði við holur, þvottabretti (langar holur sem liggja þversum á veginum), djúpar holur öðrum megin á veginum (hægt að sneiða framhjá þeim ef enginn bíll kemur á móti), djúpar holur sem ná þvert yfir veginn (verða að stórum drullupollum í rigningu og skapa ómælda atvinnu fyrir bílaþvottastöðvar) og svo fjölbreytt úrval af grunnum holum  sem fylla upp í restina af veginum.  Það skýst enginn venjulegur ferðalangur um Kaldadal, sú ferð er seinfarin ætli maður að láta bílinn duga lengur.  Annað sem er skynsamlegt að hafa í huga er að myndatökur út um bílgluggann á ferð eru ákaflega krefjandi, það er allt eins víst að ökumaðurinn aki í holu akkúrat þegar smellt er af.  Myndirnar mínar eru að minnsta kosti ekki mjög skýrar.

Af Kaldadal var ákveðið að beygja til vinstri inn á línuveginn sem liggur yfir á Kjalveg og aka fyrir norðan Skjaldbreiði og Hlöðufell.  Um þetta leyti var aðeins farið að þykkna upp og brátt fór að rigna.  Línuvegurinn liggur um hrjóstrugt sandborið hraun og höfðu farþegar í aftursæti orð á því að þetta umhverfi væri mjög fráhrindandi, þarna sæist varla nokkur gróður og þrifist örugglega engin lífvera,  engir fuglar, engar mýs, enginn refur. Að þeim orðum nýslepptum blasti við ótrúleg sýn, á móti bílnum á miðjum veginum gekk túristi með stóran bakpoka, hráblautur og dálítið haltur.  Hann gekk álútur, virtist niðursokkinn í eigin hugsanir, hrökk dálítið við þegar bílstjórinn halaði niður rúðuna og spurði á hvaða leið hann væri.  ,,I‘m going there“ svaraði hann og benti í áttina sem við komum úr, setti svo aftur undir sig hausinn og hélt áfram göngu sinni, vildi greinilega upplifa þetta hrjóstruga umhverfi óáreittur.  Við héldum því áfram för en urðum dálítið fegin þegar við nokkru síðar mættum jeppa með laust pláss í aftursætinu, sáum fyrir okkur að kannski væru þarna komnar álitlegar bjargvættir túristans.

Ferðalag sem hefur það að markmiði að njóta fagurrar fjallasýnar verður dálítið misheppnað ef skyggnið er ekkert.  Við verðum því að trúa  því að Hlöðufellið sé enn á sínum stað, ekki sást af því tangur né tetur.  Brátt stytti þó upp og Jarlhetturnar blöstu við af Haukadalsheiðinni, má segja að þær hafa bjargað deginum.

Guðríður Helgadóttir, ferðalangur og garðyrkjufræðingur

Related posts

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!

Músagangur