Hundur með dreng í bandi

Á sólríkum sunnudagseftirmiðdegi síðla vors komu gestir í kaffi í sumarbústað okkar hjóna, hjón með barnabarn sitt, hraustlegan og brosmildan sex ára dreng, sem eins og öðrum drengjum á hans aldri eru allir vegir ákaflega greiðfærir, engin verkefni óviðráðanleg, fullkomlega sannfærðir um eigin getu.  Gestirnir gengu í bæinn og þáðu kaffibrauð og fyrst um sinn sat pilturinn prúður og stilltur við kaffiborðið, andaði að sér vöfflu með sultu og rjóma hraðar en auga á festi og hesthúsaði margvíslegt sætabrauð sem heilsumeðvitaðir foreldrar myndu líklega aldrei bjóða óhörðnuðum börnum. Eftir því sem kökustaflinn lækkaði hýrnaði smám saman yfir piltinum og brátt var hann farinn að ókyrrast mjög. Með í för voru nokkur leikföng í poka og eitt augnablik var eins og hann hyggðist ætla að leika sér með þau en svo snerist honum hugur og hann spurði afa sinn hvort hann mætti fara að labba með hundinn í bandi.

Í bíl hjónanna beið hundurinn þeirra, háfættur, grannvaxinn, snögghærður, nánast ólífugrænn á lit, rennilegur hlaupahundur í góðri þjálfun, greinilega vanur mikilli hreyfingu, örugglega tvö til þrjú hestöfl innanborðs. Yfirleitt er þessi hundur víst sallarólegur og hefur mest gaman af kjassi og klappi en á það til að vera mjög æstur þegar hann kemur á nýjar slóðir og æðir um eins og byssubrenndur í nokkra stund, áður en hann róast aftur niður.  Afinn hugsaði sig um stutta stund og svaraði svo piltinum að jú, hann mætti alveg labba með hundinn en hann mætti ALLS EKKI sleppa bandinu, hvað sem tautaði og raulaði, annars gæti hundurinn hreinlega hlaupið út í buskann.  Stráksi brosti út að eyrum, hafði greinilega heyrt þessa þaulæfðu ræðu áður og hafði alla trú á því að hann gæti svo sannarlega haft hemil á hvutta.

Saman gengu þeir svo langfeðgarnir út að bílnum og skipulögðu aðgerðir á meðan kaffiboðið hafði sinn gang innanhúss. Örstuttu síðar heyrðist hávær og langvarandi skrækur og fór hratt hækkandi, svipað og þegar lögreglubíll með sýrenuna á kemur æðandi að manni, dopplerhrifin í allri sinni dýrð og nú mátti greina orðaskil.  ,,AMMA, SJÁÐU MIG!!!” Við amman litum snarlega út um gluggann. Þar sáum við hundinn á harðastökki fram hjá glugganum og drenginn hangandi á bandinu, láréttan í loftinu, gleiðbrosandi í hröðu lágflugi, staðráðinn í að missa ekki takið. Amman náfölnaði og ég kannski aðeins líka til hluttekningar, ég man nefnilega vel eftir því þegar yngsta systir mín tók flugið í allt of stórum stígvélum þarna um árið, flugferðin gekk svona líka ljómandi vel og hafði fólk orð á að annar eins flugþokki hefði hreinlega aldrei fyrirfundist á byggðu bóli á Íslandi en lendingin aftur á móti hefði valdið nokkrum vonbrigðum, auk þeirra marbletta og brákuðu rifbeina sem systirin þurfti að kljást við næstu daga. Sennilega eru sex ára drengir betur til harkalegrar lendingar fallnir en fertugar konur, að minnsta kosti lenti strákur mjúklega á grasbala og í sömu svifum snarsnerist hundurinn og stökk nú af stað í hina áttina.  Nú skipti pilturinn um aðferð og í stað þess að svífa í lausu lofti á eftir hundinum hallaði hann sér aftur, setti hælana í jörðina og spyrnti við en dróst nú yfir malarborið bílastæðið á töluverðri ferð, svo fæturnir hreinlega grófust niður í mölina, tveir langir skurðir skrýða nú bílastæðið og væntanlega þarf að kalla til stórvirkar vinnuvélar til að fylla upp í þá áður en lausamunir týnast og slys verða á fólki. 

Enn eina ferðina skipti hundurinn um hlaupastefnu og nú brá drengurinn á það ráð að láta dragast eftir jörðinni til að stöðva hundinn, hinar aðferðirnar höfðu borið frekar takmarkaðan árangur.  Í raun er ótrúlegt hvað er gott í barnafötum nú til dags, fötin voru tiltölulega lítið rifin eftir heila umferð í mölinni á bílastæðinu, að ekki sé talað um veltinginn í torfærunum eftir viðspyrnuumferðina. Amman var nú staðin upp og gerði sig líklega til umönnunarstarfa en rétt í því stöðvaðist hundurinn, móður og másandi eftir erfiðið, strákurinn spratt á fætur, að mestu leyti ósár,  sigri hrósandi og kallaði til afa síns:  ,,Afi, sjáðu, ég sleppti ekki bandinu!!”  Hundurinn glotti einnig við tönn, örugglega jafn ánægður með sig eftir að hafa sprangað um með dreng í bandi.

Sá grunur læddist að mér á þessari stundu að þetta væri ekki fyrsta viðureign þeirra félaga.  Það er að minnsta kosti á hreinu að ætti ég hund veit ég alveg hvern ég myndi fá til að viðra hann.

Guðríður Helgadóttir, garðyrkjufræðingur

Related posts

Sumar- og nagladekk

Að vökva lífsblómið

Til bágborinnar skammar!